Almennar fréttir

Umsögn frjálsra félagasamtaka í þróunarsamvinnu um frumvarp til fjárlaga 2023

14. nóvember 2022

Frjáls félagasamtök í þróunarsamvinnu skora á löggjafann að tryggja að Ísland nái markmiði sínu um að 0,7% af vergum þjóðartekjum fari í þróunarsamvinnu.

Frjáls félagasamtök í þróunarsamvinnu (ABC barnahjálp, Barnaheill, CLF á Íslandi, Hjálparstarf
Kirkjunnar, Kristniboðssambandið, Rauði krossinn á Íslandi, SOS Barnaþorp, Sól í Tógó, UNICEF á Íslandi og UN Women á Íslandi) sem mynda fræðsluvettvanginn Þróunarsamvinna ber ávöxt ásamt Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, telja mikilvægt að stjórnvöld finni leiðir til að markmið um að öll iðnríki, þar með talið Ísland, veiti 0.7% af vergum þjóðartekjum til þróunarsamvinnu gangi eftir.

Íslensk stjórnvöld hafa um áratuga skeið stutt í orði markmið Sameinuðu þjóðanna en hæst hafa framlög Íslands numið 0,35% af vergum þjóðartekjum og það aðeins í fá skipti.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í umsögn félaganna um frumvarp til fjárlaga 2023, sem var afhent 11. nóvember síðastliðinn og sjá má hér að neðan.