Alþjóðastarf
Mánuður frá hamförunum: Enn mikil neyð
28. apríl 2025
„Fólk heldur að um leið og fjölmiðlar hætti að fjalla um hlutina þá sé ekkert að gerast,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. Svo sé hins vegar alls ekki. „Það geta liðið mánuðir og jafnvel ár þar til fólk verður búið að ná sér eftir þetta áfall.“
Mánuður er í dag liðinn síðan 7,7 stiga jarðskjálfti varð í miðhluta Mjanmar og olli útbreiddri eyðileggingu og dauða þúsunda manna. Aðeins örfáum mínútum síðar varð 6,4 stiga eftirskjálfti sem jók enn á neyðarástandið sem hafði skapast. Hundruð minni skjálfta hafa fylgt.
Samfélög í mið- og norðurhluta landsins urðu hvað verst úti. Byggingar hrundu, tugir heilbrigðisstofnana skemmdust og urðu margar hverjar óstarfhæfar. Innviðir á borð við brýr, vegi og flugvelli ýmist eyðilögðust eða skemmdust.
Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins, ræddi afleiðingar skjálftanna og viðbragð Rauða krossins á svæðinu eftir hamfarirnar, í Krakkaheimskviðum á Rás 1. „Við settum í gang söfnun til að styðja við fólkið í Mjanmar,“ sagði Gísli m.a. um aðkomu Rauða krossins á Íslandi. Hann sagði hættu á því að hamfarir á borð við þær sem urðu í Mjanmar gleymist fljótlega eftir að þær ríða yfir. „Fólk heldur að um leið og fjölmiðlar hætta að fjalla um hlutina þá sé ekkert að gerast,“ sagði hann. Svo sé hins vegar alls ekki. „Það geta liðið mánuðir og jafnvel ár þar til fólk verður búið að ná sér eftir þetta áfall.“
Áfall ofan á áfall
Þessar gríðarlegu hamfarir bitna á fólki sem átti þegar erfitt uppdráttar vegna átaka sem geisað hafa í Mjanmar undanfarin ár undir herforingjastjórn sem nú er við völd. Og við þessar hrikalega erfiðu aðstæður starfa sjálfboðaliðar og starfsfólk Rauða krossins í landinu, með stuðningi frá Alþjóðaráði Rauða krossins og Alþjóðasamtökum Rauða krossins. Þetta er fólkið sem hefur staðið í framlínu viðbragðsaðila á vettvangi hamfaranna allt frá upphafi.
Talið er að um 1,3 milljónir manna hafi orðið fyrir beinum áhrifum af skjálftunum miklu – fólk sem hefur ekki aðeins búið við átök heldur einnig þurft að þola áhrif loftslagsbreytinga í formi ofsaveðurs.
Rauði krossinn hefur, mánuði eftir stóra skjálftann, komið tugum þúsunda til aðstoðar með ýmsum hætti, s.s. með fyrstu hjálp, mat, skjóli og vatni. Sálfélagslegur stuðningur er einnig veittur fólki sem margt hvert óttast frekari skjálfta.
Aðstæður fólks sem misst hefur heimili sín og þarf að hafast við í tjaldbúðum eða á götum úti eru erfiðar, m.a. vegna þess að mjög heitt er nú í veðri og hitinn hefur ítrekað farið yfir 40 stig. Slíkt getur skapað hættulegar aðstæður, fólk getur ofþornað og vatn, sem þegar er af skornum skammti, mengast. Hætta á smitsjúkdómum eykst samhliða.
Rauði krossinn á Íslandi minnir á neyðarsöfnun sína fyrir þolendur jarðskjálftanna. Með því að leggja þeirri söfnun lið styður þú við fólk í mikilli neyð.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Fólkið á Gaza þolir enga bið eftir aðstoð
Alþjóðastarf 21. október 2025Um 150 flutningabílar komast nú flesta daga inn á Gaza með mannúðaraðstoð. Þeir þyrftu að vera margfalt fleiri. Vopnahléð hefur ekki fært fólkinu fullkominn frið, segir framkvæmdastjóri Rauða krossins, en opnað mikilvægan glugga til að ná til þess og hann verður að nýta.
Flóttafólk vill tækifæri til að tala íslensku
Innanlandsstarf 16. október 2025Auður Guðjónsdóttir ákvað að gerast sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum er hún hætti að vinna sem kennari. Hún kennir fólki á flótta íslensku og segir það gefandi og ánægjulegt að finna löngun nemendanna til að læra tungumálið okkar.
Rafrænt HAM-námskeið fyrir Grindvíkinga
Innanlandsstarf 08. október 2025Rauði krossinn heldur áfram að bæta í verkfærakistu Grindvíkinga. Fjarnámskeið í hugrænni atferlismeðferð á vegum Framvegis – símenntunarstöðvar er nú í boði.