Innanlandsstarf
Örugga neyslurýmið Ylja hefur starfsemi á morgun
09. mars 2022
Velferðarráð samþykkti í dag samning velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Rauða krossins um rekstur neyslurýmis. Embætti landlæknis hefur gefið út starfsleyfi vegna rekstursins og er það í fyrsta skipti sem slíkt leyfi er veitt. Neyslurýmið, sem verður til bráðabirgða rekið í sérútbúnum bíl, tekur til starfa á morgun.
Tilkoma neyslurýmisins þykir mikilvægt skref í þjónustu við fólk með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Það byggir á hugmyndafræðinni um skaðaminnkun en í því felst að draga úr heilsufarslegum, félagslegum og efnahagslegum afleiðingum notkunar vímuefna, án þess endilega að draga úr notkun þeirra. Í rýminu munu einstaklingar, 18 ára og eldri, geta neytt ávana- og fíkniefna í æð undir eftirliti starfsfólks.
Lagabreytingar sem gerðar voru 5. júní 2020 eru grundvöllur þess að hægt er að reka neyslurými en þær fólu í sér heimild til sveitarfélaga um að koma á fót slíku rými. Eftir samþykkt lagabreytinganna hófust viðræður velferðarsviðs við Sjúkratryggingar Íslands og í kjölfar þess við Rauða krossinn um reksturinn, að fengnu starfsleyfi frá Embætti landlæknis.
„Það er fagnaðarefni að loksins verði öruggt neyslurými að veruleika í Reykjavík fyrir þá einstaklinga sem neyta ávana- og fíkniefna í æð. Við höfum lagt mikla áherlsu á að byggja upp skaðaminnkandi þjónustu á þessu kjörtímabili með það að markmiði að minnka skaðann sem notkun vímuefna hefur fyrir þann sem notar þau en einnig fjölskyldu, nágranna og samfélagið allt. Hér er vonandi bara tekið fyrsta skrefið í samvinnu ríkis og borgar um að samþætta heilbrigðis og félagsþjónustu fyrir þennan viðkvæma hóp,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar. Í sama streng tekur Marín Þórsdóttir, deildarstjóri höfuðborgardeildar Rauða krossins. „Þetta er merkilegur áfangi í sögu skaðaminnkunar á Íslandi og við hjá Rauða krossinum erum stolt af því brautryðjendastarfi sem við höfum unnið síðastliðin ár þannig að fólki með vímuefnavanda sé mætt á jafningagrundvelli og fái þá aðstoð sem þau þurfa. Við erum þakklát fyrir að fá að koma að þessu verkefni með Reykjavíkurborg og að geta aðstoðað fólk af mannúð.“
Áætlaður rekstrarkostnaður neyslurýmisins er um 50 milljónir króna á ári en hann greiðist af Sjúkratryggingum Íslands. Staðsetning bílsins er ákveðin með tilliti til þarfa notenda í huga og staðsett miðsvæðis í Reykjavík, í góðu samstarfi við viðbragðsaðila. Leyfið vegna rekstursins er gefið út til eins árs.

Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Listsköpun, leikur og lærdómur
Innanlandsstarf 15. júlí 2025„Þetta voru góðar og gefandi samverustundir og mætingin var mjög góð,“ segir Yana Miz, verkefnisstjóri Wellbeing4U hjá Rauða krossinum, um uppskeruhátíð verkefnisins þar sem tugir flóttafólks frá Úkraínu á öllum aldri komu saman.

Stöðvum helvíti á jörðu
Alþjóðastarf 09. júlí 2025„Hörmungarnar á Gaza eru skuggi yfir mannkyni,“ skrifa framkvæmdastjórar sex íslenskra mannúðarfélaga. „Líf íbúa Gaza eru jafn mikils virði og líf annarra íbúa þessa heims, það ætti ekki að þurfa að taka fram, en engu að síður horfir heimurinn dofinn upp á íbúa Gaza svipta allri mannlegri reisn.“

Mikilvægt að fá að vera til staðar fyrir fólk í afplánun
Innanlandsstarf 08. júlí 2025Pétur Kristófersson, sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum, heimsækir fanga og spjallar við þá um það sem á þeim brennur. Tilgangurinn er að aðstoða þá við undirbúning fyrir lífið eftir afplánun.