Almennar fréttir
Þróunarsamvinna aldrei mikilvægari en nú
28. mars 2025
Bakslag í mannréttindum og minnkandi stuðningur við þróunarsamvinnu verður til umræðu á opnum fundi í Þjóðminjasafninu þriðjudaginn 1. apríl.
Þróunarsamvinna á viðsjárverðum tímum er yfirskrift opins fundar sem fram fer þann 1. apríl á vegum Höfða friðarseturs Reykjavíkurborgar, Háskóla Íslands, UNICEF á Íslandi, UN Women Ísland, Rauða krossins og Barnaheilla. Fundurinn verður haldinn í Þjóðminjasafninu, hefst kl. 12 og mun standa í rúman klukkutíma.
Á fundinum verður fjallað um hvernig þrengt hefur að stuðningi við þróunarsamvinnu og það bakslag sem við stöndum frammi fyrir í mannréttindamálum í heiminum. Hvaða áhrif hefur þessi þróun á frið og stöðugleika á heimsvísu? Hverju hefur þróunarsamvinna skilað og er sá árangur nú í hættu? Hvert er mikilvægi Íslands og hinna Norðurlandanna sem gjafaríkja til þróunarsamvinnu og málsvara mannréttinda á alþjóðavettvangi?

Isabel Burchard, sem fer fyrir UNICEF Nordic donor relations, og Stella Samúelsdóttir, formaður þróunarsamvinnunefndar og framkvæmdastýra UNWomen, flytja erindi.
Að erindum loknum setjast þær í panel ásamt Gísla Rafni Ólafssyni, framkvæmdastjóra Rauða krossins á Íslandi, Svanhildi Þorvaldsdóttur, dósent við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, og Tótlu Sæmundsdóttur, framkvæmdastjóra Barnaheilla – Save the Children á Íslandi.
Fundarstjóri verður Pia Hansson, forstöðumaður Höfða friðarseturs.
Fundurinn er opinn öllum og fer fram á ensku.
Hægt er að skrá sig á fundinn hér.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Stöðvum helvíti á jörðu
Alþjóðastarf 09. júlí 2025„Hörmungarnar á Gaza eru skuggi yfir mannkyni,“ skrifa framkvæmdastjórar sex íslenskra mannúðarfélaga. „Líf íbúa Gaza eru jafn mikils virði og líf annarra íbúa þessa heims, það ætti ekki að þurfa að taka fram, en engu að síður horfir heimurinn dofinn upp á íbúa Gaza svipta allri mannlegri reisn.“

Mikilvægt að fá að vera til staðar fyrir fólk í afplánun
Innanlandsstarf 08. júlí 2025Pétur Kristófersson, sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum, heimsækir fanga og spjallar við þá um það sem á þeim brennur. Tilgangurinn er að aðstoða þá við undirbúning fyrir lífið eftir afplánun.

Börn með skotsár á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins
Alþjóðastarf 03. júlí 2025„Við höfum séð allt að 200 særða á einum degi; með skotsár, brunasár, sár eftir sprengjubrot og aðra áverka,“ segir hjúkrunarfræðingur sem starfar á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins í Rafah. „Við fáum til okkar börn með skotsár.“