Almennar fréttir
Rauði krossinn á Íslandi hefur hafið neyðarsöfnun fyrir Sýrland\r\n\r\n
16. október 2019
Rauði krossinn heldur starfsemi sinni í norðaustur Sýrlandi áfram
Rauði krossinn heldur starfsemi sinni í norðaustur Sýrlandi áfram þrátt fyrir harðnandi átök.
- Rauði krossinn á Íslandi hefur hafið neyðarsöfnun fyrir Sýrland
Eftir rúm átta ár af átökum hefur Sýrland enn einu sinni komist í heimsfréttirnar vegna harðnandi átaka. Þau sem líða mest fyrir átökin eru almennir borgarar. Talið er að um 11.7 milljónir einstaklinga þurfi á mannúðaraðstoð að halda. Einn af hverjum tveimur hefur þurft að yfirgefa heimili sitt og annaðhvort flúið innan Sýrlands eða til annarra landa í leit að öryggi. Innviðir landsins eru viðkvæmir eða ekki til staðar eftir svo mörg ár af átökum.
Í borginni Hasskeh í norðaustur Sýrlandi verður vatni og hjálpargögnum áfram dreift og vettvangssjúkrahús Rauða krossins við Al Hol flóttamannabúðirnar heldur starfsemi sinni áfram, þrátt fyrir harðnandi átök undanfarna sólarhringa. Alls hafa fimm sendifulltrúar Rauða krossins á Íslandi starfað á vettvangssjúkrahúsinu síðastliðna mánuði og sinnt heilbrigðisaðstoð við flóttafólk, komið að rekstri þess, uppsetningu og skipulagi. Í Al Hol búðunum hafast tæplega 70.000 manns við, tveir þriðju af þeim eru börn.
Vatnsskortur er mikið áhyggjuefni, sérstaklega í fyrrnefndri Hassakeh borg, þangað sem flóttafólk frá borgum og bæjum nálægt landamærunum að Tyrklandi streymir. Rauði krossinn kappkostar að tryggja öllum aðgang að hreinu vatni, en megin vatnsveita fyrir svæðið eyðilagðist í átökunum. Talið er að um 300.000 manns sem búa í nágrenni Hassakeh og Raqqa hafi lagt á flótta eða muni gera það á næstu dögum vegna átakanna. Þessi fjöldi samsvarar því að nærri öll íslenska þjóðin væri á flótta.
Umfangsmikið hjálparstarf
Sýrlenski Rauði hálfmáninn sinnir umfangsmiklu hjálparstarfi í Sýrlandi og stýrir lykilhlutverki í samhæfingu alþjóðlegs hjálparstarfs í landinu og kemur stórum hluta hjálpargagna frá Sameinuðu þjóðanna í hendur þolenda átaka. Starfsfólk og sjálfboðaliðar sýrlenska Rauða hálfmánans eru 9400 talsins og dreifast milli 59 deilda um allt Sýrland. Við hlið sýrlenska Rauða hálfmánans starfar Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) sem hefur sinnt hjálparstarfi í landinu síðan 1967.
Rauði krossinn hefur aðgengi að svæðum sem engir aðrir hafa aðgang að í krafti hlutleysis síns og óhlutdrægni auk þess hlutverks sem Alþjóðaráðinu er falið samkvæmt Genfarsamningunum. Á þeim svæðum er m.a. nauðsynlegum hjálpargögnum komið til fólks og heilbrigðisþjónustu sinnt eftir fremsta megni. Mikil áhersla er lögð á að ræða við stríðandi fylkingar og kynna þeim Genfarsamningana sem eiga að vernda alla þá sem ekki taka þátt í átökunum. Með aukinni fræðslu má koma í veg fyrir að saklausir borgarar verði að flýja heimili sín og jafnvel heimaland.
Til þess að styðja við lífsbjargandi starf Rauða krossins í Sýrlandi er hægt að senda sms-ið HJALP í 1900 og 2900 krónur verða dregnar af símreikningi.
Einnig er hægt að leggja inn á reikning 0342 – 26 – 12, kt. 530269-2649 eða nota Kass.
- Fyrir 2900 kr. er hægt að útvega þremur börnum mat í mánuð.
- Fyrir 5000 kr. er hægt að útvega fimm börnum mat í mánuð og einu barni lífsnauðsynlega heilbrigðisþjónustu og lyf.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
„Við viljum hjálpa börnum og bara öllum“
Almennar fréttir 29. október 2025Þrír níu ára gamlir vinir úr Kársnesinu í Kópavogi gengu í hús og báðu um hluti til að selja á tombólu. Þannig söfnuðu þeir 8.571 krónu fyrir Rauða krossinn.
Hvetja vinnustaði til að bjóða upp á skyndihjálparnámskeið
Innanlandsstarf 27. október 2025„Skyndihjálparnámskeið ættu auðvitað að vera hluti af öryggismenningu allra vinnustaða að okkar mati,“ segir Hildur Vattnes Kristjánsdóttir, teymisstjóri skyndihjálpar hjá Rauða krossinum. Á skyndihjálparnámskeiðum öðlast fólk þjálfun og færni í að bregðast hratt, rétt og örugglega við í óvæntum og erfiðum aðstæðum.
Fólkið á Gaza þolir enga bið eftir aðstoð
Alþjóðastarf 21. október 2025Um 150 flutningabílar komast nú flesta daga inn á Gaza með mannúðaraðstoð. Þeir þyrftu að vera margfalt fleiri. Vopnahléð hefur ekki fært fólkinu fullkominn frið, segir framkvæmdastjóri Rauða krossins, en opnað mikilvægan glugga til að ná til þess og hann verður að nýta.