Alþjóðastarf
Starfsmenn Alþjóðaráðs Rauða krossins drepnir á Gaza
25. maí 2025
„Dauði Ibrahims og Ahmad, félaga okkar hjá Alþjóðaráði Rauða krossins, er hryggileg áminning um hversu grafalvarleg staða almennra borgara er,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. „Á Gaza er enginn staður öruggur.“
„Við erum miður okkar vegna dauða tveggja kærra kollega, Ibrahim Eid og Ahmad Abu Hilal, sem drepnir voru í árás á heimili þeirra í Khan Younis 24. maí,“ segir í yfirlýsingu Alþjóðaráðs Rauða krossins. Báðir voru þeir starfsmenn Alþjóðaráðsins á Gaza.
Ibrahim fór fyrir teymi Alþjóðaráðsins er fæst við að lágmarka skaða af jarðsprengjum og öðrum virkum vopnum sem skilin eru eftir á átakasvæðum. Ahmad var öryggisvörður á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins í Rafah. Rauði krossinn á Íslandi er í hópi þrettán landsfélaga sem koma að rekstri sjúkrahússins og hafa fjórir íslenskir sendifulltrúar sinnt þar störfum.
Rauði krossinn á Íslandi vottar fjölskyldum þeirra, vinum og samstarfsfólki sína dýpstu samúð. Missir þeirra skilur eftir sig djúpt sár í hjörtum okkar.
Enginn er öruggur
Dráp á almennum borgurum og mannúðarstarfsfólki á Gaza eru með öllu óásættanleg. Alþjóðaráð Rauða krossins ítrekar brýnt ákall sitt um vopnahlé og að alþjóðleg mannúðarlög, sem kveða á um vernd almennra borgara, heilbrigðis- og hjálparstarfsfólks, séu virt.
„Við höfum gríðarlegar áhyggjur af ástandinu á Gaza,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. „Dauði Ibrahims og Ahmad, félaga okkar hjá Alþjóðaráði Rauða krossins, er hryggileg áminning um hversu grafalvarleg staða almennra borgara er. Á Gaza er enginn staður öruggur.“
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Rauði krossinn fjölgar fatakössum á höfuðborgarsvæðinu
Almennar fréttir 18. nóvember 2025Nýjum söfnunarkössum Rauða krossins fyrir fatnað og annan textíl hefur verið komið fyrir við fimm Bónusverslanir á höfuðborgarsvæðinu. Samtals eru kassarnir því á sjö stöðum á svæðinu og stefnt er á frekari útbreiðslu á næstu misserum.
Samstaða sómalskra kvenna drifkraftur umbóta
Alþjóðastarf 06. nóvember 2025„Þrátt fyrir takmörkuð úrræði deila sómalskar konur þeirri öflugu hugsjón að konur séu konum bestar,“ segir Natalia Herrera Eslava, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum á Íslandi. Starf sómalska Rauða hálfmánans, sem Rauði krossinn á Íslandi styrkir, er mikilvægara nú en nokkru sinni.
Auglýsing um sögu Rauða krossins tilnefnd til verðlauna
Almennar fréttir 05. nóvember 2025„Saga Rauða krossins á Íslandi er löng og litrík og við lögðum mikla vinnu í að fanga rétta tilfinningu,“ segir hönnunarstjóri Strik Studio um tilnefningu til verðlauna á einni stærstu hönnunarhátíð Evrópu.