Alþjóðastarf

Heilsugæsla á hjólum

21. september 2020

Vegna fjárhagslegra afleiðinga kórónuveirufaraldusins hefur Rauði krossinn á Íslandi þurft að draga úr stuðningi við færanlega heilsugæslu í Sómalíu og óskar eftir framlögum.

Rauði krossinn á Íslandi hefur síðustu ár staðið undir rekstri heilsugæslu á hjólum í Hargeisa í Sómalíu sem rekin er af sómalska Rauða hálfmánanum með stuðningi frá Alþjóðasambandi landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC).

Vegna fjárhagslegra afleiðinga kórónuveirufaraldursins hefur Rauði krossinn á Íslandi þurft að draga úr fjárstuðningi við nokkur alþjóðaverkefni og sér nú fram á að draga þurfi verulega úr stuðningi við þetta mikilvæga heilbrigðisverkefni í Sómalíu, en stuðningurinn frá Íslandi stendur undir rekstri heilsugæslunnar og því forsenda þess að hægt sé að halda áfram rekstrinum. 

Heilsugæsla á hjólum, sem er bíll með sérfræðimenntuðu heilbrigðisstarfsfólki sem keyrir á milli strjálbýlla svæða, nær til allt að 80% þeirra 31.000 íbúa sem búa í 25 þorpum í Hargeisa. Auk þess að sinna almennri heilsugæsluþjónustu er lögð áhersla á mæðravernd, fæðingaraðstoð, heilsu bara undir fimm ára aldri og mæðra þeirra.

Rauði krossinn á Íslandi hefur óskað eftir fjárframlögum frá deildum félagsins um allt land til þess að styðja áfram við þetta mikilvæga verkefni. Höfuðborgardeild félagsins hefur þegar ákveðið að styðja við verkefnið með 8 milljón króna framlagi, en þetta rausnarlega framlag nemur um helmingi þess fjármagns sem þarf til að halda rekstri heilsugæslunnar við árið 2020. Þá hefur Snæfellsbæjardeild lagt verkefninu 500.000 krónur.

\"8\"\"amal






Hér má lesa frásögn af verkefninu frá árinu 2017 , en Amal Abdi Muhammed sem sjá má á myndunum ásamt móður sinni Fadumo Abdi Muhammed, var þá þriggja ára og mælingar bentu til þess að hún væri alvarlega vannærð. Þær mæðgur fengu hnetumauk með sér heim til að auka næringu milli heimsókna heilsugæslunnar á hjólunum.

Almenningur getur stutt við verkefnið

  • um 2.900 krónur með því að senda sms-ið HJALP í númerið 1900
  • með því að leggja inn á reikning 0342 - 26 -12, kt. 530269-2649.