Almennar fréttir
Dómsmálaráðherra í heimsókn í farsóttarhúsi
23. október 2020
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og æðsti yfirmaður almannavarna heimsótti farsóttarhúsið við Rauðarárstíg í vikunni.
Á miðvikudagsmorgun heimsótti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra og æðsti yfirmaður almannavarna, farsóttarhúsið við Rauðarárstíg í Reykjavík. Rauði krossinn hefur haft umsjón með húsinu frá því það var opnað í vor og er það mannað bæði starfsfólki og sjálfboðaliðum Rauða krossins, auk samstarfsaðila okkar. Um tíma voru einnig starfrækt farsóttarhús á Akureyri og Egilsstöðum en þeim hefur nú verið lokað.
Kristín S. Hjálmtýsdóttir framkvæmdastjóri Rauða krossins og Gylfi Þór Þorsteinsson umsjónarmaður farsóttarhúsanna gengu með ráðherra um húsið, kynntu henni starfsemina og ræddu um mikilvægi fræðslu til sjálfboðaliða og starfsmanna svo sóttvörnum væri vel sinnt þannig að hægt væri að halda húsinu opnu fyrir gesti þess.
„Hvorki sjálfboðaliðar né starfsfólk hafa þurft aðfara í sóttkví vegna starfa sinna í farsóttarhúsum og enginn hefur smitast, sem er afar ánægjulegt“ segir Gylfi „Við leggjum okkur fram um að veita fólki sem kemur hingað í einangrun góða þjónustu og hlúa vel að þeim, ekki síst andlega en einangrunarvist í litlu rými í langan tíma getur reynst mörgum mjög erfið“ bætir hann við.
Í farsóttarhúsum hafa dvalið samtals 680 einstaklingar, þar af 290 smitaðir af Covid-19. Dvölin hefur varað frá örfáum dögum upp í sex vikur. Náið samstarf er við starfsfólk Landspítala, Læknavaktarinnar, lögreglunnar, slökkviliðsins, almannavarna og Reykjavíkurborgar til að tryggja faglega og viðeigandi þjónustu við fólk. Sérstök áhersla hefur verið lögð á að koma til móts við þarfir fólks sem notar vímuefni, að tekið sé tillit til mismunandi menningar, þ.m.t. matarræðis, og að börnum sé tryggt barnvænt og öruggt umhverfi.
„Það er okkur mikið gleðiefni að fá ráðherra í heimsókn til okkar og teljum að störfum okkar sé sýnd mikil virðing með því“ segir Kristín sem bætir við að starfsemi farsóttarhúsanna sé aðeins einn þáttur í aðkomu og hlutverki Rauða krossins að almannavörnum.
„Það var gott að fá að koma í heimsókn í farsóttarhúsið og sjá það mikilvæga starf sem þar hefur verið unnið síðustu mánuði. Rauði krossinn er mikilvægur hlekkur í almannavörnum hérlendis og ekki síst í heimsfaraldri sem þessum. Starfsfólk Rauða krossins sem og sjálfboðaliðar eiga mikið hrós skilið“ sagði Áslaug Arna að heimsókn lokinni.
Við þökkum ráðherra kærlega fyrir komuna.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Rafrænt HAM-námskeið fyrir Grindvíkinga
Innanlandsstarf 08. október 2025Rauði krossinn heldur áfram að bæta í verkfærakistu Grindvíkinga. Fjarnámskeið í hugrænni atferlismeðferð á vegum Framvegis – símenntunarstöðvar er nú í boði.

36 milljónir króna til mannúðarstarfs í Úkraínu
Alþjóðastarf 03. október 2025Frá því átökin í Úkraínu hófust hefur Alþjóðasamband Rauða krossins, í samstarfi við úkraínska Rauða krossinn, veitt meira en 17 milljónum einstaklinga mannúðaraðstoð. Á sama tíma hefur Rauði krossinn á Íslandi, með dyggum stuðningi utanríkisráðuneytisins, veitt rúmlega 265,8 milljónum króna til mannúðarstarfs í landinu.

Rauði krossinn neyðist til að yfirgefa Gazaborg
Alþjóðastarf 01. október 2025Fánar við skrifstofur Alþjóðaráðs Rauða krossins í Gazaborg hafa verið dregnir niður og allt starfsfólkið flutt sig til suðurhluta Gaza. Harðandi hernaðaraðgerðir leiddu til þess að þessi erfiða ákvörðun var tekin.