Innanlandsstarf

Starf Rauða krossins vegna jarðhræringa á Reykjanesi

20. nóvember 2023

Rauði krossinn hefur haft í ýmsu að snúast vegna jarðhræringanna á Reykjanesi. Hér má finna upplýsingar um starf félagsins vegna ástandsins og þjónustu sem er í boði fyrir Grindvíkinga.

Fjölmargir nýttu sér fjöldahjálparstöðvar Rauða krossins eftir rýmingu Grindavíkurbæjar.

Í stuttu máli má skipta starfi Rauða krossins hingað til í þrjá meginþætti. Það er vinna við rýmingar og rekstur fjöldahjálparstöðva, vinna í þjónustumiðstöð fyrir Grindvíkinga í miðborg Reykjavíkur og vinna við að koma Grindvíkingum í húsnæði.

Rýmingar og fjöldahjálparstöðvar

Að kvöldi föstudagsins 10. nóvember var Grindavíkurbær rýmdur. Nokkru áður en skipun um rýmingu var gefin út hafði Rauði krossinn á Íslandi opnað fjöldahjálparstöðvar á Selfossi, í Reykjanesbæ og í Kópavogi, þar sem Grindvíkingar höfðu þegar tekið að streyma út úr bænum.

Í fjöldahjálparstöðvunum fengu Grindvíkingar sem ekki gátu leitað skjóls hjá vinum og vandamönnum húsaskjól, sálrænan stuðning og mat, þar til hægt var að koma þeim fyrir í öðru húsnæði. Flestir gistu í fjöldahjálparstöðinni í Kópavogi, en þegar mest var eyddu um 160 manns nóttinni í fjöldahjálparstöðvunum í heild. Síðustu gestum fjöldahjálparstöðvanna var komið fyrir á þriðjudeginum 14. nóvember og eftir það var síðustu fjöldahjálparstöðinni lokað.

Auk þess að reka fjöldahjálparstöðvar tók Rauði krossinn að sér að skrásetja Grindvíkinga sem voru að rýma bæinn, svo þau sem ekki komu í fjöldahjálparstöð hringdu í Hjálparsímann 1717 og tilkynntu þar að þau væru komin í skjól.

Þjónustumiðstöð komin í gang

Eftir að fjöldahjálparstöðvunum var lokað hefur Rauði krossinn veitt upplýsingar í gegnum 1717, verið hluti af teyminu sem sér um að hjálpa Grindvíkingum að fá húsnæði og tekið þátt í rekstri þjónustumiðstöðvar Almannavarna í Tollhúsinu á Tryggvagötu. Miðstöðin er rekin í samstarfi við Almannavarnir, Ríkislögreglustjóra og Grindavíkurbæ.

Verkefni þjónustumiðstöðvar felast í stuðningi við íbúa Grindavíkurbæjar og aðra sem á einhvern hátt hafa orðið fyrir áhrifum jarðhræringanna á Reykjanesi. Þar er boðið upp á samveru, kaffitár og leikhorn fyrir börn. Rauði krossinn býður upp á sálfélagslegan stuðning og félagsleg ráðgjöf verður í boði á vegum starfsfólks Grindavíkurbæjar. Boðið er upp á upplýsingagjöf, fræðslu og ráðgjöf af ýmsu tagi og mun sá stuðningur verða útfærður í samræmi við þarfir og óskir íbúa Grindavíkurbæjar.

Við hvetjum alla Grindvíkinga til að fara í heimsókn í þjónustumiðstöðina fyrir spjall, samveru og upplýsingar. Þau sem sjá sér ekki fært að mæta þangað geta haft samband í gegnum síma 855 2787 eða með því að senda póst á fyrirspurnir@almannavarnir.is.

Mikil áhersla lögð á að koma fólki fyrir

Nú er lögð mikil áhersla á að koma Grindvíkingum sem vantar skjól í öruggt húsnæði fram yfir áramót. Teymi hefur tekið til starfa og vinnur nú hörðum höndum að því að koma fólki fyrir.

Ef þú ert í húsnæði sem þú getur ekki verið í fram yfir áramót skaltu skrá þig í gegnum þennan hlekk. Aðeins einn úr hverju heimili þarf að sækja um:

https://island.is/skra-thoerf-fyrir-skammtima-husnaedi

Hvenær á að skrá þörf fyrir skammtíma húsnæði?

Þær fjölskyldur og einstaklingar sem geta ekki dvalið í því húsnæði sem þau eru nú þegar í skrá sig hér. Haft verður samband við þau sem skrá sig eins fljótt og hægt er, en það gæti tekið nokkra daga.

Nauðsynlegt er fyrir þá sem hafa nú þegar skráð sig hjá okkur að skrá sig aftur.

Athugið að lítið sem ekkert framboð er af húsnæði á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Þessa stundina er mest framboð af húsnæði í sumarhúsabyggð, svo sem húsnæði stéttarfélaga.

Hvenær á ekki að skrá þörf fyrir skammtíma húsnæði?

Þær fjölskyldur og einstaklingar sem mögulega geta dvalið fram í miðjan janúar í því húsnæði sem þau hafa nú, eiga ekki að skrá sig hér.

Ef þig vantar nánari upplýsingar um húsnæðismál er hægt að hafa samband í gegnum netfangið upplysingar@redcross.is.

---

Upplýsingavefur fyrir íbúa Grindavíkur:

https://island.is/v/fyrir-grindavik  

Upplýsingasíða á vef Rauða krossins fyrir íbúa Grindavíkur:

https://www.raudikrossinn.is/verkefni/innanlandsverkefni/heilbrigdi-og-velferd/hjalparsiminn-1717-og-netspjallid/ryming/