Almennar fréttir
Mikilvægt framlag tombólubarna
05. desember 2019
Tombólubörn söfnuðu rúmum 400.000 krónum á árinu sem fer til stuðnings börnum í Sómalíu.
Eitt allra gleðilegasta við starf Rauða krossins er að taka á móti tombólubörnum, sem fylla okkur stolti á hverju einasta ári. Tombólubörnin láta til sín taka um allt land, í öllum landshlutum. Í ár söfnuðu 146 tombólubörn rúmum 400.000 krónum!
Framlag tombólubarna er jafnan notað til að leggja börnum annars staðar í heiminum lið.
Í ár mun söfnunarféð renna til heilsugæslu á hjólum í Sómalíu, en það er í raun bíll með hjúkrunafræðingum og ljósmæðrum sem ferðast um dreifbýl svæði og veitir heilbrigðisþjónustu sem bjargar lífum. Þannig geta börn og barnshafandi konur fengið heilbrigðisþjónustu sem þær annars fengju ekki, líkt og bólusetningar og eftirlit. Heilsugæslan er líka opin öðrum íbúum sem þurfa á heilbrigðisaðstoð að halda.
Um 25.000 börn, konur og menn nýta sér þjónustu heilsugæslunnar á hjólum sem Rauði krossinn á Íslandi styður og það má áætla að framlag tombólubarna muni greiða fyrir þjónustu um 1.000 þeirra, hvert tombólubarn veitir þannig að meðaltali sex börnum mikilvæga heilbrigðisþjónustu. Við hjá Rauða krossinum erum ótrúlega montin og þakklát fyrir stuðning tombólubarna og tombólubörn mega vera mjög stolt af sínu mikilvæga og lífsbjargandi framlagi. Sómalía er eitt af fátækustu ríkjum jarðar eftir langvarandi stríð og tíðar náttúruhamfarir eins og þurrka og flóð. Mörg börn í Sómalíu fá ekki alltaf reglulega að borða eða hreint vatn að drekka og sjúkdómar eru algengir. Þess vegna er mjög mikilvægt að þau fái bæði bólusetningar og eftirlit á heilsugæslu þar sem hægt er að veita þeim nauðsynlegan stuðning.
Með innilegu þakklæti fyrir starf tombólubarna í þágu mannúðar,
Kristín S. Hjálmtýsdóttir,
framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Bestu vinir seldu límonaði og heimabakað fyrir Rauða krossinn
Almennar fréttir 17. september 2025„Við viljum hjálpa öðrum,“ sögðu vinirnir Andrea, Íris og Rúrik úr Hafnarfirði sem söfnuðu tæplega 15 þúsund krónum fyrir Rauða krossinn.

Bak við tjöldin í neyðarsjúkrahúsinu á Gaza
Alþjóðastarf 15. september 2025Forgangsraða þarf mat á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins í Rafah. Fyrst fá sjúklingarnir og aðstandendur þeirra að borða. Svo starfsfólkið. Mitt í neyðinni upplifir fólk fágæt en dýrmæt gleðileg augnablik. Eins og að sjá stúlku sem missti fótinn ganga á ný.

Máluðu myndir og seldu vegfarendum
Almennar fréttir 12. september 2025Frænkurnar Theodóra Guðrún Kaaber og Þórunn Björk Kaaber afhentu Rauða krossinum nýverið fé sem þær höfðu safnað fyrir fólk á Gaza og önnur verkefni félagsins.