Almennar fréttir

Söfnuðu dósum til að styrkja söfnun fyrir Grindvíkinga

13. desember 2023

Fjórir strákar úr skátafélaginu Skjöldungar söfnuðu dósum fyrir meira en 50 þúsund krónur til að styrkja Grindvíkinga.

Strákarnir gengu í hús og söfnuðu dósum af miklum dugnaði.

Vinirnir Róbert Ómar Þorsteinsson, Einar Ottó Grettisson, Kjartan Pétur Hannesson og Mikael Theodór Jóhannsson úr skátafélaginu Skjöldungar gengu í hús og söfnuðu dósum af miklum dugnaði í Langholtshverfi undanfarnar vikur til að styðja söfnun Rauða krossins vegna jarðhræringanna við Grindavík.

Strákarnir vildu láta gott af sér leiða og þegar þeir sáu erfiðleikana sem íbúar Grindavíkur hafa þurft að ganga í gegnum undanfarið ákváðu þeir að styrkja söfnunina. Þeir komu svo á skrifstofu Rauða krossins í gær og afhentu afraksturinn af vinnu sinni, en þeir náðu að safna heilum 51.442 krónum.

Við þökkum þeim kærlega fyrir framlag þeirra í þágu mannúðar!