Almennar fréttir
Yfirlýsing frá Rauða krossinum vegna umræðu um spilakassa
18. febrúar 2021
Rauði krossinn óskar nú, sem fyrr, eftir að spilakort verði tekin upp hér á landi.
Yfirlýsing frá Rauða krossinum vegna umræðu um spilakassa
Í tilefni af umfjöllun um spilakassa á Íslandi og þeirri umræðu sem uppi hefur verið um rekstur Íslandsspila, sem er í eigu Rauða krossins og Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, óskar Rauði krossinn á Íslandi eftir auknu samtali við stjórnvöld í von um að finna leiðir til að reka verkefni Rauða krossins á annan hátt og kallar eftir stefnu stjórnvalda um innleiðingu spilakorta.
Viðræður hafa staðið yfir við stjórnvöld í um áratug að kerfinu í kringum spilakassa verði breytt, eins og formaður Landsbjargar sagði í viðtali við RÚV fyrr í vikunni. Samtök áhugafólks um spilafíkn hafa bent á að taka eigi upp aðgangs- eða spilakort og ræddi formaður samtakanna það í Kastljósviðtali fyrr í mánuðinum og tekur Rauði krossinn heilshugar undir þá nálgun.
Árum saman hefur Rauði krossinn óskað eftir því að markviss skref verði tekin í aðstoð við hóp fólks í spilavanda með því að taka upp spilakort hér á landi að norrænni fyrirmynd. Hefur Rauði krossinn, ásamt öðrum eigendum Íslandsspila, átt fjölmarga fundi með stjórnvöldum til að ítreka þá ósk, síðast á árinu 2020.
Rauði krossinn á Íslandi vill því beina þeim tilmælum til stjórnvalda að brugðist verði við ítrekaðri beiðni um að spilakort verði tekin upp hér á landi eins fljótt og auðið er.
„Upphaf þessarar fjáröflunar var á áttunda áratug síðustu aldar með svokölluðum „tíkallaspilum“ sem á þeim tíma fjármögnuðu aðstoð við þá sem lentu í gosinu í Vestmannaeyjum. Ef verið væri að ráðast í fjáröflun í dag þá yrði önnur leið valin. Við þurfum hinsvegar samtal um hvernig hægt sé að fjármagna verkefnin okkar áfram. Við sinnum mikilvægum lífsbjargandi verkefnum hér á landi en rekstur okkar reiðir sig algjörlega á framlög fólks og fyrirtækja, auk samninga við stjórnvöld. Það hafa verið í gildi lög um söfnunarkassa síðan 1994, en nú er unnið að því að breyta lagalegum þáttum vegna brotthvarfs SÁÁ. Lagasetning er á hendi stjórnvalda og nú er mikilvægt að skoða lögin í heild sinni og innleiða spilakort eins og gert hefur verið í löndunum í kringum okkur“ segir Sveinn Kristinsson, formaður Rauða krossins á Íslandi.
Framlög frá Íslandsspilum hafa fjármagnað stóran hluta af því mikilvæga mannúðar- og neyðarstarfi sem Rauði krossinn sinnir. Framlögin hafa gert okkur kleift að bregðast við neyð vegna hamfara og áfalla á Íslandi, styðja við alþjóðlegt hjálparstarf og veita öflugan stuðning um land allt við fjölmarga hópa sem standa höllum fæti. Á árinu 2020 jókst verkefnastaða Rauða krossins til muna, með viðbrögðum við heimsfaraldrinum, uppsetningu farsóttarhúsa, auka þurfti til muna sjálfboðaliðun Hjálparsímans, sem og vegna snjóflóða, óveðurs og aurskriða t.d. á Seyðisfirði.
„Rauði krossinn hefur markvisst unnið að því að byggja upp nýja tekjustofna á síðustu árum. Það er markviss vinna í gangi við fjáröflun hjá félaginu en til að geta mætt og tekist á við tekjutap þá þarf félagið að endurskipuleggja alla starfsemi sína. Rauði krossinn er óhræddur við að takast á við slíkar breytingar en mikilvægt er að allir hagsmunaaðilar taki þátt í því samtali sem slík breyting hefði í för með sér fyrir almenning sem stólar á verkefni okkar um allt land“ segir Kristín S. Hjálmtýsdóttir framkvæmdastjóri.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Góð tilfinning að geta aðstoðað fólk í erfiðum aðstæðum
Innanlandsstarf 23. júlí 2025„Í þau skipti sem ég hef smeygt mér í Rauða kross peysuna og farið af stað í útköll þá finn ég mjög sterkt hvað það gefur mér mikið,“ segir Svanhvít Sjöfn Skjaldardóttir, sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum. Hún er sjálfboðaliði í fjöldahjálp og í viðbragðshópi.

Listsköpun, leikur og lærdómur
Innanlandsstarf 15. júlí 2025„Þetta voru góðar og gefandi samverustundir og mætingin var mjög góð,“ segir Yana Miz, verkefnisstjóri Wellbeing4U hjá Rauða krossinum, um uppskeruhátíð verkefnisins þar sem tugir flóttafólks frá Úkraínu á öllum aldri komu saman.

Stöðvum helvíti á jörðu
Alþjóðastarf 09. júlí 2025„Hörmungarnar á Gaza eru skuggi yfir mannkyni,“ skrifa framkvæmdastjórar sex íslenskra mannúðarfélaga. „Líf íbúa Gaza eru jafn mikils virði og líf annarra íbúa þessa heims, það ætti ekki að þurfa að taka fram, en engu að síður horfir heimurinn dofinn upp á íbúa Gaza svipta allri mannlegri reisn.“