Almennar fréttir

„Þróunarsamvinna á vegum Rauða kross Íslands hefur\r\nbætt lífskjör um 150.000 manna í Síerra Leóne“

23. júlí 2019

Í fyrra hrinti Rauði krossinn á Íslandi af stað þróunarverkefni í Vestur-Afríku sem miðar að því að stuðla að samfélagslegri endurhæfingu vegna þeirra afleiðinga sem ebólufaraldur hafði í för með sér í Síerra Leóne.

Um þrjú ár eru nú liðin frá því að ebólufaraldrinum var ráðið niðurlögum í Vestur-Afríku eftir að hafa gengið yfir svæðið á þriggja ára tímabili, frá 2013-2016. Faraldurinn vakti heimsathygli og fjölmörg alþjóðleg hjálparsamtök réðust í neyðarsafnanir til þess að leggja neyðaraðgerðum lið við að lina þjáningar og koma í veg fyrir frekari útbreiðslu veirunnar. Faraldurinn varð sá útbreiddasti sinnar tegundar í heiminum en alls varð ebóluveiran um 11.310 manns að bana í þremur löndum Vestur-Afríku, þ.e. í Síerra Leóne, Gíneu og Líberíu.

Rauði krossinn á Íslandi lagði sannarlega sín lóð á vogaskálar viðbragðsaðila Rauða kross hreyfingarinnar á svæðinu við að vinna bug á faraldrinum, sem loks hafðist um 18 mánuðum síðar eða í nóvember 2015. Faraldurinn hafði víðtæk áhrif á Síerra Leóne. Skráð dauðsföll af völdum veirunnar voru um 4.000 talsins en meira en 8.000 einstaklingar eru taldir hafa sýkst af rúmlega 14.000 tilfellum sem tilkynnt voru.

\"SL2\"Ívar Schram var við störf í Síerra Leóne á vegum Rauða krossin

Í fyrra hrinti Rauði krossinn á Íslandi af stað þróunarverkefni í Vestur-Afríku sem miðar að því að stuðla að samfélagslegri endurhæfingu vegna þeirra afleiðinga sem ebólufaraldurinn hafði í för með sér í Síerra Leóne. Verkefnið var styrkt af utanríkisráðuneytinu og framkvæmt af Rauða krossinum í Síerra Leóne, í samstarfi við Rauða krossinn á Íslandi og Rauða krossinn í Svíþjóð.

Ívar Schram, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum segir í viðtali frá aðstæðunum í Síerra Leóne og verkefni Rauða krossins á svæðinu.

Skildi eftir sig sviðna jörð

Faraldurinn gekk yfir 2013-2016 en Rauði krossinn á Íslandi fór af stað með verkefni á svæðinu árið 2018. En hvers vegna var farið af stað í þetta verkefni, svona löngu eftir að ebólufaraldurinn geisaði í Síerra Leóne? ,,Árið 2016, í kjölfar þess að faraldurinn stöðvaðist, vann Rauði krossinn að rannsókn í Síerra Leóne á umhverfisáhrifum neyðarviðbragða við ebólufaraldrinum og viðhorfi íbúa þar í landi gagnvart ebóluveirunni og þeim viðbrögðum heilbrigðisyfirvalda og alþjóðlegra hjálparsamtaka sem fylgdu í kjölfarið. Eitt af því sem þessi rannsókn leiddi í ljós var að þrátt fyrir að tekist hafi að uppræta ebólufaraldurinn má segja að hann hafi skilið eftir sig sviðna jörð og í raun teygja afleiðingarnar anga sína margfalt lengra en tölur um dauðsföll segja til um. Frá því að ebólufaraldrinum var ráðið niðurlögum hefur lítið verið hugað að samfélagslegum afleiðingum og endurhæfingu þar að lútandi innan Síerra Leóne. Mestur þungi aðgerða á sviði endurhæfingar hefur verið lagður í efnahagslega endurreisn landsins og almennt hefur lítil áhersla verið lögð á að græða félagsleg sár sem ebóluveiran skildi eftir sig innan berskjaldaðra samfélaga í landinu.‘‘

Þar af auki segir Ívar að efnahagstaða landsins skipti líka máli í þessu samhengi. Síerra Leóne er eitt fátækasta ríki í heiminum. Landið situr í 184. sæti af 189 ríkum á lífskjaralista Sameinuðu þjóðirnar. Til samanburðar situr Ísland í 6. sæti. Er varðar heilbrigði sem mælikvarða lífskjara er Síerra Leóne neðst á listanum með lífslíkur að meðaltali 52,2 ár. Tíðni mæðra- og barnadauða er þar jafnframt hæsta í heiminum í dag en 113,5 af hverjum 1,000 börnum láta lífið undir 5 ára aldri og 1,360 af hverjum 100,000 konum láta lífið við meðgöngu og/eða barnsburð.

