Alþjóðastarf
Starfsmenn Alþjóðaráðs Rauða krossins drepnir á Gaza
25. maí 2025
„Dauði Ibrahims og Ahmad, félaga okkar hjá Alþjóðaráði Rauða krossins, er hryggileg áminning um hversu grafalvarleg staða almennra borgara er,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. „Á Gaza er enginn staður öruggur.“

„Við erum miður okkar vegna dauða tveggja kærra kollega, Ibrahim Eid og Ahmad Abu Hilal, sem drepnir voru í árás á heimili þeirra í Khan Younis 24. maí,“ segir í yfirlýsingu Alþjóðaráðs Rauða krossins. Báðir voru þeir starfsmenn Alþjóðaráðsins á Gaza.
Ibrahim fór fyrir teymi Alþjóðaráðsins er fæst við að lágmarka skaða af jarðsprengjum og öðrum virkum vopnum sem skilin eru eftir á átakasvæðum. Ahmad var öryggisvörður á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins í Rafah. Rauði krossinn á Íslandi er í hópi þrettán landsfélaga sem koma að rekstri sjúkrahússins og hafa fjórir íslenskir sendifulltrúar sinnt þar störfum.
Rauði krossinn á Íslandi vottar fjölskyldum þeirra, vinum og samstarfsfólki sína dýpstu samúð. Missir þeirra skilur eftir sig djúpt sár í hjörtum okkar.
Enginn er öruggur
Dráp á almennum borgurum og mannúðarstarfsfólki á Gaza eru með öllu óásættanleg. Alþjóðaráð Rauða krossins ítrekar brýnt ákall sitt um vopnahlé og að alþjóðleg mannúðarlög, sem kveða á um vernd almennra borgara, heilbrigðis- og hjálparstarfsfólks, séu virt.
„Við höfum gríðarlegar áhyggjur af ástandinu á Gaza,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. „Dauði Ibrahims og Ahmad, félaga okkar hjá Alþjóðaráði Rauða krossins, er hryggileg áminning um hversu grafalvarleg staða almennra borgara er. Á Gaza er enginn staður öruggur.“

Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Stjórnvöld fordæmi brot á mannúðarlögum hátt og skýrt
Alþjóðastarf 26. ágúst 2025„Það er mikilvægt að stjórnvöld alls staðar, líka í litlum, friðsælum ríkjum eins og Íslandi, leggi áherslu á virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum og fordæmi hátt og skýrt þegar þau eru brotin,“ sagði Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins, í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 um stöðu mannúðaraðstoðar í heiminum.

Ókeypis vefnámskeið í sálrænni fyrstu hjálp
Almennar fréttir 25. ágúst 2025Rauði krossinn býður nú upp á vefnámskeið um sálræna fyrstu hjálp á íslensku. Allir sem vilja vera til staðar fyrir aðra þegar á reynir geta nýtt sér námskeiðið.

Ylja neyslurými Rauða krossins er 1 árs
Innanlandsstarf 12. ágúst 2025Á fyrsta starfsári sínu hefur Ylja sýnt fram á þörf fyrir öruggt neyslurými, þar sem notendur upplifa virðingu, öryggi og væntumþykju í stað útskúfunar og hættu. Traust notenda til þjónustunnar hefur byggst hratt upp vegna góðra tengsla milli notenda, starfsfólks Ylju og samstarfsaðila og lagt grunn að árangursríkri þjónustu.