Alþjóðastarf
Hjálparstarf í fullum gangi í Marokkó og Líbíu
18. september 2023
Í Marokkó og Líbíu vinna landsfélög Rauða hálfmánans gríðarlega erfitt en mikilvægt hjálparstarf eftir hamfarirnar þar í landi og þetta starf þarfnast stuðnings erlendis frá.
Rauði krossinn á Íslandi hóf neyðarsöfnun vegna hamfaranna sem hægt er að styðja hér á heimasíðunni okkar. Í gær gaf Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans eftirfarandi upplýsingar um stöðuna í Marokkó og Líbíu, sem varpa ljósi á viðbrögð þarlendra landsfélaga og stöðuna í hjálparstarfinu.
Staðan í Marokkó
Jarðskjálfti af stærðinni 6,8 varð í Marokkó þann 8. september. Yfir 3000 manns létust og þúsundir slösuðust. Hjálp er byrjuð að berast á einangruð svæði en vegir eru illa farnir og það hefur gert hjálparstarfið erfitt.
Alþjóðasambandið hefur sent út neyðarbeiðni fyrir Marokkó upp á 100 milljónir svissneskra franka, sem samsvarar rúmlega 15 milljörðum íslenskra króna, og þau sem vilja leggja sitt af mörkum geta gert það með því að styrkja neyðarsöfnun Rauða krossins á Íslandi.
Enn hefur hjálp ekki borist til allra afskekktu þorpanna í Atlas-fjöllum og þar sem vegir eru illa farnir. Ástand vega fer versnandi og viðbragðsaðilar, þar á meðal Rauði hálfmáninn, eru í kappi við tímann til tryggja að þessi samfélög fái stuðning áður en rigningar hefjast og einangra þau enn frekar.
Neyðarsöfnuninni er ætlað að efla hjálparstarf Rauða hálfmánans í Marokkó til að mæta mest áríðandi þörfum þolenda sem og setja upp bráðabirgðalausnir til að bæta aðstæður þeirra til skamms tíma. Þörf er fyrir heilbrigðisþjónustu, hreint drykkjarvatn, hreinlætisaðstöðu, húsaskjól, ýmsar nauðsynjar, vernd og fleira.
Fullnægjandi heilbrigðisþjónustu og hreint drykkjarvatn er nauðsynlegt til að koma í veg fyrir enn frekari hörmungar. Mörg hundruð sjálfboðaliðar Rauða hálfmánans í Marokkó starfa nú í fjórum ólíkum héruðum sem urðu fyrir barðinu á skjálftanum. Litlar líkur eru á að finna fleiri á lífi í rústunum og áherslan er nú að snúast að því að hlúa að þolendum með því að tryggja grunnþarfir þeirra og veita sálrænan stuðning.
Þörf er fyrir ljósabúnað sem gengur fyrir sólarorku á svæðum þar sem það mun taka einhverjar vikur að koma rafmagni aftur á og fyrir slökkvitæki handa þeim sem eru að gista í bráðabirgðaskýlum og tjöldum. Þegar það fer að kólna fara sífellt fleiri að elda innandyra og nota gashitara, sem eykur eldhættu.
Aðgengi er enn aðaláskorunin fyrir hjálparstarf vegna þess að áhrifa jarðskjálftans gætir á mjög stóru svæði. Það eru enn nokkur hundruð þorp á svæðinu sem aðeins er hægt að ná til á mótorhjóli eða asna. Á næstu dögum og vikum þarf að tryggja að ekkert þeirra gleymist.
Sjálfboðaliðar Rauða hálfmánans á svæðinu eru ómetanlegir. Þeir þekkja svæðið, vita hvar þorpin eru og eru í góðu sambandi við yfirvöld á svæðinu til að tryggja að hjálparstarfið sé eins skilvirkt og hraðvirkt og hægt er.
