Almennar fréttir

Rauði krossinn stóð fyrir sálfélagalegum stuðningi fyrir fólk frá Palestínu

26. maí 2021

Í gær bauð Rauði krossinn á Íslandi palestínsku flóttafólki og umsækjendum um alþjóðlega vernd til stuðningsfundar. Fundurinn fór fram á arabísku en markmiðið var að gefa fólki færi á að ræða eigin líðan vegna stöðunnar í heimalandi sínu.

Í gær bauð Rauði krossinn á Íslandi palestínsku flóttafólki og umsækjendum um alþjóðlega vernd hér á landi til stuðningsfundar á landsskrifstofu Rauða krossins við Efstaleiti. Fundurinn fór fram á arabísku en markmiðið var að gefa fólki færi á að ræða eigin líðan vegna stöðunnar í heimalandi sínu.

Dr. Fathy Flefel, sálfræðingur og stjórnandi verkefna palestínska Rauða hálfmánans á sviði geðheilsu og sálfélagslegs stuðnings, ávarpaði fundinn frá Palestínu og ræddi um mikilvægi þess að hlúa að eigin andlegu líðan á tímum sem þessum. Um 30 einstaklingar sóttu fundinn, ýmist á staðnum eða í gegnum fjarfund.

Í erindi Dr. Fathy kom meðal annars fram mikilvægi þess að halda rútínu þó ástandið sé erfitt og óvissan sé mikil en þó sé afar eðlilegt að finna fyrir hjálparleysi og að finnast erfitt að vera svo langt í burtu frá fjölskyldu, ættingjum og vinum. Þá sagði hann að algengt sé að fólk upplifi samviskubit yfir því að vera í friðsælu samfélagi á meðan átök eiga sér stað í heimalandi sínu en að við verðum sjálf að taka ábyrgð á eigin líðan og leita stuðnings, bæði hjá fagfólki en einnig hjá hvert öðru. Mikilvægt sé að muna að öryggið og hversdagurinn sem fólk frá Palestínu búsett á Íslandi kunni að búa við þýði ekki að það hafi snúið baki við eða gleymt fólkinu heima fyrir.

Á undanförnum árum hefur Dr. Fathy unnið mikið með börnum og ungu fólki í Palestínu, en Rauði krossinn á Íslandi hefur um árabil stutt við verkefni á sviði bættrar geðheilsu og sálfélagslegs stuðnings þar ytra.

Dr. Fathy Flefel:

Það eru bein tengsl á milli áfallareynslu og andlegra veikinda, til dæmis ótta, kvíða, áfallastreituröskunar, þunglyndis og svo framvegis. Þá getur áfallareynsla staðið í vegi fyrir því að börn geti þroskast í metnaðarfulla og lífsglaða fullorðna einstaklinga.

Það að lifa við stríðsátök takamarkar getu barna til að þekkja og forðast hættur, dregur úr samskiptum þeirra við fullorðna og hindrar getur þeirra til að hafa stjórn á eigin áhyggjum og kvíða. Jafnvel alvarlegra er að aðstæður sem þessar koma oft í veg fyrir að börn finni merkingu í eigin lífi sem getur leitt af sér heila kynslóð sem hefur misst hvatann til að lifa af þær áskoranir og hættur sem framtíðin kann að bera í skauti sér. Það að börn í Palestínu lifi við vopnuð átök og stöðuga ógn er alvarlegt brot á alþjóðalögum sem tryggja þeim grundvallarréttindi eins og reisn og öryggi.