Almennar fréttir
Vel heppnað málþing um lög í stríði
28. mars 2019
Fjölmennt málþing haldið í Norræna húsinu á fimmtudaginn síðastliðinn
Á fimmtudaginn síðastliðinn var haldið fjölmennt málþing í Norræna húsinu um Genfarsamningana og lög í stríði. Málþingið var skipulagt af Rauða krossinum á Íslandi og Alþjóða- og Evrópuréttarstofnun Háskólans í Reykjavík, með stuðningi utanríkisráðuneytisins.
Fjöldi innlendra og erlendra fyrirlesara fluttu erindi á málþinginu. Page Wilson, dósent við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands kynnti fundargesti fyrir Genfarsamningunum og lögum sem gilda í stríði. Page var jafnfram fundarstjóri og stýrði umræðum á málþinginu. Þá tók til máls Jonathan Somer, sérfræðingur í mannúðarrétti hjá danska Rauða krossinum, sem kynnti ýmsar leiðir til að innleiða lög til að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi í stríðsátökum. Áslaug Arnoldsdóttir, hjúkrunarfræðingur og sendifulltrúi Rauða kross Íslands, fór yfir starfsemi heilbrigðisstarfsmanna á átakasvæðum og verndar sem þeir eiga að njóta. Þórdís Ingadóttir, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík, fór yfir stöðu Íslands þegar kemur að lögum í stríði og innleiðingu laga nr. 144/2018 um refsingar fyrir hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn friði. Loks voru áhugaverðar panel umræður þar sem fundargestir gátu borið upp spurningar til fyrirlesara.
Rauði krossinn þakkar kærlega fyrir gott samstarf og góða aðsókn á málþingið. Líflegar umræður sköpuðust á málþinginu og ljóst að málaflokkurinn hefur vakið áhuga almennings.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Börn með skotsár á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins
Alþjóðastarf 03. júlí 2025„Við höfum séð allt að 200 særða á einum degi; með skotsár, brunasár, sár eftir sprengjubrot og aðra áverka,“ segir hjúkrunarfræðingur sem starfar á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins í Rafah. „Við fáum til okkar börn með skotsár.“

„Ein besta ákvörðun sem ég hef tekið í lífinu“
Innanlandsstarf 02. júlí 2025Að vera sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum hefur þroskað Ingibjörgu Ástu Bjarnadóttur bæði persónulega og í starfi. „Hjá Rauða krossinum hef ég fengið tækifæri og traust til þess að koma mínum eigin hugmyndum á framfæri, og stuðning til þess að láta þær verða að veruleika.“

Fjármögnun neyslurýma áskorun um alla Evrópu
Innanlandsstarf 25. júní 2025Þrátt fyrir að neyslurými fyrir vímuefni hafi fyllilega sannað gildi sitt gagnvart bæði einstaklingum og samfélögum glíma þau við sama vandamálið, hvort sem þau eru í Barcelona eða Borgartúni. Starfsfólk skaðaminnkunarverkefna Rauða krossins sótti upplýsandi ráðstefnu í Strassborg.