Almennar fréttir

Heimsóknavinir í 10 ár

25. ágúst 2023

Fyrir 10 árum síðan ákvað Gígja Karelsdóttir (78) að gerast heimsóknarvinur Rauða krossins. Hún hafði flutt í Kópavoginn tveimur árum áður, þegar hún hætti að vinna, og þekkti ekki svæðið. Hún sá auglýsingu frá Rauða krossinum um heimsóknarvinaverkefnið og ákvað að sækja um.

Fyrsti heimsóknarvinurinn sem hún fór til hentaði ekki og því bað hún um annan vin. Svo heppilega vildi til að sá vinur bjó í sama hverfi svo hún svo hún ákvað að jánka því, „þetta væri bara einn þriðjudagur í viku.“

Þann 19. ágúst 2013 fór Gígja í sína fyrstu heimsókn til Svövu Sigurðardóttur (96) og hafa þær hist reglulega síðan. Í upphafi voru þetta heimsóknir einu sinni í viku í klukkutíma í senn en í dag hefur heimsóknarmynstrið breyst. Þær hittast ennþá einu sinni í viku en heimsóknin varir ekki í eina klukkustund heldur mun lengur. Í dag eru þær meira vinkonur en gestgjafi og sjálfboðaliði.

Verkefnastjórar Vinaverkefna Rauða krossins fóru í heimsókn í vikunni og hittu þær stöllur í tilefni af 10 ára heimsóknarafmælinu þeirra. Þeim var afhent skjal sem á stóð „Heimsóknarvinur í 10 ár“ og einnig var þeim færðir blómvendir frá Blómaval í Skútuvogi en Blómaval er einn af styrktaraðilum Vinaverkefnanna.

 

Gigja Karelsdóttir og Svava Sigurðardóttir

Alvöru væntumþykja

Í heimsókninni fundum þær hversu mikla væntumþykju og virðingu þær hafa fyrir hvor annarri. Þær sögðu báðar að þær hefðu smollið saman frá fyrstu heimsókn. Svava sagði að Gígja væri yndisleg, að hún hefði hjálpar sér á marga vegu og hún væri aldrei að fjasa út af henni þó að „hún væri svona eða svona.“ Vegna þessa eigi þær svo rosalega vel saman. Gígja svaraði að það hlyti að vera ástæðan, því annars hefðu þær aldrei náð að vera svona lengi í þessu.

Við spurðum hvað verkefnið hefði gefið Svövu og átti hún erfitt með að svara þar sem hún sagðist ekki vita hvar hún ætti að byrja. Verkefnið hefur gefið henni svo margt, „það er óendanlegt" og bætti svo við: „það er alvöru væntumþykja hér.“

Gígja sagði: „Hún (Svava) er mjög skemmtileg (þegar hún tekur sig til) “ og bætti svo við kímin: „Það ræður enginn við hana þegar hún byrjar að spjalla.“ Í framhaldinu sögðust þær ekki alltaf vera sammála um alla hluti en þær ræddu þá málin og leystu úr ágreiningi ef einhver er.

Í tilefni af 10 ára „afmælinu“ ætluðu þær að gera sér glaðan dag og fara út að borða.

Það er alltaf ánægjulegt þegar við heyrum af „pörun" sem hefur gengið vel og endist í þetta langan tíma. 

Ef þú hefur áhuga á þátttöku í verkefninu eða að gerast sjálfboðaliði endilega kynntu þér málið hér.