Almennar fréttir

Skyndihjálparmaður ársins 2021

11. febrúar 2022

112 dagurinn er í dag 11. febrúar. Markmið dagsins er að minna á neyðarnúmer allra landsmanna 112 og minna á mikilvægi kunnáttu í skyndihjálp. Í tilefni dagsins stendur Rauði krossinn á Íslandi árlega fyrir vali á skyndihjálparmanni ársins og heldur námskeið í skyndihjálp fyrir almenning um land allt, allt árið um kring. Kennsla skyndihjálpar er ein af grunnáherslum Rauða krossins enda stuðlar útbreiðsla skyndihjálparþekkingar að öruggara samfélagi fyrir okkur öll.

Skyndihjálp er sú hjálp sem veitt er einstaklingi sem hefur orðið fyrir slysi eða veikist skyndilega þangað til sjúkrabíll, læknir eða önnur hjálp berst. Þá hafa sennilega flestir einhvern tímann veitt skyndihjálp, til dæmis aðstoðað einhvern með sár við að stöðva blæðinguna, kælt brunasár eða veitt einhverjum nærveru á ögurstundu. Skyndihjálp byggir á fjórum grunnatriðum: að tryggja öryggi, meta ástandið, hringja á hjálp og veita skyndihjálp og miðar að því að varðveita líf, stuðla að bata og koma í veg fyrir að ástand hins slasaða eða veika versni ekki.

Sveinn Kristinsson, formaður Rauða krossins, með ávarp á 112 deginum

Árlega óskar Rauði krossinn á Íslandi eftir tilnefningum til Skyndihjálparmanns ársins í tengslum við 112 daginn. Tilgangurinn er að vekja athygli almennings á mikilvægi skyndihjálpar og hvetja sem flesta til að sækja skyndihjálparnámskeið til að vera undir það búin að veita aðstoð þegar mest liggur við. Sérstök valnefnd fer yfir tilnefningarnar og útnefnir formaður Rauða krossinn á Íslandi síðan Skyndihjálparmann ársins. Í nefndinni eru fulltrúar frá Rauða krossinum, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Neyðarlínunni, Landspítala-háskólasjúkrahúsi, Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.

 

Albert Eðvaldsson, Elsa Albertsdóttir, Sveinn Kristinsson, Björg Kjartansdóttir og Nadía Ýr Emilsdóttir

Í ár bárust margra góðar tilnefningar en nefndin sammæltist um að skyndihjálparmaður ársins 2021 væri vel að heiðrinum kominn. Skyndihjálparmaður ársins 2021 er Elsa Albertsdóttir, 22 ára gömul kona úr Reykjanesbæ sem bjargaði lífi föður síns, Alberts Eðvaldssonar, 57 ára, sem fór skyndilega í hjartastopp þar sem fjölskyldan var samankomin á heimili foreldra Alberts að horfa á fótboltaleik. Elsa hafði sótt skyndihjálparnámskeið Rauða krossins þrjú ár í röð og var fljót að átta sig á því hvað væri að gerast. Hún hafði í huga fjögur grunnatriði skyndihjálpar og stjórnaði aðgerðum fumlaust. Hún setti fjölskyldumeðlimi sína í hlutverk, bað þá að blása í föður hennar á milli þess sem hún beitti hjartahnoði og aðra að hringja í 112 sem varð til þess að sérhæfð aðstoð barst á staðinn fljótlega. Endurlífgunin bar árangur og Albert dvaldi 3 nætur á sjúkrahúsi í kjölfarið en er við góða heilsu í dag. Við getum sennilegast öll tengt við söguna hennar Elsu, sem sat í rólegheitum í fjölskyldusamveru þegar óvænt uppákoma varð til þess að líf föður hennar var í hennar höndum. Sagan hennar sýnir okkur einnig að skyndihjálparnámskeiðin kenna okkur mikilvæg handtök og skipulag þegar álag getur verið með mesta móti og líf liggur við. Með snarræði, og vel þjálfuðum vinnubrögðum, sem Elsa lærði á skyndihjálparnámskeiðum síðustu ára, bjargaði hún lífi föður síns og njóta þau bæði góðs af í dag.

 

Albert Eðvaldsson og Elsa Albertsdóttir, skyndihjálparmaður ársins 2021

Nova gaf Elsu gjafabréf fyrir 50.000 kr., auk þess sem Rauði krossinn gaf skyndihjálpartösku, gjafabréf á skyndihjálparnámskeið og blómvönd. Við óskum Elsu innilega til hamingju með útnefninguna. Hún er fyrirmynd okkar allra og vel að heiðrinum komin.

Flestir þeirra sem veita skyndihjálp gera slíkt þegar óvæntir atburðir koma upp og í mörgum tilvika er sá slasaði eða veiki ástvinur skyndihjálparmannsins. Allir geta lært skyndihjálp og allir geta veitt skyndihjálp.

Við hjá Rauða krossinum hvetjum alla til að koma á námskeið í skyndihjálp, þau eru ekki aðeins fræðandi og mikilvæg heldur einnig mjög skemmtileg. Við bjóðum upp á fjölbreytt námskeið fyrir alla aldurshópa, bæði staðnámskeið og vefnámskeið og allar frekari upplýsingar um þau má finna á vefsvæðinu www.skyndihjalp.is.

Mannvinir Rauða krossins gera okkur kleift að halda skyndihjálparnámskeið og viljum við þakka þeim kærlega fyrir stuðninginn. Þú getur gerst Mannvinur inn á www.mannvinur.is.