Almennar fréttir

Rauði krossinn hvetur til móttöku kvótaflóttafólks og lýsir áhyggjum af vaxandi útlendingaandúð

04. maí 2024

Rauði krossinn samþykkti tvær ályktanir á aðalfundi sínum fyrr í dag þar sem félagið skorar á stjórnvöld að standa við áform um að bjóða hingað kvótaflóttafólki og lýsir áhyggjum af vaxandi andúð í garð innflytjenda og flóttafólks.

Frá aðalfundi Rauða krossins á Íslandi 4. maí 2024.

Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar á aðalfundi Rauða krossins á Íslandi sem fór fram á Hótel Reykjavík Grand í dag, 4. maí:

Ályktun aðalfundar um móttöku kvótaflóttafólks

Aldrei hefur jafn margt fólk lagt á flótta frá heimkynnum sínum og nú er raunin. Um 110 milljónir, manneskjur af holdi og blóði, eru í þessari hörmulegu stöðu, og af þeim er nær helmingur enn á barnsaldri.

Rauði krossinn stendur ávallt með þeim sem minnst mega sín á hverjum tíma. Félagið skorar á stjórnvöld að standa við þau áform sem fram koma í stjórnarsáttmála um að halda áfram að bjóða hingað kvótaflóttafólki, með áherslu á einstaklinga og fjölskyldur í viðkvæmri stöðu, og bjóða þeim vernd og öryggi. Það er í raun ein af fáum öruggum leiðum flóttafólks í skjól.

Stjórnvöld ítrekuðu þessi áform sín með yfirlýsingu á ríkjaráðstefnu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í desember á síðasta ári og í svonefndri heildarsýn í útlendingamálum í febrúar síðastliðnum. Engar ákvarðanir hafa verið teknar um móttöku kvótaflóttafólks frá árinu 2019. Rauði krossinn skorar á stjórnvöld að bregðast við.

 Ályktun aðalfundar um hættur af vaxandi útlendingaandúð

Rauði krossinn á Íslandi lýsir áhyggjum af vaxandi andúð í garð innflytjenda og flóttafólks sem veldur aukinni spennu og skautun í íslensku samfélagi.

Samfélag okkar er að ganga í gegnum vaxtarverki þar sem íbúum með erlendan bakgrunn hefur fjölgað hratt á skömmum tíma. Slíkar breytingar taka eðlilega á.

Opinber umræða sem elur á sundurlyndi milli þjóða og þjóðfélagshópa er fyrirferðarmikil víða um heim. Rauði krossinn vinnur að opnara samfélagi þar sem fólk sýnir aðstæðum hvers annars skilning, virðir fjölbreytileika og gefur hvert öðru tækifæri til að taka virkan þátt í samfélaginu. Við gerum þetta með því að tala fyrir mannúðargildum, mannréttindum, virkri samfélagsþátttöku og sjálfboðnu starfi. Opið, fjölbreytt og friðsælt samfélag byggir á aðkomu ólíks fólks á jafnréttisgrundvelli og það er ávallt styrkleiki fyrir samfélagið. Rauði krossinn skorar á landsmenn alla og stjórnmálafólk að standa vörð um hugsjónina um mannúð, velja orð sín gaumgæfilega, fagna fjölbreytileikanum og taka höndum saman um að byggja upp öfluga innviði og samfélag þar sem við öll njótum jafnra tækifæra.