Alþjóðastarf
Mínútu þögn til minningar um fallna kollega
02. apríl 2025
„Kollegar okkar hjá palestínska Rauða hálfmánanum og viðbragðsaðilarnir sem þeir voru að vinna með voru skotnir til bana við að bjarga mannslífum,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. „Slíkt er óásættanlegt.“
Starfsfólk Rauða krossins á Íslandi kom saman í mínútu þögn fyrir utan skrifstofur félagsins í dag til að minnast kollega sem drepnir hafa verið við mannúðarstörf á Gaza og víðar undanfarið.
Átta bráðaliðar palestínska Rauða hálfmánans voru drepnir í síðustu viku er þeir voru að svara hjálparkalli særðra á Gaza. Starfsmaður Sameinuðu þjóðanna og starfsmenn almannavarna á Gaza hlutu sömu örlög.
Eins bráðaliða er enn saknað.
„Við erum harmi slegin,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. „Kollegar okkar hjá palestínska Rauða hálfmánanum og viðbragðsaðilarnir sem þeir voru að vinna með voru skotnir til bana við að bjarga mannslífum. Slíkt er óásættanlegt. Þeir njóta verndar í sínum störfum samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum. Þau ber að virða í hvívetna.“
Aldrei hefur fleira fólk fallið við mannúðarstörf en í fyrra samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum. Yfir þrjátíu starfsmenn og sjálfboðaliðar Rauða krossins og Rauða hálfmánans voru drepin það ár. Flest týndu þau lífi á Gaza.
Alþjóðleg mannúðarlög eru skýr: Almennir borgarar, heilbrigðisstarfsfólk og starfsfólk mannúðarsamtaka eru ekki skotmörk. Merki Rauða krossins og Rauða hálfmánans skal njóta verndar.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Söfnuðu pening í fötuna í stað sælgætis
Almennar fréttir 19. desember 2025Börn sem þurfa aðstoð eru ofarlega í hugum Jóhanns Atla, Jans Kára og Björns Dags, níu ára pilta úr Garðabæ sem söfnuðu fé fyrir Rauða krossinn.
Smíðuðu, bökuðu og föndruðu fyrir Rauða krossinn
Almennar fréttir 15. desember 2025„Við völdum Rauða krossinn því okkur finnst þau gera mikið gagn fyrir samfélagið okkar,“ sagði nemandi í Álfhólsskóla á fallegri athöfn þar sem Rauða krossinum var afhent fé sem nemendur söfnuðu á góðgerðardegi í skólanum.
Gerðist sjálfboðaliði eftir að starfsferli lauk
Innanlandsstarf 11. desember 2025Í sjö ár hefur Guðrún Salome Jónsdóttir, fyrrverandi kennari, tekið vaktir í fatabúðum Rauða krossins. Hún er þar sjálfboðaliði og segir það gefandi og veita sér ánægju.