Innanlandsstarf

Starfsmenn Rauða krossins kenndu í Vísindaskólanum

29. júní 2023

Tveir starfsmenn Rauða krossins við Eyjafjörð tóku þátt í kennslunni hjá Vísindaskóla unga fólksins í Háskólanum á Akureyri fyrr í mánuðinum, en hann er ætlaður ungmennum á aldrinum 11-13 ára.

Þær Inga Lilja Ólafsdóttir, verkefnastjóri í málefnum flóttafólks, og Sóley Björk Stefánsdóttir, verkefnastjóri í Eyjafjarðadeild, tóku þátt í kennslu í Vísindaskólanum á Akureyri fyrr í mánuðinum þar sem þær fjölluðu um upplifanir flóttafólks.

Markmið Vísindaskólans er að bjóða ungmennum á aldrinum 11-13 ára upp á fræðandi og skemmtilega afþreyingu. Þar fá ungmennin að kynnast þemum sem endurspegla fjölbreytt námsframboð Háskólans á Akureyri. Kennd eru fimm námskeið, eitt á hverjum degi.

Eitt af námskeiðunum sem skólinn bauð upp á í sumar hét „Að eiga hvergi heima“ og þar voru skoðaðar spurningar eins og „Af hverju verða stríð?“, „Hvernig leysast þau?“, „Hverjar eru afleiðingar stríðs?“ og „Hvernig ætli það sé að komast aldrei aftur í sitt eigið rúm?“.

Krakkarnir skreyttu teikningu af friðardúfu með vangaveltum sínum.

„Til við að svara þessum spurningum einbeittum við okkur að mikilvægi þess að setja sig í spor annarra, ræddum um fordóma og fordómaleysi, fjölbreytileika og umburðarlyndi, hvað mannúð væri og hvernig þau gera betur en fyrri kynslóðir, svo eitthvað sé nefnt,“ sagði Anna Karen Úlfarsdóttir, verkefnastjóri hjá Háskólanum á Akureyri.

Krakkarnir veltu ýmsu fyrir sér út frá þessu þema og skreyttu teikningu af friðardúfu með vangaveltum sínum.