Almennar fréttir

Tveir sendifulltrúar til viðbótar til Sýrlands

07. ágúst 2019

Neyðartjaldsjúkrahús hefur verið starfrækt í Al Hol flóttamannabúðunum frá maí á þessu ári í norðurhluta Sýrlands. Tveir sendifulltrúar fóru nú í júlí til starfa á sjúkrahúsinu og munu vinna þar í sumar og fram á haust.

Neyðartjaldsjúkrahús hefur verið starfrækt í Al Hol flóttamannabúðunum frá maí á þessu ári í norðurhluta Sýrlands. Sjúkrahúsið þjónustar yfir 70 þúsundum manns sem þar dvelja. Yfir 90% þeirra sem dvelja í búðunum eru konur og börn sem flúið hafa stríðsátök og ofbeldi í Sýrlandi undanfarna mánuði.

Tveir sendifulltrúar fóru nú í júlí til starfa á sjúkrahúsinu og munu vinna þar í sumar og fram á haust, þau Jón Eggert Víðisson og Lilja Óskarsdóttir. Jón Eggert mun vera í fjármálastjórnun og almennum umsýslurekstri spítalans á næstu mánuðum og mun Lilja starfa sem deildarhjúkrunarfræðingur til loka ágúst. Lilja hefur verið sendifulltrúi Rauða krossins á Íslandi til fjölda ára og á þó nokkrar starfsferðir að baki. Hún hefur m.a. starfað í neyðartjaldsjúkrahúsum í Bangladesh, Filippiseyjum, Nepal, Haiti og víðar. Jón Eggert er að fara í sína fyrstu starfsferð fyrir Rauða krossinn á erlendum vettvangi en hann lauk sendifulltrúanámskeiði síðastliðið haust. Hann hefur áður sinnt störfum í Afríku og Asíu fyrir Lækna án Landamæra.

Óbreyttir borgarar sem bera þungann
Anna Bryndís, verkefnastjóri sendifulltrúamála hjá Rauða krossinum á Íslandi segir að mikil þörf sé á neyðaraðstoð á svæðinu. „Ástandið í Sýrlandi er enn slæmt þótt það hafi dregið úr vopnuðum átökum í ýmsum hlutum Sýrlands,“ segir Anna Bryndís. „Við hjá Rauða krossinum höfum með dyggilegum stuðningi utanríkisráðuneytisins og Mannvina Rauða krossins svarað þörfum þolendum vopnaðra átaka í Sýrlandi og á þann linað þjáningar, byggt upp innviði og bjargað fjölmörgum mannslífum. Sendifulltrúar okkar halda þeim góðu verkum áfram en fyrst og fremst vonumst við til að átökunum linni sem fyrst því það eru alltaf óbreyttir borgarar sem bera hitann og þungann af slíkum átökum.“

Fimm sendifulltrúar frá Rauða krossinum á Íslandi til Al Hol
Alls hafa fimm íslenskir sendifulltrúar starfað í Sýrlandi í tengslum við aðstoð flóttamanna í Al Hol flóttamannabúðunum. Orri Gunnarsson starfaði að vatnshreinsimálum og öðrum tæknimálum frá maí fram til byrjun júlí og Jóhanna Elísabet Jónsdóttir bráðahjúkrunarfræðingur var við störf frá maí lokum fram í miðjan júní. Að auki sinnti Hólmfríður Garðarsdóttir hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir ráðgjafastörfum í heilbrigðismálum fyrir sendinefnd Alþjóða Rauða krossins í tæpa þrjá mánuði frá miðjum mars.