Almennar fréttir
Rauði krossinn á Íslandi vekur athygli á vanmætti heilbrigðiskerfa fátækra ríkja í Afríku
08. apríl 2020
Mikilvægt er að bregðast við strax áður en faraldurinn nær útbreiðslu.
COVID-19 er heimsfaraldur sem skapar ástand sem engin heilbrigðisyfirvöld geta haft fullkomna stjórn á. Heilbrigðiskerfi sem talin eru með þeim bestu í heimi, standa sum hver ekki undir álaginu. Það gefur því auga leið að það stefnir í skelfilegt ástand í fátækari löndum heims ef faraldurinn nær þar útbreiðslu. Fyrir viðkvæm samfélög, þar sem grunnheilbrigðisþjónusta er þegar af skornum skammti, fátækt ríkir og jafnvel átök geisa skiptir öllu máli að bregðast strax við og koma í veg fyrir að faraldurinn nái útbreiðslu. Mörg fátæk lönd glíma auk þess þegar við útbreiðslu annarra lífshættulegra smitsjúkdóma, eins og ebólu, kóleru og berkla. Grunnstoðirnar hafa einfaldlega ekki bolmagn til þess að takast á við útbreiðslu og afleiðingar þessa faraldurs. Hjálparstofnanir um heim allan vinna nú í kappi við tímann til að styðja stjórnvöld þessara landa í því að kljást við neyðarástandið.
Forvarnir og fræðsla er eitt það mikilvægasta
Eitt helsta vopnið gegn COVID-19 er fræðsla um hvernig verjast megi smiti, t.d. með handþvotti og að forðast fjölmenni. Sjálfboðaliðar Rauða kross hreyfingarinnar um heim allan hafa hlotið öfluga þjálfun til að vinna með berskjölduðum íbúum og jaðarhópum. Sjálfboðaliðarnir búa sjálfir í þeim samfélögum sem þeir vinna með dags daglega og það traust sem þeir hafa áunnið sér er gríðarlega mikilvægt á tímum sem þessum því falsfréttir og hættulegir orðrómar eru tíðir fylgifiskar smitfaraldra. Rauði krossinn vinnur stíft að því að hrekja orðróma og miðla réttum upplýsingum. Til dæmis flýgur sú fiskisaga í Malaví, að sígarettureykingar forði fólki frá smiti og að aðeins hvítt fólk geti smitast. Það skiptir öllu máli að koma réttum upplýsingum til þessara berskjölduðu hópa til að forðast útbreiðslu sem vanmáttug heilbrigðiskerfi geta ekki staðið af sér.
Mannvinir styðja við alþjóðastarf Rauða krossins á Íslandi.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Mánuður frá hamförunum: Enn mikil neyð
Alþjóðastarf 28. apríl 2025„Fólk heldur að um leið og fjölmiðlar hætti að fjalla um hlutina þá sé ekkert að gerast,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. Svo sé hins vegar alls ekki. „Það geta liðið mánuðir og jafnvel ár þar til fólk verður búið að ná sér eftir þetta áfall.“

Sjálfboðaliðastörf eru valdeflandi
Innanlandsstarf 07. apríl 2025Þær eru úrræðagóðar, framtakssamar og lífsglaðar. Sjálfboðaliðar ársins 2024 hjá höfuðborgardeild Rauða krossins kenna ensku, íslensku og heimsækja fólk og nálgast ólík verkefni sín af einstakri fagmennsku.

„Samfélagið sér framlag okkar og það er mikil hvatning“
Innanlandsstarf 03. apríl 2025Starfið í Eyjafjarðardeild Rauða krossins er á fleygiferð og mikið um að vera, segir Ingibjörg Halldórsdóttir deildarstjóri. Aldrei hafi fleiri sjálfboðaliðar starfað hjá deildinni og á síðasta ári.