Almennar fréttir

Rauði krossinn í samstarf við Háskóla Íslands

06. desember 2018

Háskóli Íslands afhendir tölvur sem nýtast munu í margvísleg verkefni félagsins til stuðnings flóttafólki.

Fulltrúar Rauða krossins á Íslandi tóku í vikunni við tíu tölvum sem nýtast munu í margvísleg verkefni félagsins til stuðnings flóttafólki. Við sama tækifæri undirrituðu Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins, samkomulag um að Háskólinn láti Rauða krossinum árlega í té tölvur sem hætt er að nota í skólanum.

Í samkomulaginu kemur fram að Háskólinn afhendi Rauða krossinum á Íslandi tölvurnar til notkunar í starfi sínu og þær muni nýtast því flóttafólki sem Rauði krossinn vinnur með, t.d. í íslenskunámi, almennu námi og við atvinnu- og húsnæðisleit. 

Við afhendingu tölvanna þakkaði rektor öllu starfsfólki Háskólans sem hefði komið að verkefninu og sagði það njóta hlýhugs og stuðnings fólks um allan háskóla. „Ánægjulegt er að tryggja áframhald verkefnisins með formlegu samkomulagi milli Háskóla Íslands og Rauða krossins. Við munum afhenda fleiri tölvur næsta sumar svo að Rauði krossinn geti nestað fleiri nemendur úr hópi flóttafólks með tölvum í tæka tíð fyrir haustið,“ sagði Jón Atli. 

Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi segir: „Það er afar mikilvægt að stutt sé við nám flóttafólks og ekki síst unga fólksins í þeirra hópi. Mannauður samfélagsins verður meiri og fjölbreyttari með komu flóttafólks og annarra innflytjenda og við þurfum að veita þeim tækifæri til að eflast og blómstra í nýjum heimkynnum. Við erum afar ánægð með þetta samstarf við Háskólann.“

Fréttir af starfinu

Fréttayfirlit

Mannúð í heila öld - Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli

Almennar fréttir 10. desember 2024

Í dag, 10. desember, fagnar Rauði krossinn á Íslandi 100 ára afmæli sínu. Árið 1924 var félagið stofnað vegna aukinnar vitundar um þörfina fyrir mannúðarstarfsemi á Íslandi en skortur var á kerfisbundinni neyðaraðstoð og félagslegum stuðningi fyrir þá sem lentu í áföllum. Í dag er Rauði krossinn orðinn að ómissandi hluta af samfélaginu, með sjálfboðaliðum og starfsmönnum um allt land. 

Rauði krossinn 100 ára - söfnun í samstarfi við Finnsson & Co

Almennar fréttir 03. desember 2024

Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli sínu þann 10. desember 2024. Af því tilefni höfum við sett af stað landssöfnun þar sem við óskum eftir stuðningi fyrirtækja og félagasamtaka um land allt við innlend verkefni RKÍ. Við njótum liðsinnis fyrirtækisins Finnsson & Co við söfnunina, en það hefur áður sinnt sambærilegum útgáfu- og fjáröflunarverkefnum.

Kristín S. Hjálmtýsdóttir lætur af störfum sem framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi

Almennar fréttir 02. desember 2024

Stjórn Rauða krossins á Íslandi og Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri félagsins síðastliðin 9 ár, hafa gert samkomulag um starfslok hennar. Viðræður um starfslokin áttu sér stað að frumkvæði Kristínar, sem hefur nú þegar látið af störfum. Arna Harðardóttir sem gengt hefur starfi fjármálastjóra mun taka við verkefnum framkvæmdastjóra samhliða sínum störfum þar til nýr framkvæmdastjóri hefur verið ráðinn. Staðan verður auglýst innan skamms.