Innanlandsstarf

Viðbrögð Rauða krossins á Íslandi vegna jarðhræringa við Grindavík

18. júní 2024

Rauði krossinn hefur verið í samfelldum viðbrögðum frá því að Grindavíkurbær var rýmdur 10. nóvember. 

Þrjár fjöldahjálparstöðvar voru opnaðar í Reykjanesbæ, Árborg og Kópavogi og voru að störfum til 14. nóvember, þegar tekist hafði að finna öllum dvalargestum tímabundið húsnæði. Um 200 manns nýttu sér fjöldahjálparstöðvarnar. Sextíu sjálfboðaliðar Rauða krossins í neyðarvörnum stóðu vaktina í þessum þremur fjöldahjálparstöðum auk nokkurra starfsmanna Rauða krossins. 

Hjálparsími Rauða krossins tók á móti mörg þúsund símtölum þessa fyrstu daga, fyrst vegna skráninga í rýmingu og síðar vegna almennrar upplýsingagjafar. Auk þess sem Hjálparsíminn hefur verið opinn allan sólarhringinn fyrir Grindvíkinga og verið virkjaður í hverri einustu rýmingu síðan. 

Neyðarsöfnun fyrir Grindvíkinga

Félagið hóf neyðarsöfnun vegna Grindvíkinga skömmu eftir rýmingu. Söfnunarféð var nýtt í neyðarstyrki sem Grindvíkingar sóttu um í þjónustumiðstöð Almannavarna. Úthlutun hófst í lok nóvember 2023 og varði til 20. mars. Úthlutunarnefndin var skipuð Rauða krossinum, Grindavíkurkirkju og félagsþjónustu Grindavíkurbæjar. Alls var úthlutað 62.296.230 kr og nutu 1.874 einstaklingar góðs af því. 

Þjónustumiðstöð opnaði 15. nóvember í Tryggvagötu 19, gamla Tollhúsinu. Venju samkvæmt er miðstöðin rekin sameiginlega af Almannavörnum, Grindavíkurbæ og Rauða krossinum. Mesti þunginn fyrstu vikurnar fór í að leysa bráðahúsnæðisvanda. Rauða krossinum var falið að taka saman upplýsingar um húsnæðisþörf og húsnæðisframboð, sem húsnæðisteymi Grindavíkur tók svo við.  

Rauði krossinn hefur leitt sálfélagslegan stuðning (áfallahjálp) í þjónustumiðstöðinni frá opnun. Grindvíkingar gátu gengið inn í þjónustumiðstöð og fengið viðtal í sálrænum stuðning án þess að bóka fyrir fram, en rúmlega 300 formlegum viðtölum var sinnt með aðstoð Kara Connect. Félagið sinnti viðtölunum með starfsfólki og sjálfboðaliðum en fengum sömuleiðis aðstoð frá heilbrigðisstofnunum og sveitarfélögum. Þá voru einnig sjálfboðaliðar og starfsmenn með viðveru í opnum rýmum miðstöðvarinnar og veittu þar óformlegri stuðning. Fulltrúi Rauða krossins situr í samráðshópi áfallahjálpar á landsvísu og tók ríkulegan þátt í því að skipuleggja sálræna hjálp fyrir börn og foreldra í kjölfar hamfaranna. 

Rauði krossinn sinnti upplýsingahlutverki varðandi stöðuna og næstu aðgerðir bæjarins og almannavarna. Félagið vann náið með félagsþjónustu Grindavíkurbæjar í viðbragðinu og sá um móttöku allra gesta fyrstu vikurnar. Einnig hélt félagið fundi á pólsku og tælensku til að tryggja upplýsingaflæði til þeirra sem ekki hafa fullt vald á ensku né íslensku. Í þjónustumiðstöð aðstoðaði Rauði krossinn Grindvíkinga við að sækja um styrki hjá Rauða krossinum, að sækja um íbúðir hjá Bríet og á leigutorgi, að sækja um leigustyrk hjá HMS, sækja um leyfi til að fara inn í Grindavíkur og að sækja um sérfræðitíma hjá Kara Connect.

Áframhaldandi verkefni - viðnámsþróttur á Suðurnesjum

Þjónustumiðstöð Grindavíkur lokaði 31. maí 2024. Rauði krossinn heldur engu að síður samstarfi sínu við sveitarfélagið og styður við félagsþjónustu Grindavíkurbæjar áfram í bráðatilvikum. Fulltrúar frá Rauða krossinum sitja í samráðshópi áfallahjálpar Suðurnesja. Á þeim vettvangi hefur komið fram að hóparnir sem þurfa mest á stuðning að halda eru eldri Grindvíkingar og börn í unglingadeild sem hafa þurft að aðlaga sig nýjum raunveruleika og mynda nýtt tengslanet á sínum síðustu árum í grunnskóla. 

Í apríl síðastliðnum hlaut félagið styrk frá Rio Tinto að jafnvirði 1,5 milljónum dollara eða um 208 milljónir króna, til stuðning samfélagsins sem hefur orðið fyrir áhrifum jarðskjálfta og eldgosa í og við Grindavík. Til viðbótar við að styðja samfélagið með áherslu á þá hópa sem þurfa mest á stuðning að halda, er einnig markmið um að efla viðnámsþrótt þeirra sem búa á svæðinu. Verkefnið hefst formlega í september 2024 og á að standa yfir í tvö ár.  Nú á dögunum, ásamt lykilaðilum frá Grindavíkurbæ, er verið að móta verkefnaáætlun um hvernig þessu fjármagni skal best ráðstafað. Þó, í samráði við samráðshóp áfallahjálpar á Suðurnesjum var ákveðið að bregðast við í sumar til að styðja við unga og eldri Grindvíkinga. Boðið hefur verið upp á nokkur námskeið. Fyrst má þar nefna, í samstarfi við Skátana, sumarbúðir á Úlfljótvatni og tvö vikulöng leikjanámskeið á mismunandi stöðum í Reykjavík, öll þátttakendum að kostnaðarlausu. Skráning gengur vel og eru námskeiðin að fyllast. Er þetta hugsað sem tækifæri til grindvíska krakka til þess að koma saman, styðja hvort annað og rækta vináttuna. Auk þess styrkir Rauði krossinn eldri borgara frá Grindavík til veru í orlofsíbúðum í Löngumýri í júlí. Orlofsdvölin er eftirsótt og verður frábær dagskrá fyrir þennan mikilvæga hóp. Loks verða námskeið með Dale Carnegie fyrir krakka í 7.-10. bekk haldin þeim að kostnaðarlausu næstkomandi ágúst til þess að aðstoða og styrkja þau við að aðlagast nýju samfélagi. Skráning gekk vonum framar og mögulegt er að boðið verði upp á fleiri námskeið, hvort sem það verði í sumar eða síðar. 

Félagið er sífellt að meta og endurmeta þjónustuþarfir Grindvíkinga á hverjum tíma, í nánu samráði við Grindavíkurbæ, Kirkjuna, Almannavarnir og aðra samstarfsaðila.