Innanlandsstarf
Allir sammála um þörfina fyrir skaðaminnkun
16. ágúst 2024
Neyslurýmið Ylja hefur loks opnað að nýju eftir rúmlega árslangt hlé. Þörfin fyrir rýmið hefur komið glögglega í ljós og vonir standa til að hægt verði að efla þjónustuna enn frekar með auknu fjármagni.
Þann 10. mars árið 2022 var stórt skref tekið í skaðaminnkun hér á landi, en þá opnaði Ylja, fyrsta opinbera neyslurýmið á Íslandi, í bifreið. Neyslurými er lagalega verndað rými þar sem einstaklingar 18 ára og eldri geta notað vímuefni undir eftirliti heilbrigðisstarfsfólks. Ylja byggir á hugmyndafræði um skaðaminnkandi nálgun þar sem gætt er að sýkingarvörnum, hreinlæti og öryggi notenda og tilvist neyslurýma leiðir til öruggari sprautunotkunar, aukins aðgengis að heilbrigðis- og félagsþjónustu ásamt því að draga úr vímuefnanotkun í almenningsrýmum.
Ylja var eins árs tilraunaverkefni og lokaði þann 6. mars 2023. Á þessu tilraunaári tókst Ylju að byggja upp gríðarlega mikilvægt traust notenda, sem voru um 120 talsins, en notendur Ylju lýstu ítrekað ánægju sinni með úrræðið. Á þessu fyrsta ári voru heimsóknir um 1400.
Það var því margt mjög gott sem kom út úr þessu tilraunaári, en það leiddi líka glögglega í ljós hve mikil þörf var fyrir staðbundið neyslurými í staðinn fyrir færanlegt rými í bifreið.
„Í bílnum var bara pláss fyrir einn í einu, þannig að fólk lenti í því að þurfa að bíða fyrir utan í kuldanum og það varð til þess að margir hurfu frá,“ segir Ósk Sigurðardóttir, deildarstjóri höfuðborgardeildar Rauða krossins. „Auk þess var kalt í bílnum og hann hreyfðist í vindi, sem er ekki heppilegt fyrir þessa þjónustu.
En það var engu að síður mikil eftirspurn eftir þjónustu Ylju og við sáum að þegar skjólstæðingar neyttu sinna efna í öruggu umhverfi og undir handleiðslu heilbrigðisstarfsfólks má koma í veg fyrir slæmar sýkingar,“ bætir Ósk við. „Því lagði Rauði krossinn mikla áherslu á að opna Ylju á ný í staðbundnu húsnæði og það tókst núna 12. ágúst.“
Í ótal horn að líta í aðdragandanum
„Á þessu rúma ári sem hefur liðið hefur átt sér stað mikill og flókinn undirbúningur og samskipti við marga ólíka aðila til að tryggja að allt sé gert af fyllstu fagmennsku. Það voru allir af vilja gerðir, en það var mjög margt sem þurfti að huga að,“ segir Ósk. „Fyrst þurfi að finna staðsetningu, lóð, húsnæði og fjármagn. Terra Einingar kom inn í ferlið og gerði samning við okkur sumarið 2023 og bauðst til að lána okkur húsnæði í heilt ár án endurgjalds og í desember á síðasta ári var loks búið að samþykkja teikningar af gámaeiningum á þessari lóð, sem við leigjum af Framkvæmdasýslu ríkisins.
Sjúkratryggingar Íslands gerðu samning við Reykjavíkurborg um fjármögnun neyslurýmisins og í vor gerði Reykjavíkurborg svo samning við Rauða krossinn um rekstur þess. Síðan tók við langt ferli við að fá öll formleg leyfi og til þess að allt sé pottþétt og í samræmi við öll lög og reglur þurfti að skila alls kyns gögnum, verklagi, gæðaskjölum og öðru til landlæknis,“ útskýrir Ósk. „Svo var gerð formleg úttekt af heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur til að fá starfsleyfi.
Því næst þurfti að ráða starfsfólk og tryggja fulla mönnun á hverri vakt. Til að byrja með ætlum við að hafa opið fimm daga vikunnar og það verða alltaf þrír á vakt, þar af er einn verkefnastjóri sem sinnir úrræðinu í fullu starfi ásamt teymisstjóra skaðaminnkunarteymisins okkar, en það er líka alltaf hjúkrunarfræðingur á hverri vakt,“ segir Ósk. „Við vonumst svo til að fá sjálfboðaliða inn í úrræðið í lok árs, en fræðslunámskeið fyrir tilvonandi sjálfboðaliða verður haldið í haust og auglýst fljótlega.
