Alþjóðastarf

Algengar spurningar vegna jarðskjálftanna í Tyrklandi og Sýrlandi

23. febrúar 2023

Hér má finna svör við ýmsum algengum spurningum varðandi hamfarirnar í Tyrklandi og Sýrlandi og viðbrögð Rauða krossins og Rauða hálfmánans við þeim.

Eyðileggingin á hamfarasvæðunum er gríðarleg og það er mikil þörf á utanaðkomandi stuðningi og aðstoð.

Af hverju sendum við bara fé en ekkert annað?

Sem stendur er fjármagnsaðstoð gagnlegasta leiðin til að aðstoða þolendur jarðskjálftanna. Ein ástæða fyrir því er að vörur eru lengur að komast til skila frá öðrum löndum en ef þær eru keyptar á svæðinu og þannig geta peningar líka styrkt efnahaginn í nærumhverfi hamfaranna.

Peningar virka líka hratt. Það er hægt að nota þá strax og þeir þurfa ekki að sitja fastir á landamærum eða í höfnum þangað til þeir fá tollskoðun og þeir þvælast ekki fyrir annarri bráðnauðsynlegri hjálp sem þarf að komast á áfangastað.

Önnur ástæða er að það er hægt að nota fjármagnið á skipulagðari og skilvirkari hátt til að bregðast beint við mest áríðandi þörfinni sem er til staðar á hamfarasvæðinu. Samstarfsfélagar okkar á hamfarasvæðunum eru í stöðugum samskiptum við önnur hjálparsamtök á svæðinu til að tryggja skilvirka, mikilvæga og viðeigandi neyðaraðstoð. Peninga er hægt að nota til að kaupa nákvæmlega rétt magn af réttu hlutunum – mat, vatni, húsaskjóli, hreinlætisvörum og lyfjum – um leið og mest áríðandi þarfirnar hafa verið greindar.

Óþarfar vörur skapa líka óþarfa byrði á starfsfólk og sjálfboðaliða sem þarf þá að greina, flokka og geyma vörur sem gæti endað með því að þurfa að farga. Ónýttar og útrunnar vörur enda svo oft á ruslahaug, sem er bæði dýrkeypt fyrir umhverfið og aðilann sem þarf að losa sig við þær.

Neyðaraðstoð á líka að tryggja reisn og öryggi þeirra sem njóta góðs af henni, sem þýðir að það þurfa að vera reglur varðandi hverju er hægt að dreifa í samfélögum. Peningar veita fólk reisn með því að gera því kleift að ákveða sjálft hvað þeim vantar mest og til að tryggja að öll framlög komist til skila til þeirra sem þurfa á þeim að halda og í því formi sem er gagnlegast, er fjárhagsstuðningur skilvirkasta leiðin til að veita stuðning.

Styrkur alþjóðahreyfingar landsfélaga Rauða krossins liggur í því að saman geta þau veitt skilvirka og samhæfða aðstoð sem er beint að mestu þörfinni.

Tökum við á móti munum og vörum sem fólk vill gefa?

Rauði krossinn á Íslandi safnar ekki munum eða vörum til að senda á hamfarasvæðin svo félagið tekur ekki á móti slíku.

Er verið að sinna Sýrlandi jafn vel og Tyrklandi?

Sjálfboðaliðar og starfsfólk Sýrlenska Rauða hálfmánans, með stuðningi frá alþjóðahreyfingu Rauða krossins, aðstoðar þolendur skjálftanna (sem eru einnig þolendur margra ára vopnaðra átaka) með grunnnauðsynjar, eins og mat, vatn, heilbrigðisaðstoð, húsaskjól, teppi, hreinlætisvörur og hreinlætisaðstöðu. Einnig er unnið að því að aðstoða þau sem hafa orðið viðskila við sína nánustu eða bíða frétta af sínum nánustu í gegnum leitarþjónustukerfi Rauða kross hreyfingarinnar.

Aðstoð Rauða krossins hefur verið að berast til Sýrlands frá því daginn eftir jarðskjálftana og er stöðugt að aukast. Þannig brugðust landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans í Alsír, Egyptalandi, Palestínu, Írak, Íran, Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Kúveit og Kína við og sendu til að mynda lyf og lækningabúnað, dýnur, teppi, tjöld, matvæli, hreinlætisgögn og fleiri nauðsynjar til þolenda á skjálftasvæðunum í norðurhluta Sýrlands, en auk þess hefur líbanski Rauði krossinn sinnt björgunarstörfum á vettvangi. En vegna þess að innviðir í Sýrlandi eru illa farnir eftir tólf ára vopnuð átök er erfiðara að koma þeirri hjálp sem þörf er á til skila til allra þeirra svæða sem þurfa á henni að halda.

Í hvað fer peningurinn sem er sendur út? Er hægt að treysta því að hann fari örugglega beint til þolenda skjálftans?

