Innanlandsstarf
Ylja er „eins og gott knús“
06. maí 2025
Samfélagið á Rás 1 heimsótti neyslurýmið Ylju sem Rauði krossinn rekur og ræddi við starfsfólk og konu sem nýtir sér þjónustuna sem þar býðst. Þátturinn gefur einstaklega góða innsýn í starfsemi Ylju og um gagnsemi úrræðisins.

„Við leitum hingað til að fá búnað og okkur finnst starfsfólkið hérna svo æðislegt,“ segir María, kona sem notar morfín í æð, við fréttakonu RÚV sem kynnti sér neyslurýmið Ylju fyrir útvarpsþáttinn Samfélagið á Rás 1. María segir alla þurfa stað þar sem ekki sé talað niður til fólks og „ekki horft á mann eins og maður sé ógeðslegur dópisti“. Í Ylju fái allir hlýjar móttökur. „Þér er heilsað með nafni og þú færð kaffibolla. Ég líki því við að fara hingað oft við að fá gott knús.“
Neyslurýmið Ylja hefur frá því í ágúst á síðasta ári verið í einingahúsi við Borgartún í Reykjavík. Þar er unnið eftir skaðaminnkandi hugmyndafræði og markmið þjónustunnar er að koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll, sýkingar og smitsjúkdóma og að vernda líkamlega og andlega heilsu fólks sem notar vímuefni. Ylja er öruggt rými fyrir notkun vímuefna um æð og til að reykja ópíóíða og örvandi vímuefni undir eftirliti fagfólks – í fullum trúnaði og án þess að þurfa að gefa upp nafn.
Dýrmætt traust
Svala Sigurðardóttir, verkefnastjóri Ylju, segir við Samfélagið að fjölbreyttur hópur nýti sér þjónustuna. „Við erum farin að kynnast þeim vel og finnum mikið traust til okkar. Mér finnst það mjög dýrmætt. Það er eitt það dýrmætasta í minni vinnu að finna að einhver treystir mér og ég geti hjálpað honum og bent honum áfram.“
Hjúkrunarfræðingurinn Hildur Harðardóttir segir að margir sem noti þjónustu Ylju séu heimilislausir. „Ef Ylja væri ekki til staðar myndi sá hópur mögulega vera að nota úti, í mjög ótryggum aðstæðum þegar gistiskýlin eru lokuð. Það eru mjög streituvaldandi aðstæður.“
Rauði krossinn hefur verið leiðandi í skaðaminnkandi aðgerðum á Íslandi frá árinu 2009. Með bæði Frú Ragnheiði og Ylju hefur félagið mótað mannúðlega og faglega þjónustu sem mætir einstaklingum þar sem þeir eru staddir – bókstaflega.
Hlustaðu á þátt Samfélagsins um Ylju hér.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Stöðvum helvíti á jörðu
Alþjóðastarf 09. júlí 2025„Hörmungarnar á Gaza eru skuggi yfir mannkyni,“ skrifa framkvæmdastjórar sex íslenskra mannúðarfélaga. „Líf íbúa Gaza eru jafn mikils virði og líf annarra íbúa þessa heims, það ætti ekki að þurfa að taka fram, en engu að síður horfir heimurinn dofinn upp á íbúa Gaza svipta allri mannlegri reisn.“

Mikilvægt að fá að vera til staðar fyrir fólk í afplánun
Innanlandsstarf 08. júlí 2025Pétur Kristófersson, sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum, heimsækir fanga og spjallar við þá um það sem á þeim brennur. Tilgangurinn er að aðstoða þá við undirbúning fyrir lífið eftir afplánun.

Börn með skotsár á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins
Alþjóðastarf 03. júlí 2025„Við höfum séð allt að 200 særða á einum degi; með skotsár, brunasár, sár eftir sprengjubrot og aðra áverka,“ segir hjúkrunarfræðingur sem starfar á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins í Rafah. „Við fáum til okkar börn með skotsár.“