Innanlandsstarf

Tæplega 8.5 milljónir króna söfnuðust á Öll sem eitt tónleikunum

21. júní 2024

Þann 7. maí síðastliðinn fóru samstöðutónleikarnir Öll sem eitt fram í Háskólabíó, en markmið tónleikanna var að sýna samstöðu með þolendum átakanna í Gaza og safna fé til að styrkja hjálparstarf þar. Á tónleikunum kom fram fjöldinn allur af frábæru íslensku tónlistarfólki fyrir framan fullan sal af gestum, en auk þessu gátu áhorfendur heima í stofu fylgst með tónleikunum í beinni útsendingu á Stöð 2.

Allur ágóði miðasölunnar rann beint til Rauða krossins og UNICEF á Íslandi, en fólk hafði einnig kost á að styrkja söfnunina í gegnum sérstaka söfnunarsíðu og söfnunarnúmer.

Alls söfnuðust 8.477.402 kr. og skiptist það fé jafnt á milli Rauða krossins og UNICEF á Íslandi.

Ljósmynd/Ásgeir Þrastarson

Rauði krossinn á Íslandi styrkir palestínska Rauða hálfmánann

Söfnunarféð sem fór til Rauða krossins á Íslandi verður sent til palestínska Rauða hálfmánans,  sem er hluti af hinni alþjóðlegu hreyfingu Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Félagið hefur áratugum saman gegnt veigamiklu hlutverki í Palestínu sem ein helstu mannúðarsamtök á svæðinu.

Frá 7. október síðastliðnum hefur palestínski Rauði hálfmáninn sinnt stórfelldu hjálparstarfi á Gaza. Félagið veitir læknisþjónustu, sér um sjúkraflutninga, dreifir mat og vatni og vinnur að bættri hreinlætisaðstöðu og húsaskjóli fyrir flóttafólk. Auk þess stuðlar það að bættu aðgengi að lyfjum og veitir bæði fjárhagsaðstoð og sálfélagslegan stuðning. Félagið vinnur einnig náið með öðrum aðilum sem sinna hjálparstarfi til að tryggja að sem flest þeirra sem þurfa mest á hjálp að halda fái nauðsynlegan stuðning. Með því að styðja félagið nýtist féð sem best þar sem þörfin er mest.

Ljósmynd/Ásgeir Þrastarson

UNICEF á Íslandi styrkir hjálparstarf UNICEF í Palestínu

Söfnunarfé til UNICEF á Íslandi rennur í neyðaraðgerðir samtakanna á Gaza. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur verið í Palestínu í meira en 4 áratugi og hefur sinnt hjálparstarfi á Gaza frá því að árásir hófust. Þrátt fyrir ótal hindranir og árásir á hjálparstarfólk og heilbrigðisstarfsfólk þá hafa UNICEF og samstarfsaðilar náð að hjálpa þúsundum barna á Gaza á síðustu mánuðum, meðal annars með mat, beinni fjárhagsaðstoð, hreinu vatni, hlýjum vetrarfatnaði og læknisaðstoð og hitakössum fyrir fyrirbura.

Frá því að árásir hófust hafa UNICEF og Rauði krossinn ítrekað kallað eftir vopnahléi, að fleiri inngönguleiðir verði tryggðar sem gerir hjálparsamtökum kleift að flytja hjálpargögn inn á Gaza og að alþjóðalög séu virt. Hver dagur sem líður án vopnahlés og aðgengi að mannúðaraðstoð kostar börn og fjölskyldur lífið á Gaza.

Ljósmynd/Ásgeir Þrastarson

Stuðningur í verki

Bæði Rauði krossinn og UNICEF á Íslandi vilja þakka Elísabetu Eyþórsdóttur og Ellen Kristjánsdóttur kærlega fyrir að standa að þessum vönduðu tónleikum. Þær áttu frumkvæðið af þessari fallegu kvöldstund þar sem fólk fékk tækifæri til að koma saman og sýna þolendum átakanna í Palestínu stuðning í verki. 

Átökin fyrir botni Miðjarðarhafs hafa nú staðið yfir í rúmlega átta mánuði og bitnað á gríðarlegum fjölda fólks, en ástandið er allra verst á Gaza.

Ljósmynd/Ásgeir Þrastarson