Svo kom að því að skaffa allt sem þurfti inn í húsið sjálft til að uppfylla allar kröfur. Hafa réttan búnað, húsgögn og allt sem þarf í svona rými. Það þarf líka að hafa allar öryggisreglur í lagi, allir þurfa að kunna að skyndihjálp og það þarf að æfa ferla fyrir öll möguleg tilfelli,“ segir Ósk. „Við þurftum svo að sjá um alla uppbyggingu á húsnæðinu, það þurfti að grafa til að tengja vatn og rafmagn og byggja stórt grindverk í kringum húsnæðið. Þessu fylgdi gríðarlegur kostnaður sem Rauði krossinn hefur alfarið borið.“
Marglaga tilfinning að opna loksins
„Þetta er búið að vera ótrúlega skemmtilegt og lærdómsríkt ferli,“ segir Ósk. „Þetta hefur verið rosaleg vinna og flóknara en maður hélt í byrjun. Það voru endalaus lítil verkefni sem fylgdu því að setja upp rýmið. Ég var líka ótrúlega glöð að fá Evu Dögg Þórsdóttur inn í þetta sem verkefnastjóra í maí.
Það var dásamleg tilfinning að opna rýmið loksins í byrjun þessarar viku. Ég trúði þessu eiginlega ekki og við sem komum að þessu vorum allar hálf meyrar. Loksins var komið að þessu!“ segir Ósk. „Opnunin var mikill léttir og gleðiefni, en auðvitað fylgir því líka smá stress að vera að byrja með nýja þjónustu. Maður vonar að allt gangi upp og rúlli vel. Það má segja að þetta sé marglaga tilfinning.
Opnun Ylju í varanlegu húsnæði er risastórt skref í skaðaminnkun á Íslandi. Það skiptir öllu máli að geta boðið skjólstæðingum okkar upp á öruggt rými sem þeir geta leitað til og fengið stuðning, bæði sálfélagslegan og annan,“ útskýrir Ósk. „Þarna geta þeir leitað til heilbrigðisstarfsfólks ef vandamál koma upp svo sem smit, sýkingar eða einhver vanlíðan, líkamleg jafnt sem andleg. Fyrir vikið verður hægt að grípa inn í fyrr, áður en vandinn verður of stór. Þannig sleppur þetta fólk við óþarfa þjáningu og álagið á heilbrigðiskerfið minnkar, sem minnkar auðvitað bæði vinnu og kostnað á þeim enda.
Sem betur fer er skaðaminnkun eitthvað sem allir eru sammála um í dag. Við verðum að þjónusta þennan hóp mun betur en við höfum gert til þessa,“ segir Ósk.
Aukið fjármagn myndi skila meiri þjónustu
„Ylja hefur farið vel af stað og við höfum fengið töluvert af skjólstæðingum. Það er frábært og sýnir hvað við höfum enn mikið traust hjá þessum hópi,“ segir Ósk. „Starfsmenn Ylju hafa líka verið að kynna úrræðið á ýmsum stöðum þar sem hægt er að ná til skjólstæðingahópsins og þetta spyrst hratt út.
Í framtíðinni vonumst við svo til þess að geta lengt opnunartímann og hafa líka opið um helgar, það er óskastaðan. En sem betur fer erum við með Frú Ragnheiði í gangi á kvöldin og á sunnudögum, þannig að fólk getur leitað þangað til að fá búnað og stuðning, þó að það sé ekki neyslurými,“ segir Ósk. „Vonandi getum við líka boðið upp á enn meiri heilbrigðisþjónustu, en sem stendur er starfsfólk frá smitsjúkdómadeild Landspítalans í Ylju þrjá daga vikunnar.
Síðast en ekki síst vonumst við eftir því að geta aukið og bætt samstarf við stjórnvöld. Okkur vantar meira fjármagn til að geta boðið upp á aukna þjónustu. Rauði krossinn getur rekið úrræðið en ekki greitt fyrir allt sem að því snýr,“ útskýrir Ósk. „Stofnkostnaðurinn við rýmið hefur lent á okkur og hann er gríðarlega hár þannig að okkur vantar aukið fjármagn til að efla þjónustuna og einnig til að geta keypt sjálfar einingarnar sem hýsa neyslurýmið.“
Fréttir af starfinu
FréttayfirlitFrábær fyrsti mánuður í neyslurými Rauða krossins
Innanlandsstarf 13. september 2024Ylja – Neyslurými Rauða krossins hefur nú verið starfrækt í Borgartúni einn mánuð. Verkefnið hefur farið mjög vel af stað þennan fyrsta mánuð, ekkert óvænt hefur komið upp á og skjólstæðingar sem nýta þjónustuna lýsa mikilli ánægju með hana.
Vel heppnað málþing um málefni barna á flótta
Innanlandsstarf 03. september 2024Nýverið fór fram vel heppnað málþing um áskoranir barna á flótta í íslensku skólakerfi, en nýtt fræðsluefni um málaflokkinn var að koma út. Á þinginu kom fram hve mikilvægt er að börnin fái góðar móttökur og að þó að mikill árangur hafi náðst á þessu sviði sé enn mikið verk fyrir höndum.
Söfnuðu fyrir börn í Úkraínu og Palestínu
Almennar fréttir 26. ágúst 2024Vinirnir Elías Andri Grétarsson, Dagur Rafn Atlason og Björgvin Atli Jóhannesson afhentu okkur afrakstur af söfnun sinni, sem verður nýtt til að hjálpa börnum í Úkraínu og Palestínu.