Alþjóðastarf
Starfsmenn Alþjóðaráðs Rauða krossins drepnir á Gaza
25. maí 2025
„Dauði Ibrahims og Ahmad, félaga okkar hjá Alþjóðaráði Rauða krossins, er hryggileg áminning um hversu grafalvarleg staða almennra borgara er,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. „Á Gaza er enginn staður öruggur.“

„Við erum miður okkar vegna dauða tveggja kærra kollega, Ibrahim Eid og Ahmad Abu Hilal, sem drepnir voru í árás á heimili þeirra í Khan Younis 24. maí,“ segir í yfirlýsingu Alþjóðaráðs Rauða krossins. Báðir voru þeir starfsmenn Alþjóðaráðsins á Gaza.
Ibrahim fór fyrir teymi Alþjóðaráðsins er fæst við að lágmarka skaða af jarðsprengjum og öðrum virkum vopnum sem skilin eru eftir á átakasvæðum. Ahmad var öryggisvörður á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins í Rafah. Rauði krossinn á Íslandi er í hópi þrettán landsfélaga sem koma að rekstri sjúkrahússins og hafa fjórir íslenskir sendifulltrúar sinnt þar störfum.
Rauði krossinn á Íslandi vottar fjölskyldum þeirra, vinum og samstarfsfólki sína dýpstu samúð. Missir þeirra skilur eftir sig djúpt sár í hjörtum okkar.
Enginn er öruggur
Dráp á almennum borgurum og mannúðarstarfsfólki á Gaza eru með öllu óásættanleg. Alþjóðaráð Rauða krossins ítrekar brýnt ákall sitt um vopnahlé og að alþjóðleg mannúðarlög, sem kveða á um vernd almennra borgara, heilbrigðis- og hjálparstarfsfólks, séu virt.
„Við höfum gríðarlegar áhyggjur af ástandinu á Gaza,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. „Dauði Ibrahims og Ahmad, félaga okkar hjá Alþjóðaráði Rauða krossins, er hryggileg áminning um hversu grafalvarleg staða almennra borgara er. Á Gaza er enginn staður öruggur.“

Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Stærstu sveitarfélögin við Eyjafjörð semja við Rauða krossinn
Innanlandsstarf 27. maí 2025Fjallabyggð hefur bæst í hóp þeirra sveitarfélaga er samið hafa við Eyjafjarðardeild Rauða krossins um söfnun, flokkun og sölu á fatnaði og öðrum textíl á svæðinu. „Stór áfangi,“ segir Ingibjörg Halldórsdóttir deildarstjóri.

Þrjú ráðuneyti styrkja Hjálparsíma Rauða krossins
Innanlandsstarf 23. maí 2025Heilbrigðisráðherra, félags- og húsnæðismálaráðherra og mennta- og barnamálaráðherra hafa undirritað samning við Rauða krossinn sem felur í sér 25 milljóna króna styrk til reksturs Hjálparsímans 1717. „Þetta er ótrúlega mikilvæg þjónusta,“ sagði Alma D. Möller heilbrigðisráðherra er skrifað var undir samninginn í höfuðstöðvum Rauða krossins á fimmtudag.

Gaf Rauða krossinum peninginn frá ömmu
Almennar fréttir 23. maí 2025Margrét Kría, sex ára (alveg að verða sjö), mætti galvösk í höfuðstöðvar Rauða krossins nýverið til að gefa félaginu peninga sem hún hafði safnað.