Innanlandsstarf

Skýrsla um stöðu fólks í umborinni dvöl á Íslandi

20. janúar 2023

Rauði krossinn á höfuðborgarsvæðinu hefur unnið skýrslu um þær erfiðu aðstæður sem fólk sem er í svokallaðri umborinni dvöl á Íslandi býr við. Niðurstöðurnar sýna meðal annars að andlegri og líkamlegri heilsa þeirra hrakar sífellt og að fólkið býr við mikla óvissu um hvort það geti lifað mannsæmandi lífi.

Andlegri og líkamlegri heilsa fólks í umborinni dvöl á Íslandi hrakar sífellt og fólkið býr við mikla óvissu um hvort það geti lifað mannsæmandi lífi.

Umborin dvöl er hugtak sem notast er við í skýrslunni yfir einstaklinga sem fengið hafa lokasynjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd íslensk stjórnvöld geta ekki framkvæmt brottflutning þeirra úr landi, en vegna sértækra og fjölbreyttra aðstæðna. Þetta þýðir að fólkið býr við réttaróvissu og hefur takmörkuð réttindi og aðgengi að þjónustu í ótilgreindan tíma.

Skýrslan er afrakstur sex mánaða rannsóknarvinnu, en markmið hennar var að meta þarfir fólks sem er í umborinni dvöl á Íslandi. Hún inniheldur bæði þær takmörkuðu upplýsingar sem eru til um þennan hóp sem og vitnisburði úr viðtölum sem tekin voru við fólk sem er í umborinni dvöl á Íslandi.

Hugmyndin að rannsókninni kviknaði út frá samtölum milli umsækjenda um alþjóðlega vernd og lögfræðinga sem störfuðu hjá Rauða krossinum, en þeir tóku eftir því hve augljóslega takmörkuð réttindi þessa hóps voru.

Hópurinn sem viðtölin voru tekin við samanstendur af fimmtán einstaklingum frá Nígeríu og Írak sem hafa verið á Íslandi í eitt til sex ár. Í viðtölunum sögðu þátttakendur frá því hvernig þeir þurftu að þola ofbeldi og ótryggar aðstæður í heimalöndum sínum en hafi komið til Íslands til að finna öryggi.

Þar sem einstaklingarnir eru hér í umborinni dvöl þýðir það að aðgengi að réttindum og þjónustu skortir, þar sem þeir eru ekki með kennitölu og er gert nánast ómögulegt að sækja um og hljóta atvinnuleyfi. Rannsóknin leiddi einnig í ljós að börn fólks sem er í umborinni dvöl á Íslandi og fæðast hér eru í viðkvæmri stöðu vegna óvissu um ríkisfang sitt, þar sem það er óstaðfest af yfirvöldum í heimaríkjum þeirra.

Flest þeirra sem tóku þátt í rannsókninni upplifa það að vakna og fara að sofa, dag eftir dag, án þess að hafa neitt að gera á daginn. Rannsóknin sýnir að bein afleiðing af þessu er alvarlegt heilsutap, bæði líkamlegt og andlegt, sem í sumum tilfellum ógnar lífi þeirra.

Þátttakendur lýstu þeirri ósk sinni að fá að lifa „venjulegu lífi“, sem þýðir fyrir þeim að geta gert hversdagslega hluti eins og að fara í vinnuna, stofna fjölskyldu, hafa aðgang að heilbrigðisþjónustu og geta undirgengist nauðsynlegar læknisaðgerðir eða opna bankareikning. Í skýrslunni er þessi löngun skilgreind sem vilji til að lifa mannsæmandi lífi og hvatt er til ýmissa breytinga.

Til að koma til móts við þarfir fólks sem er í umborinni dvöl þarf fyrst að búa til lagaramma sem gerir þeim kleift að hljóta betri réttarstöðu, t.a.m með leið að löglegu dvalarleyfi hér á landi. Í því samhengi þurfi að einfalda aðgengi þessa hóps að bráðabirgðadvalarleyfi sem og bráðabirgðaatvinnuleyfi. Þá sé brýnt að skoða sérstaklega aðstæður barna sem fæðst hafa hér á landi, en óvissa ríkir um lagalega stöðu og ríkisfang þeirra.

--

Hægt er að lesa skýrsluna í heild sinni hér og styttri útgáfu af skýrslunni má finna hér á ensku og íslensku.