Innanlandsstarf

Allar deildir höfuðborgarsvæðis sameinaðar 

23. maí 2024

Í gær fór fram stofnfundur nýrrar höfuðborgardeildar Rauða krossins á Íslandi, sem sameinar krafta höfuðborgardeildar og deildarinnar sem áður sinnti Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi. 

Stjórn nýju deildarinnar. Frá vinstri: Alex Tahseen, Orri Gunnarsson, Þorsteinn Á. Sürmeli, Guðfinna Guðmundsdóttir, Margrét Gauja Magnúsdóttir, Sveinbjörn Finnsson, Fanney Birna Jónsdóttir (formaður), Þorsteinn Jónsson og Helga Sif Friðjónsdóttir. Á myndina vantar Svanhildi Konráðsdóttur, Jón Ásgeirsson og Indriða Þröst Gunnlaugsson.

Unnið hefur verið að sameiningunni undanfarna mánuði, en hún auðveldar samstarf og eykur skilvirkni í starfi Rauða krossins. Með þessu sameinast starfsemi tveggja öflugra deilda sem hafa sinnt fjölbreyttum verkefnum svo úr verður enn öflugri deild sem þjónustar fleiri landsmenn en nokkur önnur. 

Nýja deildin mun vinna að skaðaminnkunarverkefnum Rauða krossins, Frú Ragnheiði og Ylju, auk þess að sinna ýmsum félagslegum verkefnum, svo sem Vinaverkefnunum fjölbreyttu, ýmiss konar félagsstarfi fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og flóttafólk, skyndihjálparkennslu og Aðstoð eftir afplánun. Þessi nýja deild verður því með mörg og stór verkefni á sinni könnu. 

Með því að sameina krafta deildanna verður hægt að setja aukinn kraft í öll þessi verkefni og fara betur með krafta og fé félagsins. Sameiningin var samþykkt á aðalfundum deildanna fyrr á árinu. 

Rauði krossinn fagnar þessum tímamótum og bæði starfsmenn og sjálfboðaliðar nýju deildarinnar eru spenntir fyrir að sinna þessum fjölbreyttu verkefnum af fullum krafti.