Alþjóðastarf
Mínútu þögn til minningar um fallna kollega
02. apríl 2025
„Kollegar okkar hjá palestínska Rauða hálfmánanum og viðbragðsaðilarnir sem þeir voru að vinna með voru skotnir til bana við að bjarga mannslífum,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. „Slíkt er óásættanlegt.“
Starfsfólk Rauða krossins á Íslandi kom saman í mínútu þögn fyrir utan skrifstofur félagsins í dag til að minnast kollega sem drepnir hafa verið við mannúðarstörf á Gaza og víðar undanfarið.
Átta bráðaliðar palestínska Rauða hálfmánans voru drepnir í síðustu viku er þeir voru að svara hjálparkalli særðra á Gaza. Starfsmaður Sameinuðu þjóðanna og starfsmenn almannavarna á Gaza hlutu sömu örlög.
Eins bráðaliða er enn saknað.

„Við erum harmi slegin,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. „Kollegar okkar hjá palestínska Rauða hálfmánanum og viðbragðsaðilarnir sem þeir voru að vinna með voru skotnir til bana við að bjarga mannslífum. Slíkt er óásættanlegt. Þeir njóta verndar í sínum störfum samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum. Þau ber að virða í hvívetna.“
Aldrei hefur fleira fólk fallið við mannúðarstörf en í fyrra samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum. Yfir þrjátíu starfsmenn og sjálfboðaliðar Rauða krossins og Rauða hálfmánans voru drepin það ár. Flest týndu þau lífi á Gaza.
Alþjóðleg mannúðarlög eru skýr: Almennir borgarar, heilbrigðisstarfsfólk og starfsfólk mannúðarsamtaka eru ekki skotmörk. Merki Rauða krossins og Rauða hálfmánans skal njóta verndar.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Bak við tjöldin í neyðarsjúkrahúsinu á Gaza
Alþjóðastarf 15. september 2025Forgangsraða þarf mat á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins í Rafah. Fyrst fá sjúklingarnir og aðstandendur þeirra að borða. Svo starfsfólkið. Mitt í neyðinni upplifir fólk fágæt en dýrmæt gleðileg augnablik. Eins og að sjá stúlku sem missti fótinn ganga á ný.

Máluðu myndir og seldu vegfarendum
Almennar fréttir 12. september 2025Frænkurnar Theodóra Guðrún Kaaber og Þórunn Björk Kaaber afhentu Rauða krossinum nýverið fé sem þær höfðu safnað fyrir fólk á Gaza og önnur verkefni félagsins.

Þekkir kasmírull úr margra metra fjarlægð
Innanlandsstarf 11. september 2025Staflar af fötum og öðrum textíl. Tonn á tonn ofan. Mörg slík á dag. Sumar flíkurnar handónýtar. Aðrar lélegar. „En inn á milli leynast oft gullmolar,“ segir Guðbjörg Rut Pálmadóttir, teymisstjóri fatasöfnunar hjá Rauða krossinum.