Alþjóðastarf
Mínútu þögn til minningar um fallna kollega
02. apríl 2025
„Kollegar okkar hjá palestínska Rauða hálfmánanum og viðbragðsaðilarnir sem þeir voru að vinna með voru skotnir til bana við að bjarga mannslífum,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. „Slíkt er óásættanlegt.“
Starfsfólk Rauða krossins á Íslandi kom saman í mínútu þögn fyrir utan skrifstofur félagsins í dag til að minnast kollega sem drepnir hafa verið við mannúðarstörf á Gaza og víðar undanfarið.
Átta bráðaliðar palestínska Rauða hálfmánans voru drepnir í síðustu viku er þeir voru að svara hjálparkalli særðra á Gaza. Starfsmaður Sameinuðu þjóðanna og starfsmenn almannavarna á Gaza hlutu sömu örlög.
Eins bráðaliða er enn saknað.
„Við erum harmi slegin,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. „Kollegar okkar hjá palestínska Rauða hálfmánanum og viðbragðsaðilarnir sem þeir voru að vinna með voru skotnir til bana við að bjarga mannslífum. Slíkt er óásættanlegt. Þeir njóta verndar í sínum störfum samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum. Þau ber að virða í hvívetna.“
Aldrei hefur fleira fólk fallið við mannúðarstörf en í fyrra samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum. Yfir þrjátíu starfsmenn og sjálfboðaliðar Rauða krossins og Rauða hálfmánans voru drepin það ár. Flest týndu þau lífi á Gaza.
Alþjóðleg mannúðarlög eru skýr: Almennir borgarar, heilbrigðisstarfsfólk og starfsfólk mannúðarsamtaka eru ekki skotmörk. Merki Rauða krossins og Rauða hálfmánans skal njóta verndar.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Samstaða sómalskra kvenna drifkraftur umbóta
Alþjóðastarf 06. nóvember 2025„Þrátt fyrir takmörkuð úrræði deila sómalskar konur þeirri öflugu hugsjón að konur séu konum bestar,“ segir Natalia Herrera Eslava, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum á Íslandi. Starf sómalska Rauða hálfmánans, sem Rauði krossinn á Íslandi styrkir, er mikilvægara nú en nokkru sinni.
Auglýsing um sögu Rauða krossins tilnefnd til verðlauna
Almennar fréttir 05. nóvember 2025„Saga Rauða krossins á Íslandi er löng og litrík og við lögðum mikla vinnu í að fanga rétta tilfinningu,“ segir hönnunarstjóri Strik Studio um tilnefningu til verðlauna á einni stærstu hönnunarhátíð Evrópu.
Söfnunarfé frá almenningi til Mjanmar
Alþjóðastarf 04. nóvember 2025Fé sem safnaðist í neyðarsöfnun Rauða krossins á Íslandi í kjölfar jarðskjálftanna í Mjanmar í lok mars mun nýtast Rauða krossinum þar í landi til áframhaldandi stuðnings við þolendur hamfaranna.