Innanlandsstarf
Vertu klár á táknmáli
09. maí 2025
Auglýsingar í hinni vinsælu vitundarvakningu Rauða krossins 3dagar.is, þar sem fólk er hvatt til að undirbúa sig fyrir neyðarástand, eru nú líka á táknmáli.

Hvernig segir þú ertu klár á táknmáli? En viðlagakassi? Hvað með setninguna: Það er eitthvað að klósettinu?
Allar auglýsingar í átaksverkefni Rauða krossins, 3dagar.is, þar sem landsmenn eru hvattir til að undirbúa sig fyrir hvers kyns neyðarástand, er nú líka hægt að nálgast á táknmáli á Youtube-rás félagsins. Túlkar á vegum Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra fara á kostum við að koma samskiptum unga parsins, Danna og Anítu, sem best til skila. Allar auglýsingarnar eru einnig með texta.
Danni og Aníta hafa aldrei upplifað annað eins. Að rafmagnið fari. Að það sé orðið vatnslaust. Að farsíminn virki ekki og kreditkortin ekki heldur. Þá eru góð ráð dýr. Nema að þú sért vel undirbúin/n. Og það er einmitt markmið vitundarvakningar Rauða krossins.
Átakið 3dagar.is hefur sannarlega náð augum og eyrum fólks. Það miðar að því að hvetja landsmenn til að huga að undirbúningi ef neyðarástand skyldi skapast. Neyðarástand getur skapast af ýmsum ástæðum og oft með stuttum eða engum fyrirvara. „Við slíkar aðstæður er mikilvægt að hvert og eitt okkar geti bjargað sér í einhverja daga án utanaðkomandi hjálpar,“ sagði Aðalheiður Jónsdóttir, teymisstjóri neyðarvarna hjá Rauða krossinum, er átakinu var ýtt úr vör í apríl.
Markmiðið er að landsmenn búi sig undir að vera án rafmagns og vatns í að minnsta kosti þrjá daga og verði sömuleiðis viðbúnir því að vera án net- og símasambands. Slíkt getur hent tímabundið líkt og nýleg dæmi frá Spáni og Portúgal sýna.
„Að geta bjargað okkur í einhverja daga auðveldar ekki aðeins okkur sjálfum að takast á við erfiða stöðu heldur léttir álagið á viðbragðsaðilum sem geta þá sinnt þeim sem eru verr staddir,“ sagði Aðalheiður. „Góður undirbúningur skapar seiglu á hættustundu og getur jafnvel bjargað mannslífum.“
Kynntu þér málið betur á 3.dagar.is
Youtube-rás Rauða krossins þar sem allar auglýsingarnar er að finna.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Listsköpun, leikur og lærdómur
Innanlandsstarf 15. júlí 2025„Þetta voru góðar og gefandi samverustundir og mætingin var mjög góð,“ segir Yana Miz, verkefnisstjóri Wellbeing4U hjá Rauða krossinum, um uppskeruhátíð verkefnisins þar sem tugir flóttafólks frá Úkraínu á öllum aldri komu saman.

Stöðvum helvíti á jörðu
Alþjóðastarf 09. júlí 2025„Hörmungarnar á Gaza eru skuggi yfir mannkyni,“ skrifa framkvæmdastjórar sex íslenskra mannúðarfélaga. „Líf íbúa Gaza eru jafn mikils virði og líf annarra íbúa þessa heims, það ætti ekki að þurfa að taka fram, en engu að síður horfir heimurinn dofinn upp á íbúa Gaza svipta allri mannlegri reisn.“

Mikilvægt að fá að vera til staðar fyrir fólk í afplánun
Innanlandsstarf 08. júlí 2025Pétur Kristófersson, sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum, heimsækir fanga og spjallar við þá um það sem á þeim brennur. Tilgangurinn er að aðstoða þá við undirbúning fyrir lífið eftir afplánun.