Innanlandsstarf

Öflug skaðaminnkun en þörfin eykst stöðugt

22. apríl 2024

Rauði krossinn opnar neyslurými á ný innan skamms. Þessi árangur næst í kjölfar öflugrar og árangursríkrar vinnu í þágu skaðaminnkunar hjá félaginu, en Hafrún Elísa Sigurðardóttir, teymisstjóri í skaðaminnkun, segir að þörfin sé sífellt að aukast.

Hafrún Elísa Sigurðardóttir, teymisstjóri í skaðaminnkun hjá Rauða krossinum.

Þegar Hafrún lítur yfir liðið árið 2023 er hún ekki í vafa um hvað henni fannst helst standa upp. „Það er „Vaknaðu!“ tónleikarnir sem voru haldnir í maí,“ segir hún. „Þeir voru mjög fræðandi fyrir fólk í samfélaginu, það var virkilega magnað að sjá hve margir komu saman til að leggja verkefninu lið og hvað það náðist að safna miklu fé!

Auk þess vöktu þeir mun fleiri til vitundar um Naloxone, fleira fólk veit af því og mikilvægi þess og er meðvitað um að það er hægt að nálgast það hjá Frú Ragnheiði,“ segir Hafrún. „Það sést ekki síst á því að við dreifðum út 900 skömmtum af lyfinu á liðnu ári, en margir af þessum skömmtum fóru ekki til fólks sem nýtir þjónustuna, heldur til aðstandenda sem vilja hafa það til að tryggja öryggi.“

Naloxone er nefúðalyf sem er gefið sem mótefni gegn ofskömmtun af ópíóíðalyfjum og getur auðveldlega bjargað lífum þeirra sem hafa tekið of stóran skammt.

„Ásamt því að dreifa Naloxone höfum við líka dreift fentanyl hraðprófum frá Varlega.is, sem gera fólki kleift að prófa efnin sín og athuga hvort þau innihaldi varasöm aukaefni,“ útskýrir Hafrún.

Litlar breytingar en öflugt starf

Það voru ekki gerðar stórtækar breytingar á skaðaminnkunarþjónustu Rauða krossins á árinu 2023, en það var byggt á þeim góða grunni sem hefur verið skapaður undanfarin ár og haldið áfram með árangursríkt starf. Árið 2023 voru 654 einstaklingar sem leituðu í þjónustuna í 5893 heimsóknum og var nálaskiptaþjónusta veitt í 78% heimsókna. 152.000 sprautum og 467.000 nálum var dreift til einstaklinga.

„Í mars í fyrra lokaði Ylja, sem var færanlegt neyslurými. Nú er rýmið búið að vera lokað í rúmt ár og það hefur sést vel á auknum fjölda innlagna einstaklinga sem nota vímuefni í æð á Landspítalanum hvað sú þjónusta skipti miklu máli til að vernda heilsu þessara einstaklinga,“ segir Hafrún. „Við höfum unnið að því að opna nýtt neyslurými allt frá því að Ylja lokaði og nú stendur til að opna það á ný í Borgartúni í vor. Þetta er mikið fagnaðarefni og mjög mikilvægur áfangi í skaðaminnkunarstarfi á Íslandi.

Annað sem breyttist á liðnu ári var að við hófum samstarf við Landspítalann, svo nú kemur hjúkrunarfræðingur þaðan á vettvang með Frú Ragnheiði tvisvar í viku til að skima fyrir lifrarbólgu C og HIV,“ bætir Hafrún við. „Ef fólk greinist erum við svo í samstarfið við Landspítalann til að veita lyfjameðferð og hittum fólk yfirleitt vikulega og aðstoðum þau við að halda utan um lyfjagjöfina sína.“

Vel heppnað förgunarátak

Á árinu 2023 varð 40% aukning á förgun á notuðum sprautubúnaði hjá Frú Ragnheiði frá árinu áður.

„Ástæðan fyrir því er að við fór í átak með notendum og sjálfboðaliðum til að minna á að skila notuðum búnaði. Það varð til þess að við förguðum 4955 lítrum af notuðum sprautubúnaði,“ segir Hafrún. „Okkur finnst ótrúlega mikilvægt að aðstoða fólk við að farga þessum búnaði á öruggan hátt, en flestir notendur eru heimilislausir og eiga því erfitt með það. Tölurnar sýna skýrt að þetta átak gekk mjög vel, sem gleður okkur auðvitað. Það er betra fyrir okkur öll að þessum búnaði sé fargað á öruggan máta því annars getur hann skapað hættu.“

Sífellt meiri eftirspurn eftir þjónustunni

Þrátt fyrir að þjónustan hjá Frú Ragnheiði hafi verið aukin hægt og rólega undanfarin ár næst samt ekki að anna eftirspurninni á kvöldin.

„Það eru svo mörg sem sækja í þjónustuna okkar á höfuðborgarsvæðinu okkar að umfangið er einfaldlega ekki nægilegt. Það koma vaktir þar sem við þurfum að forgangsraða fólki og getum ekki sinnt öllum,“ segir Hafrún. „Við erum að reyna að leysa það með því að ræsa út aukavakt, en ég veit ekki hvort það dugi. Ég held að við þurfum annan bíl, sem myndi um leið þýða að við þyrftum fleiri sjálfboðaliða og starfsmenn.

Auk þess þarf skjólstæðingahópurinn okkar líka bara aukna þjónustu, bæði félagþjónustu, heilbrigðisþjónustu og húsnæði,“ segir Hafrún. „Við getum einfaldlega ekki gert meira, verkefnið er komið að þolmörkum og eins og staðan er núna stendur ekki til að auka þjónustuna.“

Hafrún er mjög þakklát sjálfboðaliðum Frú Ragnheiðar, sem eru lykilforsenda fyrir því að hægt sé að veita þá þjónustu sem er í boði.

„Sjálfboðaliðarnir okkar vinna frábært og óeigingjarnt starf, sem tryggir fólki sem stendur höllum fæti bæði sálræna og líkamlega heilbrigðisþjónustu. Án þeirra framlags gæti verkefnið ekki gert næstum eins mikið gagn og raun ber vitni,“ segir hún.