Alþjóðastarf
Mannúðaraðstoð að hruni komin á Gaza
02. maí 2025
Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) hefur lýst yfir að mannúðaraðstoð í Gaza sé á barmi algjörs hruns eftir tveggja mánaða stöðvun á flutningi birgða til Gaza. Þessi alvarlega staða hefur leitt til þess að íbúar svæðisins eru nú án lífsnauðsynlegrar mannúðaraðstoðar eins og matar, vatns og lyfja. Skortur á þessum nauðsynjum setur líf hundruða þúsunda íbúa í beina og bráða hættu.

Samkvæmt ICRC hefur lokunin haft skelfileg áhrif á íbúa Gaza. Ef mannúðaraðstoð berst ekki stendur ICRC frammi fyrir því að þurfa að loka, á næstu vikum, sameiginlegum eldhúsum sem veita eina máltíð á dag fyrir fjölmarga íbúa. Lækningabirgðir vantar, auk þess sem heilbrigðisstofnanir og starfsfólk hafa orðið fyrir endurteknum árásum. Bara í síðasta mánuði voru 15 heilbrigðiststarfsmenn, þar af átta frá palestínska Rauða hálfmánanum, drepnir á hrottalegan hátt. Eyðilegging á vatnslögnum og fráveitukerfum hefur leitt til óviðunandi hættu á vatnsbornum sjúkdómum. Ástandið er með öllu óviðunandi og mannúðaraðstoð á svæðinu er að hruni komin.
ICRC undirstrikar í yfirlýsingu sinni að tafarlaus og óhindraður aðgangur að mannúðaraðstoð á Gaza er lífsnauðsynlegur. Það er brýnt að gíslar verði leystir úr haldi og almennir borgarar njóti verndar. Samkvæmt alþjóðalögum ber Ísrael skylda til að tryggja að grunnþarfir almennra borgara séu uppfylltar á svæðum undir þeirra stjórn.

Pierre Krähenbühl, framkvæmdastjóri ICRC er harðorður um ástandið og segir: „Stríð í dag eru að verða að grafreit mannúðar, þar sem virðing fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum er grafin með þeim sem þau eiga að vernda. Við horfum upp á normaliseringu á hinu óásættanlega. Ef það sem við erum vitni að á Gaza, sem er holdgervingur helvítis, er hernaður framtíðar, eru grunngildi mannúðar í hættu."
Rauði krossinn á Íslandi tekur undir orð Pierre Krähenbühl og krefst tafarlausra aðgerða til að koma í veg fyrir frekara mannfall og hörmungar á Gaza. Við minnum á að mannúðaraðstoð er ekki val. Það er lagaleg og siðferðislg skylda allra aðila sem eiga hlut að vopnuðum átökum að standa vörð um greiðan aðgang mannúðaraðstoðar. Bráðra aðgerða er þörf strax til að vernda líf þeirra sem á þurfa að halda.
Frétt frá ICRC: Israel and the occupied territories: After two months of aid blockage, humanitarian response in Gaza on verge of total collapse
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Þörf á tafarlausum pólitískum aðgerðum
Alþjóðastarf 18. september 2025„Öll ríki verða að leggja sín þyngstu lóð á vogarskálarnar svo koma megi á vopnahléi strax,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi um ástandið á Gaza. „Við höfum ekki lengri tíma. Þetta er lokaviðvörun til stjórnvalda. Núna verður að bregðast við.“

Bestu vinir seldu límonaði og heimabakað fyrir Rauða krossinn
Almennar fréttir 17. september 2025„Við viljum hjálpa öðrum,“ sögðu vinirnir Andrea, Íris og Rúrik úr Hafnarfirði sem söfnuðu tæplega 15 þúsund krónum fyrir Rauða krossinn.

Bak við tjöldin í neyðarsjúkrahúsinu á Gaza
Alþjóðastarf 15. september 2025Forgangsraða þarf mat á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins í Rafah. Fyrst fá sjúklingarnir og aðstandendur þeirra að borða. Svo starfsfólkið. Mitt í neyðinni upplifir fólk fágæt en dýrmæt gleðileg augnablik. Eins og að sjá stúlku sem missti fótinn ganga á ný.