Almennar fréttir

Rauði krossinn á Íslandi svarar neyðarbeiðni með hjálp landsmanna

03. maí 2019

Ljóst er að mikil og strembin vinna er framundan við uppbyggingu eftir þá eyðileggingu sem fellibyljirnir Idai og Keneth ásamt ofsaflóðum ollu í nokkrum fátækustu löndum heims í sunnanverðri Afríku í mars. Síðustu vikur hefur Rauði krossinn á Íslandi staðið fyrir söfnun til hjálpar fórnarlömbum ofsaflóðanna og er söfnunin enn í gangi. Rúmar 41 milljónir hafa verið sendar út sem nýtast í hjálparstörf á hamfarasvæðnum.

Ljóst er að mikil og strembin vinna er framundan við uppbyggingu eftir þá eyðileggingu sem fellibyljirnir Idai og Keneth ásamt ofsaflóðum ollu í nokkrum fátækustu löndum heims í sunnanverðri Afríku í mars. Eins og Rauði krossinn hefur vakið athygli á, er tjónið gríðarlegt, mannfall mikið og eiga hundruð þúsund íbúa um sárt að binda á svæðinu. Idai olli einna mestum skaða í Mósambík þar sem annar fellibylur, Kenneth, gekk yfir landið fyrir rúmri viku. Síðustu vikur hefur Rauði krossinn á Íslandi staðið fyrir söfnun til hjálpar fórnarlömbum ofsaflóðanna og er söfnunin enn í gangi. Rúmar 41 milljónir hafa verið sendar út sem nýtast í hjálparstörf á hamfarasvæðnum.

\"DSC_0705\"Mynd: Corrie Butler/IFRC

Hamfarirnar sem gengu yfir Mósambík, Malaví og Simbabve urðu rúmlega þúsund manns að bana og eru yfir 200 þúsund heimili eyðilögð eða skemmd. Þá liggja þúsundir akra af uppskeru undir skemmdum vegna ofsaflóðanna sem ógnar mataröryggi og lífsviðurværi enn frekar. Rauði krossinn hóf hjálparstarf áður en fellibylurinn reið yfir svæðið og síðan þá hafa sjálfboðaliðar unnið sleitulaust við að dreifa brýnustu nauðsynjum til nauðstaddra. Svo mikil er neyðin að Rauði krossinn hefur skipulagt hjálparstarf á hamfarasvæðunum í Mósambík og Malaví til næstu 2 ára.

Margt smátt gerir eitt stórt

Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans sendu fljótt frá sér neyðarbeiðni og óskuðu eftir aðstoð. Með dyggri aðstoð Mannvina Rauða krossins, utanríkisráðuneytinu, deildum innan Rauða krossins ásamt framlögum frá almenningi sem lagt hefur söfnuninni lið, hefur Rauði krossinn á Íslandi tekið þátt í að leggja hönd á plóg. Nú hafa rúmlega 41 milljón króna verið sendar út til Malaví og Mósambík sem skila sér í lífsbjargandi aðstoð á hamfarasvæðunum, en Rauði krossinn á Íslandi hefur undanfarna áratugi unnið náið með systurfélögum sínum í löndunum tveimur og myndast hafa náin tengsl milli félaganna. Því má segja að málið standi okkur nærri.

„Það er frábært að sjá hversu reiðubúnir landsmenn eru að rétta fram hjálparhönd til þeirra sem eru í þörf“ segir Atli Viðar Thorstensen, sviðsstjóri hjá Rauða krossinum. „Þessi lönd sem urðu fyrir þessum ofsafengnu náttúruhamförum eru meðal fátækustu ríkja veraldar og þurfa á stuðningi alþjóðasamfélagsins að halda. Styrkur Rauða krossins er að við erum hreyfing sem er borinn upp af sjálfboðaliðum, heimafólki á hamfarasvæðunum, sem þekkja aðstæður út og inn.“

Mósambík í sérstaklega viðkvæmari stöðu

Tveir fellibyljir hafa riðið yfir Mósabík á stuttum tíma. Ekki er vitað til þess að tveir svo kraftmiklir fellibyljir hafi nokkurn tímann áður skollið á Mósambík innan sömu árstíðar og hvað þá með svo skömmu millibili. Rauði krossinn vinnur að því að veita fólki aðgang að hreinlætisaðstöðu, húsaskjóli, heilbrigðisaðstoð og hreinu vatni.

Hvert einasta framlag skiptir máli

Rauði krossinn á Íslandi vill skila innilegum þakklætiskveðjum til þeirra sem nú þegar hafa lagt þessu svo mikilvæga málefni lið. Þú getur tekið þátt í söfnuninni með 2900 kr. framlagi og þannig veitt fólki í mikilli neyð lífsnauðsynlega aðstoð með því að senda skilaboðin HJALP í númerið 1900. Einnig má leggja inn á reikning 0342-26-12, kt. 530269-2649. Þá vill Rauði krossinn benda á að Mannvinir Rauða krossins gera okkur kleyft að bregðast hratt við neyð á sama tíma og þeir styðja líka við langtímaþróunaraðstoð, meðal annars í Malaví þar sem ljóst er að mikið uppbyggingarstarf er fyrir höndum. Hægt er að gerast Mannvinur Rauða krossins hér.