Almennar fréttir
30 ár síðan þau flúðu til Íslands
28. júní 2020
Flóttafjölskylda frá Víetnam sem flutti til Íslands fyrir 30 árum heimsóttu Rauða krossinn á fimmtudaginn og þökkuðu fyrir stuðninginn sem þeim var veittur þegar þau komu.
Flóttafjölskylda frá Víetnam sem flutti til Íslands fyrir akkurat 30árum í dag heimsóttu Rauða krossinn á fimmtudaginn og þökkuðu fyrir stuðninginn semþeim var veittur þegar þau komu.
Fjölskyldan var hluti af straumi flóttafólks á tíunda áratug síðustu aldar sem neyddist til þess að flýja langvarandi ókyrrð og átök í Víetnam. Ferðalagið sem endaði á Íslandi var ekki auðvelt. Fjölskyldan flúði fyrst á bát til Hong Kong, en sú ferð tók heilan mánuð á sjó. Þar tók við líf í flóttamannabúðum, en á þeim tíma bjuggu þar um 11 þúsund manns. Eftir 6 mánaða dvöl í búðunum var flóttafólkinu veitt tímabundið atvinnuleyfi en kjörin voru þó afar bág. Loks var þeim svo boðið að flytja til Íslands en í heildina voru það 30 víetnamskir flóttamenn sem fluttust til landsins frá Hong Kong á þessum tíma. Flóttafólk sem fær hæli í gegnum flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur lítið um það að segja hvar það sest að, en þeim var boðið að flytja til Íslands öll saman í heilu lagi, sem þeim þótti afar jákvætt. Mörg þeirra höfðu aldrei heyrt um litlu eyjuna norður í hafi.
Soffía, Kristín framkvæmdastjóri Rauða krossins, Jana, Magni og Atli, sviðstjóri hjálpar- og mannúðarsviðs Rauða krossins
Í bréfi sem þau færðu Rauða krossinum stendur meðal annars:
„Á þessum tímamótum er þakklæti efst í okkar huga. Það er erfitt að setjast niður og hugsa til baka hvað hefði gerst ef við hefðum ekki fengið aðstoð frá ykkur. Við höfum komið okkur vel fyrir, lært tungumálið, öðlast fullt af réttindum og forréttindum. Okkur langar að þakka ykkur fyrir ómetanlegt starf sem þið sinnið með sóma á hverjum degi og takk fyrir tækifærið til betra lífs.
Kærar kveðjur,
Flóttafjölskyldan frá 1990“
Það er ómetanlegt fyrir Rauða krossinn að fá svona heimsókn. Saga fjölskyldunnar er mikilvæg fyrir starf Rauða krossins sem og samfélagið í heild. Að taka fólki með opnum örmum og veita þeim þann stuðning og hlýju sem þarf til að stíga sín fyrstu skref í ókunnugu landi er gefandi fyrir okkur öll.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Rafrænt HAM-námskeið fyrir Grindvíkinga
Innanlandsstarf 08. október 2025Rauði krossinn heldur áfram að bæta í verkfærakistu Grindvíkinga. Fjarnámskeið í hugrænni atferlismeðferð á vegum Framvegis – símenntunarstöðvar er nú í boði.

36 milljónir króna til mannúðarstarfs í Úkraínu
Alþjóðastarf 03. október 2025Frá því átökin í Úkraínu hófust hefur Alþjóðasamband Rauða krossins, í samstarfi við úkraínska Rauða krossinn, veitt meira en 17 milljónum einstaklinga mannúðaraðstoð. Á sama tíma hefur Rauði krossinn á Íslandi, með dyggum stuðningi utanríkisráðuneytisins, veitt rúmlega 265,8 milljónum króna til mannúðarstarfs í landinu.

Rauði krossinn neyðist til að yfirgefa Gazaborg
Alþjóðastarf 01. október 2025Fánar við skrifstofur Alþjóðaráðs Rauða krossins í Gazaborg hafa verið dregnir niður og allt starfsfólkið flutt sig til suðurhluta Gaza. Harðandi hernaðaraðgerðir leiddu til þess að þessi erfiða ákvörðun var tekin.