Alþjóðastarf
Mannúðarstarfsfólk orðið skotmörk
08. maí 2025
„Hver einasta árás á mannúðarstarfsmann er árás á samfélagið sem hann þjónaði,“ segja forsetar alþjóðasambands og alþjóðaráðs Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Forsetarnir segja að alþjóðasamfélagið geti ekki haldið áfram að líta fram hjá því er lög sem gilda í stríði eru hundsuð og mannúðarstarfsmenn markvisst orðnir skotmörk.

„Nú á alþjóðadegi Rauða krossins og Rauða hálfmánans syrgjum við samstarfsfélaga okkar sem voru drepnir með hrottafengnum hætti er þeir voru að reyna að bjarga mannslífum. Dauði þeirra krefst annars og meira en innantómra orða – hann krefst aðgerða.“
Á þessum orðum hefst sameiginleg yfirlýsing Kate Forbes, forseta alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC) og Mirjana Spoljaric Egger, forseta alþjóðaráðs félaganna (ICRC). Í ár liggur þykkt ský sorgar yfir alþjóðadeginum sem haldinn er 8. maí ár hvert enda að baki mánuðir mesta mannfalls mannúðarstarfsfólks sem um getur.
Forsetarnir segja að alþjóðasamfélagið geti ekki haldið áfram að líta fram hjá því er lög sem gilda í stríði eru hundsuð og mannúðarstarfsmenn markvisst orðnir skotmörk. „Hver einasta árás á mannúðarstarfsmann er árás á samfélagið sem hann þjónaði og svik við lögin sem ætlað er að vernda almenna borgara og lina þjáningar í átökum.“

Í kúluregni við störf sín
Hrottaleg morðin á starfsmönnum og sjálfboðaliðum palestínska Rauða hálfmánans nú í mars hafi að sögn forsetanna vakið hörð viðbrögð heimsbyggðarinnar. „En saga þeirra er ekki einangrað tilvik,“ benda þær á. Frá Gaza til Súdan, Úkraínu til Austur-Kongó, og víðar, lendi samstarfsfélagar ítrekað í skothríð við akstur sjúkrabíla, við að dreifa hjálpargögnum og við að sinna samfélögum sem lent hafa innan víglína og þarfnast aðstoðar.
„Það sem af er þessu ári höfum við þegar misst tíu kollega,“ skrifa forsetarnir. Það komi í kjölfar banvænasta árs mannúðarstarfsmanna sem sögur fari af. 38 starfsmenn og sjálfboðaliðar Rauða krossins og Rauða hálfmánans létust við störf sín árið 2024. „Ef þetta hræðilega mynstur heldur áfram gæti árið 2025 orðið enn verra.“
Forsetarnir enda yfirlýsingu sína á því að minna stjórnvöld á hlutverk sitt. „Ríki og aðilar að átökum bera beina ábyrgð á því að snúa þessari óhugnanlegu og hættulegu þróun við með því að vernda mannúðarstarfsfólk, virða alþjóðleg mannúðarlög og standa vörð um sameiginlega mannúð okkar. Nú er tíminn til að bregðast við.“

Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Gátu flutt hjálpargögn til Sweida
Alþjóðastarf 30. júlí 2025Alþjóðaráð Rauða krossins fór ásamt sýrlenska Rauða hálfmánanum í sendiferð til Sweida í suðurhluta Sýrlands með nauðsynleg hjálpargögn og til að meta þarfir íbúanna á svæðinu fyrir frekari aðstoð. Fjölmargt fólk frá Sweida og nágrenni býr á Íslandi.

Palestínskur ljósmyndari hlaut mannúðarverðlaun Visa d’Or
Alþjóðastarf 29. júlí 2025Myndaröð Saher Alghorra um daglegar raunir og þjáningar íbúa Gaza er að mati forseta samtakanna Fréttamanna án landamæra „eins og högg í magann – kraftmikil og harmræn í senn“.

Góð tilfinning að geta aðstoðað fólk í erfiðum aðstæðum
Innanlandsstarf 23. júlí 2025„Í þau skipti sem ég hef smeygt mér í Rauða kross peysuna og farið af stað í útköll þá finn ég mjög sterkt hvað það gefur mér mikið,“ segir Svanhvít Sjöfn Skjaldardóttir, sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum. Hún er sjálfboðaliði í fjöldahjálp og í viðbragðshópi.