Alþjóðastarf
Rauði krossinn og utanríkisráðuneytið gera með sér samkomulag á sviði mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu
03. mars 2025

Rauði krossinn og utanríkisráðuneytið gera með sér samkomulag á sviði mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra, og Silja Bára R. Ómarsdóttir, formaður Rauða krossins á Íslandi, hafa undirritað rammasamning um verkefni á sviði þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar fyrir árin 2025-2028. Þetta er í þriðja sinn sem utanríkisráðuneytið og Rauði krossinn á Íslandi undirrita slíkan samning.
Markmið samningsins er að auka skilvirkni og árangur Íslands í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð, gera fjármögnun þróunarsamvinnuverkefna og mannúðaraðstoðar, sem veitt er af Rauða krossinum, fyrirsjáanlegri og auðvelda skipulagningu verkefna og viðbragða.
Að sögn Silju Báru R. Ómarsdóttur er slíkt samstarf sérlega mikilvægt, ekki síst á umbrotatímum þegar ófriður og sundrung valda samdrætti í framlögum til þróunarsamvinnu. Undanfarin ár hafa kennt okkur að slíkur stuðningur er ekki sjálfgefinn. Rauði krossinn lýsir því mikilli ánægju og þakklæti fyrir það nána samstarf sem félagið á við stjórnvöld á sviði mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu.
Meðal verkefna sem njóta stuðnings fyrir tilstuðlan rammasamningsins eru fræðsla um kynbundið ofbeldi í Sómalíu, trjárækt í Síerra Leóne, uppbygging á viðbúnaði og viðnámsþrótti samfélaga í Malaví og heilbrigðisfræðsla í búðum palestínsks flóttafólks í Líbanon. Þá eru ótalin neyðarviðbrögð vegna vopnaðra átaka og náttúruhamfara víða um heim.
Með samkomulaginu skuldbinda stjórnvöld og Rauði krossinn sig til að leggja til fjármagn í ofangreind verkefni. Mannvinir Rauða krossins standa að stórum hluta undir framlögum Rauða krossins til þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar.

Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Fjármögnun neyslurýma áskorun um alla Evrópu
Innanlandsstarf 25. júní 2025Þrátt fyrir að neyslurými fyrir vímuefni hafi fyllilega sannað gildi sitt gagnvart bæði einstaklingum og samfélögum glíma þau við sama vandamálið, hvort sem þau eru í Barcelona eða Borgartúni. Starfsfólk skaðaminnkunarverkefna Rauða krossins sótti upplýsandi ráðstefnu í Strassborg.

Nýtt forvarnarátak: Öryggi barna í sundi
Innanlandsstarf 23. júní 2025„Drukknun er algengari en flestir halda og stundum er því talað um hinn þögla faraldur,“ segir Hildur Vattnes Kristjánsdóttir, teymisstjóri skyndihjálpar hjá Rauða krossinum. Félagið hefur hleypt af stokkunum fræðslu- og forvarnarátaki um öryggi barna í sundi í samvinnu við Reykjavíkurborg og Samtök forstöðumanna sundstaða á Íslandi.

Sigríður tekur við formennsku af Silju Báru
Almennar fréttir 19. júní 2025„Ég tek við starfi formanns með mikilli auðmýkt, tilhlökkun og virðingu fyrir öllum þeim sem starfa fyrir Rauða krossinn, bæði sjálfboðaliðum og starfsfólki,“ segir Sigríður Stefánsdóttir, nýr formaður Rauða krossins á Íslandi.