Alþjóðastarf
Fólk á Gaza sárbiður um hjálp
19. maí 2025
Í ellefu vikur hafa engin hjálpargögn komist inn á Gaza. Íbúarnir búa við harðnandi árásir og skort á lífsnauðsynjum. „Mannúðaraðstoð má aldrei nota í pólitískum eða hernaðarlegum tilgangi,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi.

Í ellefu vikur hafa engin hjálpargögn komist inn á Gaza. Íbúarnir búa við harðnandi árásir og skort á lífsnauðsynjum. „Mannúðaraðstoð má aldrei nota í pólitískum eða hernaðarlegum tilgangi,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi.
Undanfarna daga hafa hundruð almennra borgara verið drepin eða særð í harðnandi hernaðaraðgerðum á Gaza. Fjöldi er enn talinn grafinn undir rústum húsa. Undanfarna sólarhringa hafa hundruð manna haft samband við neyðarlínu Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC) og sárbeðið um hjálp. Fjölskyldur eru innlyksa og í örvæntingarfullri leit að öryggi og vernd. „Á Gaza er yfirþyrmandi þörf fyrir neyðaraðstoð sem er langt umfram það sem við getum sinnt,“ segir í yfirlýsingu Alþjóðaráðsins.
Sjúkrahús urðu fyrir árásum
Í síðustu viku urðu sjúkrastofnanir, þar á meðal Evrópski spítalinn og Indónesíska sjúkrahúsið, fyrir alvarlegum og endurteknum árásum. Þau voru meðal síðustu starfandi sjúkrahúsa á Gaza en eru nú bæði óstarfhæf.
„Í hvert sinn sem sjúkrastofnun neyðist til að hætta að veita þjónustu, eða að draga úr þjónustu, hefur það raunverulegar afleiðingar fyrir almenna borgara – fólk sem á engan þátt í átökunum – fólk sem er nú þegar í áfalli eða þjáist,“ segir Yasmine Praz Dessimoz, aðgerðastjóri ICRC. „Með hverjum búnaði sem laskast, hverjum vegg sem eyðileggst, hverri sendingu af birgðum sem skemmist, fjara möguleikar þúsunda á Gaza til bættra lífsskilyrða út.“
Samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum skal hlífa sjúkrastofnunum í átökum því þær gegna lífsnauðsynlegu hlutverki fyrir særða og sjúka. Það sama á við um heilbrigðis- og mannúðarstarfsfólk en tugir úr þeirra röðum hafa fallið á Gaza síðustu mánuði, þeirra á meðal bráðaliðar palestínska Rauða hálfmánans, systurfélags Rauða krossins á Íslandi.
Almennir borgarar njóta einnig verndar samkvæmt alþjóðalögum. „Almennir borgarar hafa ítrekað verið drepnir í árásum á Gaza og mannfallið mun aukast enn meira nú þegar mörg sjúkrahús og aðrar heilbrigðisstofnanir geta ekki bjargað lífi særðra og sjúkra,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi.

Án hjálpargagna í tæplega 80 daga
Hann minnir á að í ellefu vikur, tæplega 80 daga, hafi engri neyðaraðstoð verið hleypt inn á Gaza. „Allan þennan tíma hafa íbúarnir, þar á meðal um milljón börn, búið við skort á lífsnauðsynjum á borð við mat og lyf,“ segir Gísli. Hann tekur undir þá kröfu Alþjóðaráðs Rauða krossins að hjálpargögnum verði hleypt inn á Gaza strax og án allra hindrana. Birgðir af nauðsynjum hafa allan þennan tíma beðið í Jórdaníu og Egyptalandi. Hætta er á að matvæli og lyf fari að renna út.
Fréttir hafa borist af því að fimm vöruflutningabílar hafi í dag, mánudag, farið inn á Gaza með hjálpargögn en mannúðarsamtök og alþjóðastofnanir, sem hingað til hafa dreift gögnum, hafa ekki fengið aðkomu að því verkefni.
Forseti Alþjóðaráðsins hefur sagt að einkavæðing mannúðaraðstoðar sé ekki lausn. Áfram verður að tryggja að aðstoð berist beint og milliliðalaust til þeirra sem á henni þurfa að halda. „Mannúðaraðstoð má aldrei nota í pólitískum eða hernaðarlegum tilgangi,“ segir Gísli Rafn.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
„Við verðum að brýna raustina“
Almennar fréttir 13. maí 2025„Á tímum sem þessum getum við ekki staðið þögul hjá,“ segir Silja Bára R. Ómarsdóttir, formaður Rauða krossins á Íslandi. „Við verðum að brýna raustina og láta í okkur heyra, hvar sem færi gefst.“

Neyðarsjúkrahúsið: Líflína þúsunda í heilt ár
Alþjóðastarf 09. maí 2025Fjórir Íslendingar hafa starfað um tíma á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins í Rafah á Gaza frá opnun þess fyrir ári. Þörfin fyrir þetta bráðabirgðaúrræði er enn gríðarleg. Þar er alvarlega særðu og veiku fólki sinnt undir drunum frá sprengjuregni í nágrenninu.

Vertu klár á táknmáli
Innanlandsstarf 09. maí 2025Auglýsingar í hinni vinsælu vitundarvakningu Rauða krossins 3dagar.is, þar sem fólk er hvatt til að undirbúa sig fyrir neyðarástand, eru nú líka á táknmáli.