Almennar fréttir
Stofnuðu fyrirtæki til að hjálpa heimilislausum og styrktu Rauða krossinn
10. október 2024
Þrír nemendur í Menntaskólanum á Ísafirði stofnuðu nýlega fyrirtæki til að styrkja heimilislaust fólk á Íslandi og gáfu Rauða krossinum veglegan styrk.

Agnes Eva Hjartardóttir, Abdulrahman Al Bdiwi og Rögnvaldur Már Magnússon stóðu fyrir verkefninu, en þessir duglegu og réttsýnu unglingar söfnuðu 140 þúsund krónum sem þau gáfu Rauða krossinum á Íslandi. Rauði krossinn á Íslandi þakkar þeim kærlega fyrir dugnaðinn og þetta öfluga framlag í þágu mannúðar á Íslandi.
Vilja gefa heimilislausum von
„Við vorum að taka þátt í frumkvöðlakeppni sem fer fram á hverju vori og kallast Ungir frumkvöðlar. Nemendurnir í skólanum skiptu sér í hópa og okkar hópur ákvað að búa til handverk til að hjálpa heimilislausu fólki á Íslandi,“ segir Agnes. „Við vorum innblásin af vinaarmböndum og fengum styrk í formi efniviðar frá Klæðakoti á Ísafirði, sem við erum endalaust þakklát fyrir.
Við ákváðum að kalla fyrirtækið okkar Áróra, en nafnið þýðir morgunroði og við tengdum það við sólarupprás,“ útskýrir Agnes. „Ástæðan fyrir nafninu er að það kemur alltaf nýr dagur, og morgunroði gefur mörgum von, en markmiðið með fyrirtækinu er einmitt að gefa heimilislausu fólki von.“
Allir eiga að fá skjól og stuðning
„Stefna fyrirtækisins var í takt við fjögur af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, markmið 1; engin fátækt, markmið 2; Ekkert hungur, markmið 3; heilsa og vellíðan og markmið 11; sjálfbærar borgir og samfélög,“ bætir Agnes við.
„Lokamarkmið okkar, sem verður vonandi að veruleika á næstu árum, er að hafa skýli sem er opið allan sólarhringinn og veitir hverjum heimilislausum einstaklingi á Íslandi stuðning, þar á meðal mat, fatnað og nauðsynleg úrræði,“ segir Agnes. „Við viljum tryggja að engin manneskja sé eftir án skjóls eða stuðnings. Við teljum líka að skaðaminnkun og afglæpavæðing séu þættir í því að ná þessu markmiði.“
Þakklát fyrir stuðninginn
„Þann 13. mars fór fram vörumessa á Ísafirði og það gekk eins og í sögu. Við ákváðum því að spreyta okkur áfram og tókum þátt í vörumessu í Smáralind 12. apríl, sem var skemmtileg upplifun,“ segir Agnes. „Við viljum þakka öllum sem hjálpuðu okkur og trúðu á hugmyndina okkar og við viljum sérstaklega þakka Klæðakoti fyrir styrkinn. Án þeirra hefði hugmyndin ekki orðið að veruleika.
Við vonumst til að halda áfram með fyrirtækið eða annað svipað verkefni til að hjálpa heimilislausu fólki, bæði á Íslandi og annars staðar í heiminum,“ segir Agnes. „Ef fyrirtækið getur hjálpað heimilislausu fólki á Íslandi þá getur það líka lagt sitt af mörkum til að minnka heimilisleysi í heiminum öllum. Saman getum við skapað bjartari framtíð fyrir þá sem þurfa á því að halda!“
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Mánuður frá hamförunum: Enn mikil neyð
Alþjóðastarf 28. apríl 2025„Fólk heldur að um leið og fjölmiðlar hætti að fjalla um hlutina þá sé ekkert að gerast,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. Svo sé hins vegar alls ekki. „Það geta liðið mánuðir og jafnvel ár þar til fólk verður búið að ná sér eftir þetta áfall.“

Sjálfboðaliðastörf eru valdeflandi
Innanlandsstarf 07. apríl 2025Þær eru úrræðagóðar, framtakssamar og lífsglaðar. Sjálfboðaliðar ársins 2024 hjá höfuðborgardeild Rauða krossins kenna ensku, íslensku og heimsækja fólk og nálgast ólík verkefni sín af einstakri fagmennsku.

„Samfélagið sér framlag okkar og það er mikil hvatning“
Innanlandsstarf 03. apríl 2025Starfið í Eyjafjarðardeild Rauða krossins er á fleygiferð og mikið um að vera, segir Ingibjörg Halldórsdóttir deildarstjóri. Aldrei hafi fleiri sjálfboðaliðar starfað hjá deildinni og á síðasta ári.