Alþjóðastarf
Rauði krossinn og utanríkisráðuneytið gera með sér samkomulag á sviði mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu
03. mars 2025

Rauði krossinn og utanríkisráðuneytið gera með sér samkomulag á sviði mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra, og Silja Bára R. Ómarsdóttir, formaður Rauða krossins á Íslandi, hafa undirritað rammasamning um verkefni á sviði þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar fyrir árin 2025-2028. Þetta er í þriðja sinn sem utanríkisráðuneytið og Rauði krossinn á Íslandi undirrita slíkan samning.
Markmið samningsins er að auka skilvirkni og árangur Íslands í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð, gera fjármögnun þróunarsamvinnuverkefna og mannúðaraðstoðar, sem veitt er af Rauða krossinum, fyrirsjáanlegri og auðvelda skipulagningu verkefna og viðbragða.
Að sögn Silju Báru R. Ómarsdóttur er slíkt samstarf sérlega mikilvægt, ekki síst á umbrotatímum þegar ófriður og sundrung valda samdrætti í framlögum til þróunarsamvinnu. Undanfarin ár hafa kennt okkur að slíkur stuðningur er ekki sjálfgefinn. Rauði krossinn lýsir því mikilli ánægju og þakklæti fyrir það nána samstarf sem félagið á við stjórnvöld á sviði mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu.
Meðal verkefna sem njóta stuðnings fyrir tilstuðlan rammasamningsins eru fræðsla um kynbundið ofbeldi í Sómalíu, trjárækt í Síerra Leóne, uppbygging á viðbúnaði og viðnámsþrótti samfélaga í Malaví og heilbrigðisfræðsla í búðum palestínsks flóttafólks í Líbanon. Þá eru ótalin neyðarviðbrögð vegna vopnaðra átaka og náttúruhamfara víða um heim.
Með samkomulaginu skuldbinda stjórnvöld og Rauði krossinn sig til að leggja til fjármagn í ofangreind verkefni. Mannvinir Rauða krossins standa að stórum hluta undir framlögum Rauða krossins til þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar.

Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Mannúðarstarfsfólk orðið skotmörk
Alþjóðastarf 08. maí 2025„Hver einasta árás á mannúðarstarfsmann er árás á samfélagið sem hann þjónaði,“ segja forsetar alþjóðasambands og alþjóðaráðs Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Forsetarnir segja að alþjóðasamfélagið geti ekki haldið áfram að líta fram hjá því er lög sem gilda í stríði eru hundsuð og mannúðarstarfsmenn markvisst orðnir skotmörk.

Ylja er „eins og gott knús“
Innanlandsstarf 06. maí 2025Samfélagið á Rás 1 heimsótti neyslurýmið Ylju sem Rauði krossinn rekur og ræddi við starfsfólk og konu sem nýtir sér þjónustuna sem þar býðst. Þátturinn gefur einstaklega góða innsýn í starfsemi Ylju og um gagnsemi úrræðisins.

Mannúðaraðstoð að hruni komin á Gaza
Alþjóðastarf 02. maí 2025Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) hefur lýst yfir að mannúðaraðstoð í Gaza sé á barmi algjörs hruns eftir tveggja mánaða stöðvun á flutningi birgða til Gaza. Þessi alvarlega staða hefur leitt til þess að íbúar svæðisins eru nú án lífsnauðsynlegrar mannúðaraðstoðar eins og matar, vatns og lyfja. Skortur á þessum nauðsynjum setur líf hundruða þúsunda íbúa í beina og bráða hættu.