Allt fjármagnið sem safnast núna fer beint og óskipt út til landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans sem sinna mannúðarstarfi á vettvangi. Við höldum engu eftir. Landsfélögin nýta það eins og þau telja að fjármagninu sé best varið til að styðja þolendur jarðskjálftanna á þann hátt sem þau telja best. Sjálfboðaliðar bera starfið uppi í báðum löndum með stuðningi starfsmanna og er fjármagninu einnig varið í að tryggja að sjálfboðaliðar og starfsmenn geti sannarlega og á skilvirkan og vandaðan hátt komið hjálpargögnum til þolenda.

Er næg hjálp að berast?

Það er erfitt að segja hvenær neyðaraðstoð er næg. Umfang hamfaranna er enn óljóst og misaðgengileg svæði fá mismikla aðstoð á misjöfnum hraða, jafnvel í bestu aðstæðum. Alþjóðasamband Rauða krossins hefur lagt sig fram af öllum mætti til að mæta þjáningunni og eyðileggingunni á hamfarasvæðunum en verkefnið er gríðarlega stórt og það mun taka langan tíma fyrir samfélög á hamfarasvæðunum að komast aftur á beinu brautina, en þau munu seint ef nokkurn tímann jafna sig á þessu áfalli. Til að mæta þessum erfiðleikum þarf samstillt átak alþjóðasamfélagsins og samvinnu margra ólíkra þjóða og fjölþjóðlegra stofnana til lengri tíma.

Alþjóðahreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans hefur stutt við þolendur á hamfarasvæðunum á ýmsa vegu.

Hvernig er hægt að hjálpa?

Besta og fljótlegasta leiðin til að styðja við hjálparstarf Rauða krossins og Rauða hálfmánans í þágu þolenda jarðskjálftanna er að styðja neyðarsöfnun Rauða krossins.

Svona getur þú hjálpað:

👉Sendu SMS-ið HJALP í 1900 til að styrkja um 2.900

👉Leggðu inn með Aur/Kass: @raudikrossinn

👉Leggðu inn á reikning Rauða krossins 0342-26-12, kt. 530269-2649

👉Styrktu í gegnum heimasíðu okkar:  https://www.raudikrossinn.is/styrkja/stakur-styrkur/

Ætlar Rauði krossinn á senda fólk út?

Yfir tuttugu sendifulltrúar Rauða krossins á Íslandi hafa gefið kost á sér til starfa á vettvangi hamfaranna. Alþjóða Rauði krossinn er með sérþjálfað starfsfólk á vettvangi við hjálparstörf þar sem staðan og þörfin er metin og endurmetin reglulega. Gert er ráð fyrir að sendifulltrúar á vegum RKÍ fari á vettvang á næstu vikum og mánuðum, enda er um að ræða langtíma aðstoð og uppbyggingu bæði í Sýrlandi og Tyrklandi.

Ég vil fara út og hjálpa, hvernig geri ég það?

Rauði krossinn á Íslandi ræður ekki sjálfboðaliða til að styðja við aðgerðir erlendis. Við erum með hóp sendifulltrúa sem samanstendur af sérþjálfuðu fagfólki sem hefur ólíkan bakgrunn og hæfni og hefur lokið viðeigandi þjálfun til að geta farið út á vegum Rauða krossins á Íslandi. Hér má finna nánari upplýsingar um sendifulltrúa Rauða krossins:

https://www.raudikrossinn.is/verkefni/althjodleg-verkefni/starf-okkar-a-althjodavettvangi/sendifulltruar/

Voru viðbrögð hjálparstofnanna nógu hröð?

Starfsfólk og sjálfboðaliðar landsfélaga Rauða hálfmánans voru mættir með búnað og birgðir til að aðstoða þolendur skjálftanna á fyrstu klukkustundunum eftir jarðskjálftann og landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans um víða veröld hófu neyðarsafnanir fyrir þolendur samdægurs og hjálp hefur verið að berast til bæði Tyrklands og Sýrlands allt frá upphafi hamfaranna.

Er líka verið að hjálpa flóttafólki og farendum á svæðunum?

Já. Starfsfólk Rauða krossins og Rauða hálfmánans veitir öllum sem þurfa aðstoð, óháð lagalegri eða annarri stöðu þeirra. Einstaklingum er bara forgangsraðað út frá þörfum hvers og eins og þeim sem hafa mesta þörf fyrir aðstoð er sinnt fyrst.

Get ég stofnað söfnun í samstarfi við Rauða krossinn?

Hægt er að stofna sína eigin söfnun í gegnum vefsíðu Rauða krossins með því að fara á  gefa.raudikrossinn.is, en það er betra að styrkja neyðarsöfnunina sem er yfirstandandi frekar en að stofna nýjar.

Er hægt að ættleiða börn sem misstu fjölskyldur sínar í skjálftunum?

Rauði krossinn kemur ekki að ættleiðingum og getur því miður ekki svarað spurningum um ættleiðingar barna frá hamfara- og átakasvæðum.