Almennar fréttir
Rauði krossinn hættir rekstri Konukots
30. september 2020
Á morgun eru tímamót þegar Rauði krossinn hættir rekstri Konukots eftir 16 ára starfsemi og Rótin, félag um konur, áföll og vímuefni tekur við.
Á morgun eru tímamót þegar Rauði krossinn hættir rekstri Konukots eftir 16 ára starfsemi og Rótin, félag um konur, áföll og vímuefni tekur við.
„Konukot, neyðarskýli fyrir heimilislausar konur, var opnað 10. desember 2004, sem tilraunaverkefni Rauða krossins í Reykjavík til tveggja ára. Rannsóknir og þarfagreiningar höfðu leitt í ljós að fjöldi kvenna var heimilislaus í Reykjavík en þjónusta við þann hóp var takmörkuð. Hugmyndin var sú að á þeim tveimur árum sem neyðarskýlið væri starfrækt væri hægt að útvega konunum félagslegt húsnæði og því væri ekki þörf fyrir neyðarskýli til lengri tíma“ segir Marín Þórsdóttir, deildarstjóri Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu.
„Nú 16 árum síðar er hlutverki Rauða krossins lokið, enda er það markmið Rauða kross hreyfingarinnar um allan heim að hefja verkefni þar sem við sjáum þörf á þeim og sinna þeim þangað til aðrir geta eða vilja taka við þeim. Nú er komið félag sem einblínir á þennan málaflokk, það er að segja Rótin, félag um konur, áföll og vímuefni – sem er tilbúið að taka við og þá er rétti tíminn fyrir okkur að stíga til hliðar“ bætir Marín við.
Rauði krossinn mun áfram starfrækja skaðaminnkandi verkefni og hefur ekki sagt skilið við þennan mikilvæga málaflokk. Frú Ragnheiður heldur áfram að keyra um höfuðborgarsvæðið sex kvöld í viku og sinna gestum Konukots sem og öðrum sem þurfa á þeirri þjónustu að halda. Þá eru einnig starfrækt sambærileg verkefni á Suðurnesjum og á Akureyri.
„Rauði krossinn treystir því að mannúð og skaðaminnkun verði áfram leiðarljós í starfi Konukots og að hagur skjólstæðinga verði ávallt í forgrunni. Við erum þakklát fyrir að gestir Konukots hafi treyst okkur í gegnum tíðina og eins erum við þakklát fyrir alla þá fjölmörgu sjálfboðaliða sem og frábært starfsfólk sem lagt hafa verkefninu lið síðastliðin ár.“
Í gegnum árin hafa fyrirtæki og einstaklingar styrkt starf Konukots með ýmsum hætti. Þær gjafir hafa verið nýttar til að fjárfesta og búa betur að starfsemi Konukots.
Marín Þórsdóttir afhendir hér Kristínu Pálsdóttur lyklavöldin að Konukoti ásamt öllum húsbúnaði sem fylgja mun Konukoti, starfseminni til heilla.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Listsköpun, leikur og lærdómur
Innanlandsstarf 15. júlí 2025„Þetta voru góðar og gefandi samverustundir og mætingin var mjög góð,“ segir Yana Miz, verkefnisstjóri Wellbeing4U hjá Rauða krossinum, um uppskeruhátíð verkefnisins þar sem tugir flóttafólks frá Úkraínu á öllum aldri komu saman.

Stöðvum helvíti á jörðu
Alþjóðastarf 09. júlí 2025„Hörmungarnar á Gaza eru skuggi yfir mannkyni,“ skrifa framkvæmdastjórar sex íslenskra mannúðarfélaga. „Líf íbúa Gaza eru jafn mikils virði og líf annarra íbúa þessa heims, það ætti ekki að þurfa að taka fram, en engu að síður horfir heimurinn dofinn upp á íbúa Gaza svipta allri mannlegri reisn.“

Mikilvægt að fá að vera til staðar fyrir fólk í afplánun
Innanlandsstarf 08. júlí 2025Pétur Kristófersson, sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum, heimsækir fanga og spjallar við þá um það sem á þeim brennur. Tilgangurinn er að aðstoða þá við undirbúning fyrir lífið eftir afplánun.