Almennar fréttir

Stjórnarfundur hjá Alþjóðasambandi Rauða krossins

17. maí 2023

Stjórnarfundur Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans var haldinn í seinustu viku. Þar áttum við Íslendingar okkar fulltrúa, en Ragna Árnadóttir er hluti af stjórninni og verður það til ársins 2026.

Á myndinni sést hluti af Evrópuhópnum í stjórn Rauða krossins. Ragna er þarna með stjórnarmeðlimum frá Búlgaríu, Rússlandi, Georgíu og Sviss. Á myndina vantar fulltrúa frá Frakklandi og Hollandi.

Stjórnarfundur Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC) fór fram í höfuðstöðvum sambandsins í Genf dagana 8.-11. maí síðastliðinn. Stjórnarfundir eru að jafnaði haldnir tvisvar sinnum á ári og þessi var sá 47. frá stofnun Alþjóðasambandsins. 

Rauði krossinn á Íslandi hlaut kjör í stjórn sambandsins á aðalfundi þess hinn 19. júní 2022 og var fulltrúi okkar, Ragna Árnadóttir, sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum um árabil og fyrrverandi varaformaður félagsins, viðstödd fundinn. Hún situr í stjórninni sem almennur stjórnarmaður og sjálfboðaliði til ársins 2026, en hefur jafnframt verið skipuð í sérstakan starfshóp innan stjórnarinnar um góða stjórnarhætti.

Á fundinum ræddi stjórnin meðal annars um verkefni og starf félagsins síðan á síðasta fundi í október síðastliðnum, þar á meðal starf hreyfingarinnar vegna átakanna í Úkraínu, jarðskjálftanna í Tyrklandi og Sýrlandi og átakanna í Súdan. Þá fjallaði stjórnin um áherslur félagsins hvað varðar samvinnu á alþjóðavettvangi í þágu mannúðar sem og heilbrigði í víðum skilningi í kjölfar heimsfaraldurs.