Innanlandsstarf
Mikill áhugi á tungumálakennslu Rauða krossins
18. desember 2023
Rauði krossinn stendur fyrir fjölbreyttu félagsstarfi fyrir flóttafólk og umsækjendur um alþjóðlega vernd. Tungumálakennsla er veigamikill þáttur í starfinu og áhuginn er mikill.
Rauði krossinn á Íslandi heldur úti fjölbreyttu félagsstarfi fyrir flóttafólk og umsækjendur um alþjóðlega vernd. Markmið starfsins er að draga úr félagslegri einangrun og stuðla að aukinni virkni meðal markhópsins, en rannsóknir benda til að þetta stuðli að auknu geðheilbrigði og hjálpi fólki í gegnum erfiðleika í sínu lífi. Leitast er við að starfið fari fram alls staðar þar sem umsækjendur um vernd dvelja.
Mikill áhugi á íslenskunáminu
Starfið er alfarið drifið áfram af sjálfboðaliðum og það er mjög fjölbreytt, allt frá íþróttum að handavinnu, spilum og kaffispjalli, en einn veigamikill þáttur starfsins er tungumálaþjálfun. Mikill áhugi er meðal margra umsækjenda um alþjóðlega vernd á því að bæta tungumálakunnáttu sína á meðan biðin sem fylgir umsóknarferlinu stendur yfir.
Sjálfboðaliðar okkar hafa boðið upp á skipulagða þjálfun í bæði íslensku og ensku. Íslenskutímarnir á höfuðborgarsvæðinu fara fram í félagsmiðstöðinni Árskógum 4 í Reykjavík og þjálfunin er í höndum reyndra kennara, með stuðningi fjölbreytts hóps sjálfboðaliða sem öll eiga það sameiginlegt að tala íslensku. Námskeiðin eru einkum ætluð þeim sem ekki hafa fengið kennitölu og eiga ekki kost á námskeiðum á vegum annarra.
„Í Reykjavík eru íslenskunámskeið haldin í þremur fimm vikna lotum á haustin og vorin, en sjálfboðaliðar sjá um kennsluna. Fjöldi námskeiða og skipulag þeirra fer eftir þeim sjálfboðaliðum sem gefa kost á sér hverju sinni,“ segir Baldur Sigurðsson, einn sjálfboðaliðanna sem sjá um kennslu. „Við setjum það í forgang að bjóða upp á byrjendanámskeið í hverri lotu, sem sótt eru af þeim sem eru tiltölulega nýkomin til landsins og kunna ekkert í íslensku. Þegar aðstæður leyfa er svo einnig boðið upp á framhaldsnámskeið fyrir þau sem hafa lokið byrjendanámskeiðinu.
Hingað til hefur verið stuðst við kennslubókina Íslenska fyrir alla 1, en á námskeiðunum er lögð áhersla á að fá fólk til að tala, spyrja spurninga og svara þeim, þannig að úr verði stutt samtöl um hversdagsleg viðfangsefni,” bætir Baldur við. „Ekki er lögð áhersla á að kenna málfræði nema að því leyti sem þarf til að nemendur skilji málnotkun í samtölum hverju sinni.”
Nemendur með afar ólíkan bakgrunn
Aðstæður nemenda eru mjög misjafnar. Sumir koma frá stríðshrjáðum svæðum og eru jafnvel nýsloppnir frá miklum hörmungum. Aðrir hafa náð meira jafnvægi og geta einbeitt sér betur að náminu.
Sumir hafa góðar vonir um að fá alþjóðlega vernd á Íslandi og sjá tilgang í því að læra íslensku, aðrir bíða í óvissu og sjá sér ef til vill meiri hag í að læra ensku. Sumir eru hámenntaðir, kunna nokkur tungumál og eru fljótir að læra nýtt tungumál, aðrir hafa minni skólagöngu og kunna einungis móðurmál sitt, sem hugsanlega er skrifað með allt öðru letri en við þekkjum. Þetta er líka fólk á mjög ólíkum aldri, en almennt eiga mörg þeirra sem eru komin yfir fertugt erfiðara með að tileinka sér nýtt tungumál, svo það getur verið mjög skemmtilegt að sjá þau ná árangri.
Fréttir af starfinu
FréttayfirlitSeldu perl til styrktar Rauða krossinum
Almennar fréttir 01. nóvember 2024Fjórar vinkonur gengu í hús í Síðuhverfi á Akureyri og seldu perl til styrktar Rauða krossinum.
Rauði krossinn og íslensk stjórnvöld undirrita heit á sviði mannúðarmála
Almennar fréttir 31. október 2024Íslensk stjórnvöld og Rauði krossinn á Íslandi hafa undirritað fimm heit á sviði mannúðarréttar og mannúðarmála.
Héldu tombólu fyrir fátæk börn
Almennar fréttir 24. október 2024Fjórar vinkonur úr Hafnarfirði héldu nýlega tombólu til að styrkja fátæk börn í Afríku.