 

Mikilvægt að fræða fólk um uppruna ebóluveirunnar
Þegar horft er til uppruna veirunnar, hvernig hún komst til Síerra Leóne segir Ívar tvennt sem ber að horfa til. ,,Í fyrsta lagi er það uppruni veirunnar og hvernig hún berst til manna. Í öðru lagi eru það svo smitleiðir veirunnar og hvernig hún verður að svokölluðum faraldri eða farsótt. Varðandi uppruna veirunnar er talið að ebóla smitist frá tilteknum dýrum í menn, en í löndum eins og Síerra Leóne er til dæmis algengt að fólk veiði sér villt dýr á borð við apa og leðurblökur til matar. Það var einmitt eitt af því sem verkefnið okkar beindi sjónum sínum að, þ.e. að fræða almenning um uppruna ebóluveirunnar til þess að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig.

Í upphafi verkefnisins framkvæmdum við svokallaða grunnlínurannsókn eða það sem á ensku kallast baseline study þar sem í ljós kom að aðeins 39% úrtaksins sögðust ekki borða villidýr eins og leðurblökur og apa lengur, sem var mikið áhyggjuefni. Í lok verkefnisins var svo framkvæmd lokarannsókn til þess að mæla árangurinn og í ljós kom að 88% úrtaksins sögðust ekki borða villt dýr lengur, sem verður að teljast býsna góður árangur.‘‘

\"SL6\"

 

Takmarkað aðgengi að fullnægjandi heilbrigðisaðstoð

Ívar nefnir að Afríkulönd séu sérstaklega berskjölduð fyrir smitsjúkdómum líkt og ebólu. Ebólufaraldurinn hefur nánast alfarið verið bundinn við Afríku og kemur sjúkdómurinn gjarnan upp á mjög afskekktum stöðum þar sem aðgengi að fullnægjandi heilbrigðisaðstoð er mjög takmarkað. ,,Heilbrigðiskerfið í Síerra Leóne ásamt öðrum innviðum í landinu er eins og gefur að skilja mjög takmarkað og getur á engan hátt sinnt sinni veiku þjóð, hvað þá þegar svona smitsjúkdómar blossa upp.‘‘

 

Ívar bætir við að í þessu samhengi verður einnig að hafa í huga að Síerra Leone hafði nokkrum árum á undan gengið í gegnum mjög blóðuga borgarastyrjöld sem stóð yfir í heil 11 ár og lagði innviði landsins næstum í rúst og hafði verulega neikvæð áhrif á fólkið í landinu.

 

„Upplýsingamiðlun og forvarnarfræðsla tók ekki mið af ólæsi fólks í Síerra Leóne“.
Í tilfelli Síerra Leóne má segja að einn af þeim lykilþáttum sem stuðlaði að útbreiðslu faraldursins hafi verið óviðunandi upplýsingamiðlun til almennings. Það gefur auga leið að forvarnarfræðsla og vitundarvakning til áhættuhópa er gríðarlega mikilvægur þáttur í því að sporna við útbreiðslu smitsjúkdóma á borð við ebólu, t.d. með því að fræða fólk um forðahýsil ebóluveirunnar, einkenni sjúkdómsins og viðunandi viðbrögð þegar grunur leikur á um smit. Á neyðartímum getur því mikilvægi upplýsinga jafnast á við vægi vatns, fæðu, læknisaðstoðar eða húsaskjóls, rétt eins og ebólufaraldurinn leiddi bersýnilega í ljós. Þrátt fyrir mikið framboð hjálparsamtaka og læknisaðstoðar varð raunin sú að mikill fjöldi fólks treysti sér ekki til læknis vegna hræðslu um að smitast eða þá að þau þekktu hreinlega ekki einkenni ebóluveirunnar og vissu ekki hvernig eða hvort hægt væri að komast undir læknishendur.

