Almennar fréttir
Stofnuðu fyrirtæki til að hjálpa heimilislausum og styrktu Rauða krossinn
10. október 2024
Þrír nemendur í Menntaskólanum á Ísafirði stofnuðu nýlega fyrirtæki til að styrkja heimilislaust fólk á Íslandi og gáfu Rauða krossinum veglegan styrk.

Agnes Eva Hjartardóttir, Abdulrahman Al Bdiwi og Rögnvaldur Már Magnússon stóðu fyrir verkefninu, en þessir duglegu og réttsýnu unglingar söfnuðu 140 þúsund krónum sem þau gáfu Rauða krossinum á Íslandi. Rauði krossinn á Íslandi þakkar þeim kærlega fyrir dugnaðinn og þetta öfluga framlag í þágu mannúðar á Íslandi.
Vilja gefa heimilislausum von
„Við vorum að taka þátt í frumkvöðlakeppni sem fer fram á hverju vori og kallast Ungir frumkvöðlar. Nemendurnir í skólanum skiptu sér í hópa og okkar hópur ákvað að búa til handverk til að hjálpa heimilislausu fólki á Íslandi,“ segir Agnes. „Við vorum innblásin af vinaarmböndum og fengum styrk í formi efniviðar frá Klæðakoti á Ísafirði, sem við erum endalaust þakklát fyrir.
Við ákváðum að kalla fyrirtækið okkar Áróra, en nafnið þýðir morgunroði og við tengdum það við sólarupprás,“ útskýrir Agnes. „Ástæðan fyrir nafninu er að það kemur alltaf nýr dagur, og morgunroði gefur mörgum von, en markmiðið með fyrirtækinu er einmitt að gefa heimilislausu fólki von.“
Allir eiga að fá skjól og stuðning
„Stefna fyrirtækisins var í takt við fjögur af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, markmið 1; engin fátækt, markmið 2; Ekkert hungur, markmið 3; heilsa og vellíðan og markmið 11; sjálfbærar borgir og samfélög,“ bætir Agnes við.
„Lokamarkmið okkar, sem verður vonandi að veruleika á næstu árum, er að hafa skýli sem er opið allan sólarhringinn og veitir hverjum heimilislausum einstaklingi á Íslandi stuðning, þar á meðal mat, fatnað og nauðsynleg úrræði,“ segir Agnes. „Við viljum tryggja að engin manneskja sé eftir án skjóls eða stuðnings. Við teljum líka að skaðaminnkun og afglæpavæðing séu þættir í því að ná þessu markmiði.“
Þakklát fyrir stuðninginn
„Þann 13. mars fór fram vörumessa á Ísafirði og það gekk eins og í sögu. Við ákváðum því að spreyta okkur áfram og tókum þátt í vörumessu í Smáralind 12. apríl, sem var skemmtileg upplifun,“ segir Agnes. „Við viljum þakka öllum sem hjálpuðu okkur og trúðu á hugmyndina okkar og við viljum sérstaklega þakka Klæðakoti fyrir styrkinn. Án þeirra hefði hugmyndin ekki orðið að veruleika.
Við vonumst til að halda áfram með fyrirtækið eða annað svipað verkefni til að hjálpa heimilislausu fólki, bæði á Íslandi og annars staðar í heiminum,“ segir Agnes. „Ef fyrirtækið getur hjálpað heimilislausu fólki á Íslandi þá getur það líka lagt sitt af mörkum til að minnka heimilisleysi í heiminum öllum. Saman getum við skapað bjartari framtíð fyrir þá sem þurfa á því að halda!“
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Stjórnvöld fordæmi brot á mannúðarlögum hátt og skýrt
Alþjóðastarf 26. ágúst 2025„Það er mikilvægt að stjórnvöld alls staðar, líka í litlum, friðsælum ríkjum eins og Íslandi, leggi áherslu á virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum og fordæmi hátt og skýrt þegar þau eru brotin,“ sagði Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins, í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 um stöðu mannúðaraðstoðar í heiminum.

Ókeypis vefnámskeið í sálrænni fyrstu hjálp
Almennar fréttir 25. ágúst 2025Rauði krossinn býður nú upp á vefnámskeið um sálræna fyrstu hjálp á íslensku. Allir sem vilja vera til staðar fyrir aðra þegar á reynir geta nýtt sér námskeiðið.

Ylja neyslurými Rauða krossins er 1 árs
Innanlandsstarf 12. ágúst 2025Á fyrsta starfsári sínu hefur Ylja sýnt fram á þörf fyrir öruggt neyslurými, þar sem notendur upplifa virðingu, öryggi og væntumþykju í stað útskúfunar og hættu. Traust notenda til þjónustunnar hefur byggst hratt upp vegna góðra tengsla milli notenda, starfsfólks Ylju og samstarfsaðila og lagt grunn að árangursríkri þjónustu.