Almennar fréttir
100 ára afmælishátíð Rauða krossins í Hörpu
20. desember 2024
Rauði krossinn á Íslandi náði þeim áfanga á dögunum að ná 100 ára aldri. Tímamótunum hefur verið fagnað með ýmsum hætti, svo sem greinaskrifum, viðtölum, útgáfu viðamikils rits um sögu félagsins og nú síðast hátíðarfundar í Hörpu þann 10. desember síðastliðinn.

Um 400 gestir sóttu fundinn, sem haldinn var í salnum Norðurljósum. Frú Halla Tómasdóttir forseti Íslands og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra ávörpuðu fundinn. Bæði þökkuðu þau félaginu fyrir margvíslegt framlag til heilbrigðis- og velferðarþjónustu landsins og almannavarna.
Birgitte Bischoff Ebbesen, yfirmaður Evrópuskrifstofu Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans hélt tölu um framlag Rauða krossins á Íslandi til alþjóðastarfs hreyfingarinnar. Þar tiltók hún sérstaklega sendifulltrúa og fjárstuðning félagsins við björgunarskip sem Rauði krossinn heldur úti á Miðjarðarhafi fyrir flóttafólk. Þrátt fyrir smæð hefur Rauði krossinn á Íslandi verið í forystu við að tryggja fjárhagslegan grunn og starfsfólk fyrir þessa þjónustu, með mikilvægum stuðningi utanríkisráðuneytisins.
Silja Bára R. Ómarsdóttir formaður Rauða krossins á Íslandi hélt sömuleiðis ávarp. Í erindi sínu vék hún að ýmsum nýjum áskorunum sem blasa við með aukinni hörku í heimspólitíkinni. Rauði krossinn þarf að vera meðvitaður um breytta stöðu og að félagið hefur hlutverki og skyldum að gegna.
Þá voru haldin nokkur stutt erindi um grundvallarhugsjónir Rauða krossins og hvernig þær fléttast inn í allt starf félagsins á Íslandi og um heim allan.
Hljómsveitin Ylja, skemmtikrafturinn Ari Eldjárn, Skólakór Kársness og félagar í Tónlistarvinum Rauða krossins veittu fundinum hátíðlegt, fallegt og skemmtilegt yfirbragð.
Öllum gestum og því fólki sem lagði hönd á plóg er þakkað fyrir daginn, sem var félaginu til mikils sóma.










Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
„Maður gefur af sér en fær svo mikið til baka“
Innanlandsstarf 05. ágúst 2025Notendur Frú Ragnheiðar tóku Írisi Ósk Ólafsdóttur strax vel er hún hóf þar sjálfboðaliðastörf. „Þrátt fyrir að starfið geti tekið á andlega þá er það líka það sem gerir þetta svo verðmætt því þetta snýst um að vera manneskja fyrir aðra manneskju á stundum sem skipta máli,“ segir Íris.

Breytt fyrirkomulag á stuðningi við Grindvíkinga
Innanlandsstarf 01. ágúst 2025Í haust verða gerðar breytingar á stuðningi Rauða krossins við Grindvíkinga sem þurftu að rýma heimili sín vegna jarðhræringanna 10. nóvember 2023. Hætt verður að taka við umsóknum í styrkarsjóðinn Þrótt Grindvíkinga en áfram stutt við einstaklinga með fræðslu og námskeiðum.

Gátu flutt hjálpargögn til Sweida
Alþjóðastarf 30. júlí 2025Alþjóðaráð Rauða krossins fór ásamt sýrlenska Rauða hálfmánanum í sendiferð til Sweida í suðurhluta Sýrlands með nauðsynleg hjálpargögn og til að meta þarfir íbúanna á svæðinu fyrir frekari aðstoð. Fjölmargt fólk frá Sweida og nágrenni býr á Íslandi.