Alþjóðastarf
Mínútu þögn til minningar um fallna kollega
02. apríl 2025
„Kollegar okkar hjá palestínska Rauða hálfmánanum og viðbragðsaðilarnir sem þeir voru að vinna með voru skotnir til bana við að bjarga mannslífum,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. „Slíkt er óásættanlegt.“
Starfsfólk Rauða krossins á Íslandi kom saman í mínútu þögn fyrir utan skrifstofur félagsins í dag til að minnast kollega sem drepnir hafa verið við mannúðarstörf á Gaza og víðar undanfarið.
Átta bráðaliðar palestínska Rauða hálfmánans voru drepnir í síðustu viku er þeir voru að svara hjálparkalli særðra á Gaza. Starfsmaður Sameinuðu þjóðanna og starfsmenn almannavarna á Gaza hlutu sömu örlög.
Eins bráðaliða er enn saknað.

„Við erum harmi slegin,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. „Kollegar okkar hjá palestínska Rauða hálfmánanum og viðbragðsaðilarnir sem þeir voru að vinna með voru skotnir til bana við að bjarga mannslífum. Slíkt er óásættanlegt. Þeir njóta verndar í sínum störfum samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum. Þau ber að virða í hvívetna.“
Aldrei hefur fleira fólk fallið við mannúðarstörf en í fyrra samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum. Yfir þrjátíu starfsmenn og sjálfboðaliðar Rauða krossins og Rauða hálfmánans voru drepin það ár. Flest týndu þau lífi á Gaza.
Alþjóðleg mannúðarlög eru skýr: Almennir borgarar, heilbrigðisstarfsfólk og starfsfólk mannúðarsamtaka eru ekki skotmörk. Merki Rauða krossins og Rauða hálfmánans skal njóta verndar.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Gátu flutt hjálpargögn til Sweida
Alþjóðastarf 30. júlí 2025Alþjóðaráð Rauða krossins fór ásamt sýrlenska Rauða hálfmánanum í sendiferð til Sweida í suðurhluta Sýrlands með nauðsynleg hjálpargögn og til að meta þarfir íbúanna á svæðinu fyrir frekari aðstoð. Fjölmargt fólk frá Sweida og nágrenni býr á Íslandi.

Palestínskur ljósmyndari hlaut mannúðarverðlaun Visa d’Or
Alþjóðastarf 29. júlí 2025Myndaröð Saher Alghorra um daglegar raunir og þjáningar íbúa Gaza er að mati forseta samtakanna Fréttamanna án landamæra „eins og högg í magann – kraftmikil og harmræn í senn“.

Góð tilfinning að geta aðstoðað fólk í erfiðum aðstæðum
Innanlandsstarf 23. júlí 2025„Í þau skipti sem ég hef smeygt mér í Rauða kross peysuna og farið af stað í útköll þá finn ég mjög sterkt hvað það gefur mér mikið,“ segir Svanhvít Sjöfn Skjaldardóttir, sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum. Hún er sjálfboðaliði í fjöldahjálp og í viðbragðshópi.