Staðan í Líbíu
Þann 10. september skall stormurinn Daníel á Líbíu, sem leiddi til gríðarlegra flóða. Innviðir urðu fyrir miklum skemmdum og tvær stíflur fyrir ofan borgina Derna brustu, með þeim afleiðingum að heilu hverfin skoluðust á haf út. Talið að yfir 10 þúsund manns hafi látist í flóðunum, en það hefur ekki verið hægt að staðfesta þessar tölur.
Næstum fjórðungur af borginni Derna skolaðist burt í flóðinu, samkvæmt sjálfboðaliðum Rauða hálfmánans sem eru á staðnum. Borgin er nú orðin aðgengileg og hjálp er að berast til hennar, en það er erfitt að komast inn í borgina og miklar tafir eru á flutningum. Aðalspítalinn í borginni skemmdist illa í flóðinu og þar er ekki hægt að bjóða upp á fullnægjandi heilbrigðisþjónustu. Fyrir vikið er mikil þörf fyrir heilbrigðisvörur.
Rauði hálfmáninn í Líbíu einbeitir sér að því að hjálpa þolendum flóðsins með því að veita þeim þúsundum sem hafa misst heimili sín húsaskjól í tveimur skólum, hjálpa fjölskyldum að sameinast, veita sálræna fyrstu hjálp og dreifa hjálpargögnum. Það skortir varanlega lausn fyrir þann fjölda sem hefur misst heimili sín.
Hjálp er að berast frá öðrum landsfélögum Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Þrjár flugvélar komu með björgunarbúnað, lækningarvörur og skyndihjálparbúnað frá Tyrklandi, en hluti af þessu kom frá Rauða hálfmánanum í Tyrklandi og starfsmenn hans komu með til að styðja neyðarviðbragð Rauða hálfmánans í Líbíu. Einnig hafa borist hjálpargögn frá Rauða krossinum í Ítalíu og Rauða hálfmánanum í Egyptalandi, Íran, Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Katar.
Rauði hálfmáninn í Líbíu hefur í gegnum björgunarstarf sitt fundið mikinn fjölda látinna og mikil áhersla er lögð á að huga að meðferð líkanna sem fyrst en um leið að tryggja að þeim sé sýnd virðing.
Hörmungarnar sem hafa dunið á Líbíu eru gríðarlegar, en við höfum líka heyrt jákvæðar sögur af samstöðu með þolendum flóðsins. Margir Líbíumenn hafa ferðast frá vesturhluta landsins til að hjálpa til í austurhlutanum, sem varð verst úti, og þar sem Rauði hálfmáninn í Líbíu er hlutlaus getur hann starfað óhindrað um allt landið, þrátt fyrir pólitískan klofning þar í landi.
Fréttir af starfinu
FréttayfirlitCoca-Cola og Rauði krossinn hjálpa umsækjendum um alþjóðlega vernd að aðlagast íslensku samfélagi
Innanlandsstarf 25. september 2024Coca-Cola Europacific Partners(CCEP) á Íslandi og Rauði krossinn á Íslandi hafa undirritað samstarfssamning um nýtt verkefni sem kallast „Lyklar að íslensku samfélagi – The Keys to Society“ og miðar að því að styðja og valdefla umsækjendur um alþjóðlega vernd.
Frábær fyrsti mánuður í neyslurými Rauða krossins
Innanlandsstarf 13. september 2024Ylja – Neyslurými Rauða krossins hefur nú verið starfrækt í Borgartúni einn mánuð. Verkefnið hefur farið mjög vel af stað þennan fyrsta mánuð, ekkert óvænt hefur komið upp á og skjólstæðingar sem nýta þjónustuna lýsa mikilli ánægju með hana.
Vel heppnað málþing um málefni barna á flótta
Innanlandsstarf 03. september 2024Nýverið fór fram vel heppnað málþing um áskoranir barna á flótta í íslensku skólakerfi, en nýtt fræðsluefni um málaflokkinn var að koma út. Á þinginu kom fram hve mikilvægt er að börnin fái góðar móttökur og að þó að mikill árangur hafi náðst á þessu sviði sé enn mikið verk fyrir höndum.