Almennar fréttir
Sjálfboðaliðar Rauða krossins aðstoða við smitrakningu almannavarna
11. ágúst 2021
Í kjölfar fjölgunar smita í samfélaginu hefur álag á smitrakningarteymi almannavarna aukist til muna. Almannavarnir leituðu því til Rauða krossins og hafa sjálfboðaliðar úr viðbragðshópum félagsins að undanförnu lagt hönd á plóg við að veita upplýsingar og stuðning til einstaklinga sem verið hafa útsettir fyrir smiti.
Ein af fjölmörgum viðbragðsaðgerðum í tengslum við baráttuna við kórónuveirufaraldurinn hér á landi er smitrakningarteymi almannavarna sem hefur það hlutverk að rekja smit og tryggja skimanir og sóttkví allra þeirra sem kunna að hafa verið útsett fyrir smiti hverju sinni.
Jóhann Björn Skúlason, sem stýrir smitrakningarteyminu, segir að þrátt fyrir verkefnafjölda og álag á teyminu séu föst stöðugildi þess í raun ekki mörg heldur frekar um fámennan kjarna sem leitað hefur getað til lögreglu- og hjúkrunarfólks.
Í kjölfar fjölgunar smita í samfélaginu að undanförnu hefur álag á smitrakningarteymið aukist til muna og ljóst orðið að teymið gæti ekki mikið lengur treyst á að kalla inn fólk úr öðrum störfum, þ.e. löggæslu og heilbrigðisþjónustu, eftir þörfum. Með það að markmiði að halda uppi áframhaldandi öflugri og skipulagðri smitrakningu leituðu almannavarnir því til Rauða krossins og hafa sjálfboðaliðar úr viðbragðshópum félagsins að undanförnu lagt hönd á plóg við að veita upplýsingar og stuðning til einstaklinga sem verið hafa útsettir fyrir smiti.
Í viðtali við Morgunblaðið sagði Jóhann Björn meðal annars: „Við göngum ekki í endalausa lögreglumenn og hjúkrunarfræðinga og við eigum erfitt með að ráða því það yrði ekki til langs tíma í senn. Við erum að fá til liðs við okkur sérfræðinga í að tala við fólk,“ og vísar þar til mikillar reynslu viðbragðshópa Rauða krossins í að veita einstaklingum andlegan stuðning og ráðgjöf, til dæmis í kjölfar áfalla og hamfara.
Það eru sjálfboðaliðar í viðbragðshópum Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu og Norðurlandi sem sinnt hafa verkefninu til þessa og sýnir það enn og aftur mikilvægt hlutverk félagsins í almanna- og neyðarvörnum landsins.
Þá ítrekar Rauði krossinn þakkir sínar til Mannvina en mánaðarlegur stuðningur þeirra gerir félaginu kleift að bregðast við hratt og örugglega, hvenær sem þörf er á. Ef þú vilt gerast Mannvinur, og þannig styðja neyðarvarnir og önnur verkefni Rauða krossins, þá er einfalt að gera það á mannvinir.is.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Fjármögnun neyslurýma áskorun um alla Evrópu
Innanlandsstarf 25. júní 2025Þrátt fyrir að neyslurými fyrir vímuefni hafi fyllilega sannað gildi sitt gagnvart bæði einstaklingum og samfélögum glíma þau við sama vandamálið, hvort sem þau eru í Barcelona eða Borgartúni. Starfsfólk skaðaminnkunarverkefna Rauða krossins sótti upplýsandi ráðstefnu í Strassborg.

Nýtt forvarnarátak: Öryggi barna í sundi
Innanlandsstarf 23. júní 2025„Drukknun er algengari en flestir halda og stundum er því talað um hinn þögla faraldur,“ segir Hildur Vattnes Kristjánsdóttir, teymisstjóri skyndihjálpar hjá Rauða krossinum. Félagið hefur hleypt af stokkunum fræðslu- og forvarnarátaki um öryggi barna í sundi í samvinnu við Reykjavíkurborg og Samtök forstöðumanna sundstaða á Íslandi.

Sigríður tekur við formennsku af Silju Báru
Almennar fréttir 19. júní 2025„Ég tek við starfi formanns með mikilli auðmýkt, tilhlökkun og virðingu fyrir öllum þeim sem starfa fyrir Rauða krossinn, bæði sjálfboðaliðum og starfsfólki,“ segir Sigríður Stefánsdóttir, nýr formaður Rauða krossins á Íslandi.