Almennar fréttir

Rauði krossinn á Íslandi fagnar samningi stjórnvalda við Alþjóðaráðið

29. febrúar 2024

Rauði krossinn á Íslandi lýsir yfir mikilli ánægju með nýjan samstarfssamning íslenskra stjórnvalda við Alþjóðaráð Rauða krossins.

Anna Jóhannsdóttir, staðgengill ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins, ásamt Robert Mardini, framkvæmdastjóra ICRC, eftir undirritun samningsins í Genf á miðvikudag. MYND/STJORNARRADID.IS

Á miðvikudag undirrituðu íslensk stjórnvöld nýjan samstarfssamning um stuðning Íslands við Alþjóðaráð Rauða krossins til þriggja ára. Framlög íslenskra stjórnvalda munu nema 30 milljónum króna á ári til ársins 2026. Stuðningur alþjóðaráðsins snýr ekki síst að lagalegri vernd og aðstoð við fórnarlömb vopnaðra átaka á grundvelli mannúðarlaga. Þetta kom fram á vef Stjórnarráðsins.

„Þessi nýi samningur við Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) er kærkomin viðbót við það farsæla samstarf sem landsfélagið hér á Íslandi hefur átt við stjórnvöld til margra ára og við fögnum því að stjórnvöld setji aukinn kraft í mannúðaraðstoð á þennan hátt,“ segir Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi.

„Alla jafna sinna landsfélög starfi Rauða krossins í hverju landi fyrir sig, en Alþjóðaráð Rauða krossins er sá hluti alþjóðahreyfingarinnar sem sinnir störfum á stríðshrjáðum svæðum,“ útskýrir Kristín. „Það er sannarlega full þörf á að styrkja þeirra erfiða og gríðarlega mikilvæga starf, en því miður eru litlar líkur á að verkefni þeirra verði færri eða umfangsminni á næstu árum.“

Öflugt samstarf stjórnvalda og Rauða krossins

Auk samningsins sem undirritaður var á miðvikudag eiga íslensk stjórnvöld í samstarfi við Rauða krossinn á Íslandi á sviði mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu og styðja verkefni Alþjóðaráðsins og Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans (regnhlífarsamtök landsfélaga um allan heim) í gegnum rammasamninga við Rauða krossinn á Íslandi.

Í lok janúar var einnig tilkynnt um 25 milljón króna viðbótarframlag til Rauða krossins á Íslandi vegna viðbragða Alþjóðaráðsins við neyðarástandinu sem ríkir fyrir botni Miðjarðarhafs.