Alþjóðastarf

Hjálpargögn bárust en duga skammt 

23. október 2023

Á síðustu dögum hefur Rauða kross hreyfingin meðal annars unnið að því að koma neyðaraðstoð til íbúa Gaza og flutt frelsaða gísla frá Gaza til Ísrael. Enn er þó gríðarleg neyð á Gaza og fjöldi fólks í gíslingu. Neyðarsöfnun Rauða krossins á Íslandi mun styrkja mannúðaraðstoð hreyfingarinnar. 

Hjálpargögn bárust frá Egyptalandi til Gaza.

Átökin fyrir botni Miðjarðarhafs héldu áfram af hörku yfir helgina en þrátt fyrir það glitti í tvö ljós í myrkrinu, annars vegar þegar neyðaraðstoð var hleypt inn á Gaza og hins vegar þegar tveir gíslar sem voru í haldi Hamas voru látnir lausir. Rauði krossinn lék lykilhlutverk í báðum þessum atburðum. 

Landsfélög Rauða krossins hafa lagst á eitt og starfa með Alþjóða Rauða krossinum til að freista þess að lina þjáningar þolenda átakanna beggja megin víglínunnar. 

Gríðarleg þörf fyrir mannúðaraðstoð 

Tuttugu flutningabílum með hjálpargögnum var hleypt inn á Gaza frá Egyptalandi á laugardagsmorgun, en því miður er þessi hjálp engan veginn nægileg til að mæta þörfum íbúa Gaza. Bílarnir fluttu lyf, mat og aðrar nauðsynjavörur og þessi lífsbjargandi aðstoð kom frá Rauða hálfmánanum í Egyptalandi og Sameinuðu þjóðunum. 

Mikil þörf er á eldsneyti til að halda sjúkrahúsum starfandi, sem og vatni. Rauði krossinn kallar eftir því að öruggar birgðasendingar séu tryggðar svo hægt sé að flytja neyðargögn þangað sem þörfin er mest á Gaza. Rauði hálfmáninn í Egyptalandi er með fjölda flutningabíla sem bíða eftir aðgangi inn á Gaza. 

Aðilar átaka verða að viðhalda mannúð. Það er ekki hægt að láta íbúa Gaza bíða eftir þeirri aðstoð sem þau þurfa bráðnauðsynlega á að halda. Sjúkrahús eru að þrotum komin og fjölskyldur sofa úti með lítið af mat og vatni. Rauði krossinn kallar eftir vopnahléi svo hægt sé að hleypa inn mannúðaraðstoð og viðbragðsaðilum. Eymdin og þjáningarnar aukast með hverri klukkustund sem líður. 

Gíslar látnir lausir 

Á föstudag voru tveir gíslar látnir lausir sem höfðu verið í haldi Hamas í tvær vikur. Alþjóðaráð Rauða krossins tók að sér að flytja gíslana frá Gaza til Ísraels, sem undirstrikar mikilvægi samtakanna sem hlutlaus aðili. 

Alþjóðaráðið kallar enn eftir því að allir gíslar séu tafarlaust látnir lausir og er einnig tilbúið til að heimsækja gíslana og aðstoða við frekari lausn þeirra. Samtökin minna líka á mikilvægi þess að gíslarnir fái mannúðar- og heilbrigðisaðstoð og fái að hafa samband við fjölskyldur sínar á meðan þeir eru í haldi, eins og alþjóðleg mannúðarlög kveða á um. 

Starf Rauða krossins vegna átakanna  

Rauði krossinn á Íslandi stendur nú fyrir neyðarsöfnun til að styðja við mannúðaraðstoð Rauða kross hreyfingarinnar vegna átakanna. Hreyfingin er tilbúin til að styðja við grunninnviði á Gaza til að veita heilbrigðisaðstoð, vatn og rafmagn, hefur sent sjúkragögn á svæðið og er með frekari neyðaraðstoð til reiðu fyrir þolendur átakanna beggja megin víglínunnar.

Hreyfingin er að veita þúsundum særðra einstaklinga heilbrigðisaðstoð, dreifa hjálpargögnum, leita týndra ástvina og veita þolendum átakanna sálrænan stuðning. Hún hefur því miður líka þurft að minna á mikilvægi þess að sjúkrabílar, heilbrigðisstarfsfólk, heilsugæslur og sjúkrahús njóti verndar í samræmi við alþjóðleg mannúðarlög, enda er ekki hægt að veita lífsbjargandi aðstoð ef starfsfólk getur ekki starfað á öruggan hátt. 

Neyðarsöfnun Rauða krossins á Íslandi verður notuð til að hjálpa hreyfingunni að greiða fyrir mannúðaraðstoðina sem hún er að veita og mun halda áfram að veita eftir besta megni. Með því að styðja söfnunina styður þú við getu hreyfingarinnar til að veita nauðsynlega mannúðaraðstoð og heilbrigðisþjónustu og réttir þolendum átakanna hjálparhönd. 

Svona styrkir þú söfnunina: 

Styrkja í gegnum heimasíðu Rauða krossins 
 
SMS: Senda HJALP í símanúmerið 1900 (2.900 kr.) (Síminn og Nova)  
Hringja í 904-2500 til að styrkja um 2.500 kr.  
Aur: @raudikrossinn eða 1235704000  
Kass: raudikrossinn eða 7783609  
Söfnunarreikningur Rauða krossins: 0342-26-12, kt. 530269-2649