Almennar fréttir
Rauði krossinn telur ekki forsvaranlegt að senda flóttafólk til Grikklands
07. maí 2021
Að gefnu tilefni ítrekar Rauði krossinn þá afstöðu sína að fyrirhugaðar endursendingar flóttafólks til Grikklands séu ekki forsvaranlegar við núverandi aðstæður og hvetur íslensk stjórnvöld til að hverfa frá þeim.
Að gefnu tilefni ítrekar Rauði krossinn á Íslandi þá afstöðu sína að fyrirhugaðar endursendingar flóttafólks til Grikklands séu ekki forsvaranlegar við núverandi aðstæður. Sú afstaða Rauða krossins byggir á fjölmörgum frásögnum skjólstæðinga félagsins sem hafa leitað eftir alþjóðlegri vernd hér á landi eftir að hafa verið veitt vernd í Grikklandi auk þess sem áreiðanlegar heimildir, þ.m.t. fréttaflutningur og skýrslur alþjóðlegra hjálpar- og mannúðarsamtaka, skjóta enn styrkari stoðum undir afstöðu félagsins. Öllu þessu hefur Rauði krossinn margsinnis komið á framfæri við Útlendingastofnun, kærunefnd útlendingamála og dómsmálaráðherra sem og í opinberri umræðu.
Vorið 2020 tók Útlendingastofnun þá rökréttu og skynsamlegu ákvörðun að falla frá fyrirhuguðum endursendingum til Grikklands á grundvelli aðstæðna og óvissu vegna heimsfaraldurs kórónaveiru en fyrir voru efnahagslegar og félagslegar aðstæður í landinu slæmar, sérstaklega fyrir flóttafólk. Í kjölfarið tók stofnunin svo ákvörðun um að taka umsóknir einstaklinga og fjölskyldna með alþjóðlega vernd í Grikklandi til efnismeðferðar og hið sama gerði kærunefnd útlendingamála.
Það er mat Rauða krossins að þær aðstæður sem horft var til á vormánuðum 2020 hafi ekki batnað, nema síður sé. Flóttafólk mætir mikilli mismunun auk þess sem margvíslegar hindranir standa í vegi fyrir lögbundnum réttindum til félagslegrar aðstoðar, heilbrigðisþjónustu og aðgengis að húsnæðis- og atvinnumarkaði auk þess sem grísk stjórnvöld hafa haldið áfram harkalegum aðgerðum á landamærunum. Þá hafa neikvæð áhrif kórónuveirunnar aukist til muna og fyrirséð að langtímaáhrif faraldursins á efnahag og innviði Grikklands verða alvarleg.
Að teknu tilliti til alls þessa hvetur Rauði krossinn á Íslandi íslensk stjórnvöld til að hverfa frá fyrirhuguðum endursendingum til Grikklands.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Stöðvum helvíti á jörðu
Alþjóðastarf 09. júlí 2025„Hörmungarnar á Gaza eru skuggi yfir mannkyni,“ skrifa framkvæmdastjórar sex íslenskra mannúðarfélaga. „Líf íbúa Gaza eru jafn mikils virði og líf annarra íbúa þessa heims, það ætti ekki að þurfa að taka fram, en engu að síður horfir heimurinn dofinn upp á íbúa Gaza svipta allri mannlegri reisn.“

Mikilvægt að fá að vera til staðar fyrir fólk í afplánun
Innanlandsstarf 08. júlí 2025Pétur Kristófersson, sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum, heimsækir fanga og spjallar við þá um það sem á þeim brennur. Tilgangurinn er að aðstoða þá við undirbúning fyrir lífið eftir afplánun.

Börn með skotsár á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins
Alþjóðastarf 03. júlí 2025„Við höfum séð allt að 200 særða á einum degi; með skotsár, brunasár, sár eftir sprengjubrot og aðra áverka,“ segir hjúkrunarfræðingur sem starfar á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins í Rafah. „Við fáum til okkar börn með skotsár.“