Fánaberar
Fánaberar eru nýtt og spennandi fjáröflunarverkefni Rauða krossins á Íslandi. Á hverju ári hyggst félagið ganga til samstarfs við sérvalda einstaklinga úr menningar- og viðskiptalífinu sem hafa það hlutverk að safna fé til mannúðarverkefna Rauða krossins. Hver hópur mun starfa í eitt ár í senn að því að upphugsa, útfæra og framkvæma spennandi og jafnvel óhefðbundin verkefni til fjáröflunar.
Fánaberarnir vinna sjálfstætt að þeim markmiðum sem þeir setja sér við fjáröflunina en njóta stuðnings hver frá öðrum og starfsfólks Rauða krossins.
Árið 2026 verður fyrsta starfsár Fánabera á Íslandi.
Verkefnið er að fyrirmynd danska Rauða krossins en hefur verið þróað og aðlagað að starfi Rauða krossins á Íslandi.
Fánaberar Rauða krossins 2026
Rauði krossinn hefur valið níu framtakssama og hugmyndaríka einstaklinga úr íslensku viðskipta- og menningarlífi til að skipa fyrsta hóp Fánabera.
Árið 2026 eru þetta Fánaberar Rauða krossins:
Andri Jónsson - Stofnandi og eigandi Barnaloppunnar
Anna Regína Björnsdóttir - Forstjóri Coca-Cola Europacific Partners á Íslandi (CCEP)
Ellen Kristjánsdóttir - Tónlistarkona.
Guðríður Gunnlaugsdóttir - Stofnandi og eigandi Barnaloppunnar
Ísleifur Þórhallsson - Framkvæmdastjóri Sena Live og Iceland Airwaves
Páll Eyjólfsson - Framkvæmdastjóri Bæjarbíós í Hafnarfirði
Safa Jemai - Stofnandi og framkvæmdastjóri Víkonnekt og Mabrúka
Tanja Ýr Ástþórsdóttir - Frumkvöðull og áhrifavaldur
Vilhelm Þór Da Silva Neto - Leikari og grínisti
Hvatning frá forseta Íslands
Hvatningarorð til Fánabera frá Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, sem er verndari Rauða krossins á Íslandi:
Það er mikilvægt að fólk úr viðskipta- og menningarlífi, þar sem nýsköpun og frumkvöðlahugsun hefur löngum verið áberandi, styðji við starf mannúðarsamtaka. Ábyrgð okkar allra í að byggja upp samfélag sem öll geta tilheyrt, notið skjóls í og fundið frjóan jarðveg til að blómstra. Öll verkefni Rauða krossins miða að því að bæta líf og líðan fólks. Það ætti auðvitað að vera markmið okkar allra. Alltaf.
Það sem einkennir fólk í viðskipta- og menningarlífi hér á landi er meðal annars: Frumkvæði, drifkraftur, sköpunargleði, þróttur og framsýni. Þið búið öll yfir þessum eiginleikum og með því að vera Fánaberar Rauða krossins getið þið nýtt þessa ofurkrafta ykkar í þágu mannúðar. Hlutverk ykkar sem Fánabera er ekki aðeins að safna fé til góðra verka heldur einnig að breiða út mannúðina á tímum þar sem hún virðist oft vera á undanhaldi.
Rauði krossinn á Íslandi hefur í meira en hundrað ár veitt fólki sem á þarf að halda aðstoð og stuðning, oft á erfiðustu stundum lífs þess. Starf Fánaberanna mun því hvíla á þeirri löngu og merku sögu en þau munu á sama tíma skrifa nýjan kafla í henni.