\"SL3\"

Fyrir tíma ebólufaraldursins höfðu landsmenn í Síerra Leóne þurft að þola skæðar hamfarir. Eins og kom fram áður þá geisaði borgarastyrjöld þar í landi frá 1991-2002 sem m.a. gróf verulega undan trausti almennings til yfirvalda og opinberra stofnanna í landinu. Að því leiddi að opinberar upplýsingar frá yfirvöldum voru gjarnan dregnar í efa og fólk reiddi sig fremur á óformlegar boðleiðir upplýsinga sem oft og tíðum byggðu á fölskum grunni og orðrómi einum. Sem dæmi flaug sú fiskisaga víða um Síerra Leóne að ebóluveiran væri pólitísks eðlis og alfarið á valdi stjórnvalda í landinu. Við upptök ebólufaraldursins áttu áreiðanlegar upplýsingar frá yfirvöldum því ekki greiða leið til almennings, sem varð til þess að fólk fylltist hræðslu og einangraði sig í stað þess að leita til læknis þegar upp komu einkenni ebóluveirunnar. Þetta varð til þess að smitaðir reyndust oft og tíðum of langt komnir á meðgöngutíma sjúkdómsins þegar tilfelli rötuðu loks undir hendur lækna, sem enn fremur vakti upp hræðslu og ótta gagnvart heilsugæslustöðvum og læknisaðstoð á svæðinu. Sömuleiðis höfðu langar vegalengdir og slæmt aðgengi að dreifbýlum og afskekktum svæðum þau áhrif að upplýsingar skiluðu sér seint um síðir til þorpsbúa, auk þess sem upplýsingamiðlun og forvarnarfræðsla tók ekki mið af ólæsi fólks í Síerra Leóne.

 

Ólæsi mikið vandamál

Ívar segir að ólæsi sé stórt vandamál í Síerra Leóne, þá sérstaklega á meðal stúlkna. ,,Ólæsi meðal stúlkna er sérstaklega algengt í Síerra Leóne en aðeins helmingur þeirra á aldrinum 15-24 ára kunna að lesa og aðeins 25% fólks 25 og eldra hefur lokið einhvers konar menntun á unglingastigi. Þetta er augljóslega stórt vandamál sem dregur verulega úr tækifærum og möguleikum fólks til að sækja sér atvinnu, menntun eða upplýsingar við hæfi. Til að setja þetta í eitthvað samhengi þá búa um 8 milljónir í Sierra Leóne þar sem um 36% eru á aldrinum 15-35 ára. Það má því áætla að það séu um 2 milljónir stúlkna í Síerra Leóne sem eru ólæsar.‘‘

 

\"SL5\"

 

„Við þurfum að leggja öll okkar lóð á bætt lífskjör stúlkna og kvenna í Afríku“

Rauði krossinn á Íslandi gerir kynja- og jafnréttismál að þverlægri áherslu í öllum sínum verkefnum og mörg þeirra vinna með beinum hætti að valdeflingu og bættum lífskjörum stúlkna og kvenna í lágtekjulöndum. Ívar segir að þrátt fyrir að aðstæðurnar séu ekki góðar, sé horft til betri vegar því öll menntun á grunnskólastigi er nú gjaldfrjáls.

 

,,Heimurinn er bara þannig í dag að við þurfum að leggja öll okkar lóð á vogarskálarnar til að tryggja bætt lífskjör stúlkna og kvenna þar sem þarfirnar eru mestar. Við þurfum fyrst og fremst að tryggja stúlkum viðunandi menntun og tryggja þeim heilbrigði og öruggt aðgengi svo þær geti sótt skóla,‘‘ segir Ívar.

 

 

Mannvinir eru máttarstólpar Rauða krossins í mannúðar- og hjálparstarfi. Verkefni Rauða krossins í Síerra Líone er eitt af því sem Mannvinir Rauða krossins taka þátt í að styrkja. Þessi stuðningur er ómetanlegur. Ef þú hefur áhuga á að leggja okkur lið í þessum mikilvægu verkefnum og gerast mannvinur, getur þú skráð þig hér.